Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 961/2000

8.10.2000

Vinna við hljóðupptökur - virðisaukaskattsskyld velta.

8. október 2000
G-Ákv. 00-961

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dagsett 31. ágúst 2000, þar sem þér óskið eftir upplýsingum um það hvort vinna við hljóðupptökur hérlendis og seld er úr landi sé virðisaukaskattsskyld. Í bréfi yðar kemur fram að þér hafið selt þjónustuna með virðisaukaskatti til aðila, sem búsettir eru erlendis, og hafa þeir eftir atvikum sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Nú hefur það gerst að einn af erlendu viðskiptamönnum yðar neitar að greiða virðisaukaskatt af umræddri þjónustu þar sem hann telur hana undanþegna virðisaukaskatti. Af þeim sökum óskið þér eftir skriflegu svari ríkisskattstjóra við því hvort þér eigið að innheimta virðisaukaskatt af vinnu við hljóðupptökur.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skattskyldusviðið tekur til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er í lögunum sérstaklega lýst undanþegin. Vinna við hljóðupptökur er virðisaukaskattsskyld enda fellur hún ekki undir þá tæmandi talningu á vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, sbr. 3. mgr. 2. gr.

Um virðisaukaskattsskylda veltu skattskylds aðila er fjallað í 11. gr. laga um virðisaukaskatt. Í 12. gr. er hins vegar talin upp sú vara og þjónusta sem telst ekki til skattskyldrar veltu, en við afhendingu slíkrar vöru eða þjónustu á ekki að innheimta útskatt.

Í 1. tölulið 1. mgr. 12. gr. kemur m.a. fram að þjónusta sem veitt er erlendis teljist ekki til skattskyldrar veltu. Í greinargerð frumvarps er varð að virðisaukaskattslögum segir að hér sé verið að undanþiggja skattskyldu vinnu og þjónustu sem veitt er og seld erlendis. Með undanþáguákvæðinu er þannig eingöngu verið að undanþiggja þjónustu sem innt er af hendi utan íslenskrar lögsögu.

Þar sem þér innið vinnuna við hljóðupptökur af hendi innan íslenskrar lögsögu þá getur sú þjónusta ekki verið undanþegin skattskyldu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 12. gr.

Þegar þjónustuverk er unnið hér á landi getur það verið undanþegið skattskyldri veltu á grundvelli 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Í 10. tölul. kemur fram að til skattskyldrar veltu teljist ekki sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Jafnframt er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr laga um virðisaukaskatt. Eftirfarandi þjónusta fellur undir 10. tölul. og er um tæmandi talningu að ræða:

a.   framsal á höfundarétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda,

b.   auglýsingaþjónusta,

c.   ráðgjafaþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi,

d.   tölvuþjónusta, önnur gagnavinnsla og upplýsingamiðlun,

e.   kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í þessum tölulið,

f.    atvinnumiðlun,

g.   leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja,

h.   þjónusta milligöngumanna sem fram koma í nafni annars og fyrir reikning annars að því er varðar sölu eða afhendingu þjónustu sem um ræðir í þessum tölulið,

i.    fjarskiptaþjónusta.

Það er mat ríkisskattstjóra að vinna við hljóðupptökur teljist ekki til þeirrar þjónustu sem undanþegin er skattskyldri veltu skv. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.

Þar sem vinna yðar við hljóðupptökur telst hvorki undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 3. mgr. 2. gr. né undanþegin skattskyldri veltu á grundvelli 1. tölul. eða 12. tölul. 1. mgr. 12. gr. þá telur ríkisskattstjóri vinnuna virðisaukaskattsskylda. Þér hafið því með réttu reiknað og innheimt virðisaukaskatt vegna umræddrar vinnu. Erlendu viðskiptamenn yðar geta hins vegar átt rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. ákvæðum reglugerðar nr. 288/1995.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum