Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 936/2000

6.3.2000

Sala notaðra vélknúinna ökutækja - frádráttur frá reiknuðum útskatti skv. 8. mgr. 16. gr. sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988.

6. mars 2000
G-Ákv. 00-936

Vísað er til bréfs yðar frá 15. nóvember 1999. Í bréfinu er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi álit sitt á því hvort ástæða sé til að ætla að verklagsreglur ríkisskattstjóra frá apríl 1995, um það hvernig túlka eigi frádráttarreglu 8. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi breyst eða eitthvað hafi gert það að verkum að þær standist ekki lengur. Í bréfi yðar vísið þér m.a. til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 818/1998. 

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 818/1998 reyndi á 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988, sem geymir sérreglu um skattverð við sölu notaðra vélknúinna ökutækja sem seljandi hefur keypt til endursölu í atvinnuskyni. Umrædd málsgrein sætti smávægilegum breytingum með lögum nr. 106/1990 og 119/1989. Upphaflega tók ákvæðið aðeins til notaðra fólksbifreiða en síðar til notaðra vélknúinna ökutækja, sbr. lög nr. 122/1993. Ákvæðið heimilar, undir þeim kringumstæðum sem það tekur til, að skattverð sé miðað við 80,32% af mismun innkaupsverðs og söluverðs ökutækis að meðtöldum virðisaukaskatti. Ávallt hefur komið fram í ákvæðinu að sé söluverð lægra en kaupverð reiknast enginn skattur.  

Ágreiningurinn í umræddu máli varðaði það hvort kæranda hefði á rekstrarárinu 1993 verið heimilt að miða útreikning skattskyldrar veltu og útskatts við heildarniðurstöðu hverra bifreiðaviðskipta fyrir sig, t.d. þegar um skipti og uppítöku var að ræða, eða hvort honum hefði borið að miða við sölu hverrar einstakrar bifreiðar óháð endanlegri heildarniðurstöðu viðskiptanna. Af hálfu kæranda kom m.a. fram að oft byggist endurgjald í viðskiptum með bifreiðar á uppítökubifreiðum þar sem verð á einstöku bifreiðum skipti ekki öllu máli heldur heildarútkoman úr viðskiptunum þegar upp er staðið. Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að á þetta sjónarmið hafi skattstjóri fallist vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts kæranda árið 1994. Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum sé ljóst að við sölu bifreiða, sem kærandi hafði hagnað af, hafi orðið tap af sölu uppítökubifreiðar. Að því virtu sem fyrir liggi í málinu og með hliðsjón af grundvallarsjónarmiðum laga nr. 50/1988 þyki bera að fallast á kröfu kæranda um að taka tillit til þeirra viðskipta.

Eins og þér bendið réttilega á varðar úrskurðurinn eldri tíma en reglan í 8. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 tekur til, en með 3. gr. laga nr. 40/1995  var 8. mgr. bætt við 16. gr. laga um virðisaukaskatt. Þar segir að þeir aðilar, sem um ræðir í 1. mgr. 10. gr., geta við skil á virðisaukaskatti dregið frá reiknuðum útskatti á hverju uppgjörstímabili 19,68% af neikvæðum mismun á söluverði og innkaupsverði seldra ökutækja á viðkomandi uppgjörstímabili, enda eigi formskilyrði 3. mgr. 10. gr. við um söluna að öðru leyti.

Í athugasemdum við frumvarpið segir um téða 3. gr.

Með þessu ákvæði er verið að gera þeim aðilum, sem geta nýtt sér skattverðsreglu 1. mgr. 10. gr., kleift að leiðrétta skattskil vegna taps á sölu einstakra ökutækja á hverju uppgjörstímabili. Þessi frádráttarregla tekur ekki til þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. mgr. 10. gr., þ.e. bílaleiga og tryggingafélaga.

Á þessum skýringum sést glöggt að ákvæðinu er ætlað að ná til sölu á einstökum ökutækjum á hverju uppgjörstímabili. Í skýringunum kemur einnig fram að um frádráttarreglu er að ræða. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er um heimildarákvæði að ræða til frádráttar frá reiknuðum útskatti. Er því ekki um eiginlega innskattsreglu að ræða og þarafleiðandi er ekki rétt að líta á þennan frádrátt sem innskattsinneign sem flytja mætti milli tímabila ef því væri að skipta.

Í bréfi yðar er vísað til þess með því að miða þessa umræddu frádráttarreglu við hvert einstakt uppgjörstímabil virðisaukaskatts skapist mikið ójafnræði milli þeirra sem eru í ársskilum og þeirra sem hafa tveggja mánaða skilamáta í virðisaukaskatti. Vissulega má setja fram dæmi þar sem slíkt leiðir til mismununar en ríkisskattstjóri telur þó ekki unnt að ganga gegn skýru orðalagi ákvæðis 8. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 sem kveður á um að frádrátturinn gildi einungis fyrir hvert uppgjörstímabil fyrir sig.

Af framansögðu má því ljóst vera að túlkun ríkisskattstjóra á 8. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er óbreytt og að leiðbeiningar  ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum frá apríl 1995 eru í fullu gildi hvað þessa frádráttarheimild varðar eftir gildistöku 3. gr. laga nr. 40/1995. Sjá einnig á bls. 23 í leiðbeiningum RSK 11.19 frá desember 1998. Tekið skal fram að í leiðbeiningum er oft talað um umrædda reglu sem innskattsreglu. Það er aðeins gert til hægðarauka. Áréttað skal að hér er aðeins um sérstaka frádráttarreglu að ræða.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum