Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 954/2000

11.8.2000

Vsk - fiskafurðir til útflutnings – afreikningar

11. ágúst 2000
G-Ákv. 00-954

Vísað er til bréfs yðar sem dagsett er 16. febrúar 2000. Í því segir m.a. að á undanförnum árum hafi helstu fisksölufyrirtæki landsins selt afurðir framleiðenda í umboðssölu eða með beinum kaupum. Í þessum viðskiptum hafi umboðssölufyrirtækin gert afreikninga fyrir söluandvirðinu við greiðslu reikninganna. Þessi sala hafi verið án virðisaukaskatts sbr. reglugerð nr. 563/1989. Með frekari tölvuvæðingu félaga og til að tryggja enn frekar öryggi í skráningu birgða og afskipana hafi nokkur félög tekið upp þá reglu að gera reikninga fyrir öllum vörum sem afhentar eru. Þessir reikningar séu gerðir án tillits til þess hvort varan er afhent fisksölufyrirtækjum, sem sjá um sölu hennar, eða beint til kaupanda. Breytingin sem hér um ræðir felist einungis í því að í stað afreikninga frá sölufyrirtækjum er gerður reikningur frá framleiðanda. Ábyrgð framleiðandans á vörunni hafi ekki breyst og greiðsluskylda fisksölufyrirtækjanna sé hin sama. Þrátt fyrir þetta hafi vaknað spurningar um hvort þessi breyting valdi því að framleiðslufyrirtækin þurfi að innheimta virðisaukaskatt. Óskað er upplýsinga frá ríkisskattstjóra um hvort fisksölufyrirtækjum (sic.) beri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af umræddri sölu eða hvort þessi nýja vinnuregla um útgáfu reikninga rúmist innan þeirra heimilda sem tilvitnuð reglugerð veitir.

Af fyrirspurninni verður ráðið að umrædd viðskipti séu með tvennum hætti. Annars vegar að fisksölufyrirtæki taki afurðir framleiðenda til umboðs- eða umsýslusölu fyrir reikning framleiðenda og hins vegar að fisksölufyrirtæki kaupi afurðir framleiðenda til endursölu fyrir eigin reikning. Er sá skilningur í samræmi við þær upplýsingar um eðli viðskiptanna sem gefnar hafa verið í fjölmörgum munnlegum fyrirspurnum er beint hefur verið til embættis ríkisskattstjóra á liðnum árum og svarað hefur verið munnlega.

Til svars við erindi yðar, svo og til ítrekunar á fyrri svörum, skal eftirfarandi tekið fram:

Meginregla virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, sem fram kemur m.a. í 1. og 11. gr. þeirra, er að greiða ber virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum og að seljanda ber að innheimta skattinn við sérhverja sölu eða afhendingu vöru eða verðmæta gegn greiðslu. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 563/1989, um uppgjör, uppgjörstímabil og skil fiskvinnslufyrirtækja felur í sér frávik frá meginreglunni. Samkvæmt ákvæðinu telst afhending fiskafurða til aðila, sem tekur að sér afurðir þessar í umsýslu- eða umboðssölu úr landi, undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skilyrði fyrir þessari undanþágu eru:

  1. Um sé að ræða afhendingu fiskafurða til umsýslu- eða umboðssölu úr landi.
  2. Afurðirnar séu fluttar beint frá vinnslustöð um borð í millilandafar eða þeim skipað um borð í millilandafar í framhaldi af flutningi frá vinnslustöð.
  3. Umboðs- eða umsýslumaðurinn gefi út móttökukvittun vegna afurðanna þar sem því er lýst yfir að þær séu teknar til sölu úr landi og verði ekki seldar á innanlandsmarkaði. Skjöl þessi skal varðveita í bókhaldi vinnslustöðvarinnar. Þá skal umsýslu- eða umboðsmaður við uppgjör viðskiptanna gefa út afreikning, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila (nú 6. gr. reglugerðar nr. 50/1993), þar sem m.a. komi fram tilvísun í móttökukvittanir þessar.

Taki umsýslu- eða umboðsmaður afurðirnar í sínar vörslur án þess að 1. mgr. 1. gr. eigi við skal fiskvinnslufyrirtækið innheimta virðisaukaskatt af sölunni eða afhendingunni í samræmi við almennar reglur 1. mgr. 11. gr., sbr. 4. mgr. 13. gr., laga nr. 50/1988, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. tilvitnaðrar reglugerðar. Sala eða afhending frá umsýslu- eða umboðsmanni fellur í slíku tilviki undir almennar reglur 2. mgr. 11. gr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt þessu er ljóst að sala afurða frá fiskframleiðanda (fiskvinnslufyrirtæki) til fisksölufyrirtækis ber virðisaukaskatt, enda er þá ekki um að ræða umsýslu- eða umboðssölu úr landi. Að sama skapi er ljóst að afhending afurða frá fiskframleiðanda (fiskvinnslufyrirtæki) til fisksölufyrirtækis ber virðisaukaskatt þótt um sé að ræða umboðs- eða umsýsluviðskipti við útflutning ef ekki eru uppfyllt öll framangreind skilyrði 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 563/1989, þ.m.t. skilyrði um útgáfu móttökukvittunar og afreiknings. Í báðum tilvikum getur fisksölufyrirtækið þó haldið sinni sölu úr landi utan skattskyldrar veltu skv. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, enda varðveiti það útflutningsskýrslur skv. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara bréfi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum