Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 926/1999

22.12.1999

Virðisaukaskattur – vöruflutningar - innheimtugjald (þjónustugjald).

22. desember 1999
G-Ákv. 99-926

Vísað er til bréfs yðar, sem móttekið var hjá ríkisskattstjóra þann 16. september 1999, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af innheimtugjaldi vegna vöruflutninga milli landa. Innheimtugjaldið er innheimt þegar flutningsgjöld eru greidd hér heima (collect) og er það 2% af flutningsgjaldi. Tekið er fram í fyrirspurninni að líta beri á Flugflutninga sem farmflytjanda.

Hvers konar vöruflutningar eru virðisaukaskattsskyld starfsemi. Innlendir aðilar sem hafa vöruflutninga með höndum í atvinnuskyni skulu tilkynna starfsemi sína til skattstjóra, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Vöruflutningar milli landa eru undanþegnir skattskyldri veltu (bera „núll-skatt“) samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Það sama gildir um vöruflutninga innanlands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Með vöruflutningum milli landa er átt við flutning á vöru frá tilteknum stað erlendis til áfangastaðar hérlendis og öfugt. Undanþágan er túlkuð svo að hún taki aðeins til þeirra vöruflutninga innanlands sem flutningsaðili tekur að sér samkvæmt heildarflutningssamningi um flutning vöru frá tilteknum stað innanlands til tiltekins staðar erlendis eða öfugt (door to door). Samkvæmt undanþáguákvæðinu er aðeins heimilt að halda endurgjaldi fyrir innanlandsflutning utan skattskyldrar veltu þegar flutt er beint til eða frá landinu. Þessi undanþága leiðir af undanþágu millilandaflutninga og er sett vegna þess að erfitt getur reynst að skipta flutningskostnaði t.d. vegna flutnings með skipi sem kemur við í mörgum höfnum innanlands áður en það kemur til endanlegs áfangastaðar.

Þannig getur flutningsaðili sem tekið hefur að sér að flytja vöru til eða frá landinu haldið öllu flutningsgjaldinu utan skattskyldrar veltu þótt hluti þess sé vegna vöruflutnings sem fer fram innanlands t.d. framhaldsflutnings á innlenda höfn eða akstur til viðtakanda vöru.

Undanþáguákvæðið tekur bæði til ; 

  1. endurgjalds fyrir hina eiginlegu flutningsþjónustu og
  2. þóknunar fyrir skattskylda þjónustu sem flutningsaðili innir af hendi hér á landi vegna millilandaflutnings samkvæmt venju í greininni. Skilyrði er að flutningssamningur kveði á um þessa aukaþjónustu og hún sé færð á sama sölureikning og hin eiginlega flutningsþjónusta. Sem dæmi um aukaþjónustu af þessu tagi má nefna:
  • fermingu og affermingu,
  • pökkun í flutningsumbúðir, merkingu og vigtun,
  • umsýslu vegna tollafgreiðslu.

Hins vegar ber innlendum undirverktökum eða þjónustuaðilum sem selja farmflytjanda þjónustu sína, aðra en sjálfan flutninginn milli landa, að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptum sínum samkvæmt almennum reglum.

Varðandi sönnun á því að undanþágan eigi við um innanlandsflutning þá skal tekið fram að áfangastaður innanlands er sá staður sem tilgreindur  er í farmsamningi. Flutningsaðili skal ávallt geta lagt fram áreiðanleg skjöl til sönnunar því að undanþágan taki til þjónustu hans. Þau skjöl geta verið afrit af farmbréfi eða farmreikningi þar sem áfangastaður kemur fram.

Með hliðsjón af ofansögðu er það niðurstaða ríkisskattstjóra að þegar um vöruflutning er að ræða sem fellur undir ákvæði 2. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt þá teljist innheimtugjald það sem spurt er um einnig undanþegið virðisaukaskatti, sem hluti af seldri flutningsþjónustu á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum