Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 950/2000

29.6.2000

Endurupptaka á úrskurði ríkisskattstjóra.

29. júní 2000
G-Ákv. 00-950

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. desember 1999, þar sem óskað er upplýsinga um það hvort mögulegt sé að mál umbjóðanda yðar verði tekið til meðferðar hjá ríkisskattstjóra.

Málavextir eru þeir að ríkisskattstjóri kannaði tekjuskráningu, bókhald og skattskil umbjóðanda yðar og gerði skýrslu um þá könnun  sem lið í skatteftirliti. Á grundvelli skýrslunnar boðaði ríkisskattstjóri breytingar á skattskilum fyrir rekstrarárið 1994. Engin gögn eða andmæli bárust er gáfu tilefni til breytinga á boðaðri lækkun ríkisskattstjóra á rekstrarkostnaði og innskatti og var því boðuðum breytingum hrint í framkvæmd með úrskurði sem dagsettur er 14. október 1997. Umbjóðandi yðar kærði úrskurðinn til yfirskattanefndar. Fyrir yfirskattanefnd var kærunni vísað frá þar sem hún barst að kærufresti liðnum. Þegar innheimtumaður ríkissjóðs hugðist gera aðför til fullnustu kröfum vegna umræddra breytinga og einnig vegna álagðra opinberra gjalda þá skaut umbjóðandi yðar málinu til héraðsdóms. Umbjóðandi yðar kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti var talið að slíkir annmarkar væru á reifun málsins og röksemdafærslu að ófært væri að taka afstöðu til þess og var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Að því er virðisaukaskatt varðar byggðist umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra á heimild í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 75/1981, tekjuskatt og eignarskatt. Í því sambandi voru uppfyllt skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1988, bæði að því er varðar andmælarétt gjaldanda og tímamark heimildar til endurákvörðunar. Þá leiðbeindi ríkisskattstjóri gjaldanda í úrskurði sínum um kærurétt til yfirskattanefndar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls almennt ekki rétt á því að fá mál af umræddum toga endurupptekið nema ákvörðun stjórnvalds hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því aðeins að veigamiklar ástæður mæli með því ef ár er liðið frá því honum var tilkynnt um ákvörðunina. Af fyrirspurn yðar verður ekkert um það ráðið hvort til staðar séu veigamiklar ástæður fyrir endurupptöku málsins eða hvort ákvörðun ríkisskattstjóra frá 14. október 1997 hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sem þýðingu höfðu við ákvörðun hans. Ríkisskattstjóri getur að svo stöddu ekki látið í ljós álit sitt á því hvort skilyrði endurupptöku eru til staðar en vísar til framangreindrar umfjöllunar um skilyrðin.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara erindi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum