Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 943/2000

10.5.2000

Virðisaukaskattur - gjafakort (gjafabréf) - starfsemi banka og sparisjóða sbr. 44. gr. laga nr. 113/1996 - greiðslumiðlun.

10. maí 2000
G-Ákv. 00-943

Vísað er til bréfs yðar dags. 29. febrúar 2000.  Í bréfi yðar er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sala A á gjafakortum, sem gilda hjá öllum rekstraraðilum í B, falli undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Í bréfi yðar kemur fram að A lítur svo á að sala á gjafakortum sé í raun greiðslumiðlunarþjónusta sem telja verði undanþegna virðisaukaskatti með vísan til 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.  Einnig kemur fram í bréfinu að gjafakortunum megi í flestum tilvikum líkja við ávísanir sem gilda hjá öllum rekstraraðilum í B og í reglum B komi skýrt fram að gjafakortin séu ávísun á greiðslu og því sé ætlast til þess að gefið sé til baka í peningum ef ekki er keypt fyrir alla upphæð kortsins. 

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram. 

I.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Að því er þjónustu varðar tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laganna.  Samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna er undanþegin virðisaukaskatti; þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun.

Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að undanþágan taki til þjónustu sem bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum er ætlað að veita lögum samkvæmt, óháð því hver veitir þá þjónustu eða hverjum hún er veitt.  Undanþágan tekur aðeins til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, en ekki til annarrar þjónustu sem þær stofnanir kunna að veita.

II.

Við mat á því hvað telst vera eiginleg þjónusta banka og sparisjóða hefur ríkisskattstjóri m.a. litið til þess sem fram kemur í 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.  Í 4. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996 er greiðslumiðlun nefnd sem starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða en hvorki er í lögunum né lögskýringargögnum að finna skilgreiningu á hugtakinu. 

Hinn 3. maí 2000 hafði ríkisskattstjóri samband við viðskiptaráðuneytið og var farið fram á að ráðuneytið skilgreindi hvað væri átt við með hugtakinu greiðslumiðlun í 44. gr. laga nr. 113/1996..  Í svari frá viðskiptaráðuneytinu, dags. 3. maí 2000, kemur eftirfarandi fram um skilgreiningu á hugtakinu: 

„Hugtakið greiðslumiðlun kemur fyrir í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og í lögum um Seðlabanka en er ekki skilgreint.  Seðlabankinn hefur það hlutverk að stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.  Hin almenna skilgreining á hugtakinu er mjög víð, þ.e. greiðslumiðlun snýst um að koma fé á milli tveggja eða fleiri aðila.  Greiðslukerfi eru hins vegar þær skipulegu aðferðir sem notaðar eru við greiðslumiðlunina.  Um greiðslukerfi gilda lög nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum. 

Skv. 44. gr. viðskiptabankalaga hafa viðskiptabankar og sparisjóðir heimild til að stunda greiðslumiðlun, þ.e. að koma fé á milli tveggja eða fleiri aðila.  Það geta þeir ekki gert nema að vera hluti af greiðslukerfi og jafna greiðslum í greiðslujöfnunarstöð“.

Í lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, eru skilgreind hugtökin greiðslukerfi, greiðslujöfnun og greiðslufyrirmæli, en ekki er þar að finna skilgreiningu á hugtakinu greiðslumiðlun.

Af svari viðskiptaráðuneytisins frá 3. maí 2000 má það vera ljóst að með greiðslumiðlun í 44. gr. laga nr. 113/1996 er átt við flutning á fjármagni á milli tveggja eða fleiri aðila.  Einnig kemur fram í svari ráðuneytisins að þessi flutningur fjármagns þarf að fara fram í greiðslukerfi sem uppfyllir skilyrði laga nr. 113/1996.

Sú starfsemi sem A rekur með útgáfu gjafakorta er að áliti ríkisskattstjóra ekki greiðslumiðlun, sbr. 4. tölul. 44. gr. laga nr. 113/1996, með vísan til þess sem fram kemur í svari viðskiptaráðuneytisins, dags. 3. maí 2000, enda er með greiðslumiðlun átt við miðlun á fjármunum.  Handhafi gjafakorts á takmörkuð fjármunaréttindi í B þ.e. hann getur fengið afhentar vörur hjá rekstraraðilum B gegn framvísun gjafakortsins en hann getur ekki fengið fé við framsal gjafakortsins án þess að taka út vörur hjá rekstraraðilum B.  Að áliti ríkisskattstjóra verður gjafakortunum ekki líkt við ávísanir þar sem handhafi ávísunar getur fengið fé við framsal ávísunar en handhafi gjafakorts getur ekki fengið fé við framsal gjafakortsins án þess að taka út vörur hjá rekstraraðilum B. 

Á grundvelli framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að sala A á gjafakortum falli ekki  undir umrætt undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, enda er ekki um að ræða eiginlega þjónustu sem bankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir veita.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum