Ákvarðandi bréf nr. 949/2000
Virðisaukaskattur - sérfræðiþjónusta - sálfræðingar - þjónusta við fyrirtæki
28. júní 2000
G-Ákv. 00-949
Vísað er til fyrirspurnar yðar, dags. 11. maí 2000, þar sem spurst er fyrir um hvort starfsemi fyrirtækis yðar, A, sé virðisaukaskattsskyld eða ekki. Fram kemur í bréfi yðar að þér séuð með embættispróf í klínískri sálarfræði og hafið hlotið sérfræðiviðurkenningu breska sálfræðingafélagsins á því sviði. Undanfarin ár hafið þér starfað við eigin sálfræðistofu í Reykjavík. Nýlega stofnuðuð þér framangreint fyrirtæki (A) með það í huga að nýta sérfræðiþekkingu yðar í þágu fyrirtækja og stofnana. Tilgangurinn með starfsemi þess sé að gefa fyrirtækjum og stofnunum kost á sérfræðiþjónustu klínísks sálfræðings við úttekt og lausn mannlegs vanda sem upp kann að koma meðal starfsmanna. Ekki sé neinn eðlismunur á starfsemi A þó að vettvangurinn sé annar en hefðbundinn vettvangur klínískra sálfræðinga, þ.e. einkastofa eða spítalaumhverfi þar sem einstaklingar og/eða fjölskyldur eiga í hlut. Í öllum tilfellum sé um einkennagreiningu mannlegs vanda að ræða þar sem aðferðum klínískrar sálarfræði er beitt til að koma breytingum til leiðar sem skila sér í betri líðan og heilbrigði. Það kemur ennfremur fram í bréfi yðar að starfsemi A felist ekki í ráðgjöf, námskeiðahaldi, fyrirlestrum eða fyrirframtilbúnum ,,pakka/heildarlausnum". A hefur ferlið þar sem einstaklingurinn er ,,staddur" og tekur öll framvinda mið af niðurstöðum úr trúnaðarviðtölum.
Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.
Við afmörkun á hugtakinu ,,önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði; 1) að um sé að ræða þjónustu sem falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.
Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga samkvæmt reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé ekki virðisaukaskattsskyld skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, svo og umræddir sérfræðingar sem starfa á sviði félagslegrar þjónustu í skilningi 2. tölul. sömu málsgreinar.
Ekki er teljandi munur á fyrirtækjaráðgjöf annars vegar og annarri meðferð eða ráðgjöf sálfræðinga gagnvart skjólstæðingum sínum hins vegar ef hún er veitt starfsmönnum einstakra fyrirtækja enda þótt slík ráðgjöf eða meðferð sé í formi námskeiðs. Á hinn bóginn er bein ráðgjöf til fyrirtækja eða stofnana, þ.e. ópersónubundin ráðgjöf varðandi atriði er tengjast rekstri stofnunar eða fyrirtækis, virðisaukaskattsskyld enda sé hvorki um að ræða námskeið í hefðbundinni merkingu þess orðs né meðferð eða ráðgjöf gagnvart einstökum skjólstæðingum, sbr. bréf ríkisskattstjóra nr. 689/95, dags. 23. júní 1995.
Samkvæmt framangreindu þarf, við mat á því hvort starfsemi A telst undanþegin virðisaukaskatti, að greina milli þess hvort hún sé fólgin í ráðgjöf eða meðferð af hálfu sálfræðings með viðeigandi sérfræðileyfi og sem beinist að starfsmönnum fyrirtækja eða á hinn bóginn hvort um sé að ræða ópersónubundna ráðgjöf er snýr að rekstri stofnunar eða fyrirtækis. Af framkomnum upplýsingum yðar virðist mega ráða að stafsemi fyrirtækis yðar falli í fyrri flokkinn og teljist þar af leiðandi undanþegin virðisaukaskatti.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á við að svara fyrirspurn yðar.
Ríkisskattstjóri