Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 922/1999

16.11.1999

Virðisaukaskattur - starf heilbrigðisfulltrúa - seld aðstaða - endurgreiðsla.

16. nóvember 1999
G-Ákv. 99-922

Með bréfi HS og Rf dagsettu 25. október 1999 voru lögð fram drög að samkomulagi milli HS og Rf um framkvæmd heilbrigðiseftirlits í Vestmannaeyjum.  Með vísan til efnis samkomulagsdraganna eru í bréfinu bornar fram tvær spurningar.

  1. Er sérfræðiþjónusta Rf í Vestmannaeyjum í þessu tilfelli virðisaukaskattsskyld?
  2. Ef svo er, fær HS virðisaukaskattinn endurgreiddan?

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila með síðari breytingum, skulu opinber þjónustufyrirtæki, sem hafa það að meginmarkmiði að selja vörur eða skattskylda þjónustu til annarra, greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni, þ.m.t. úttekt til eigin nota eiganda og afhendingu til annarra opinberra aðila.  Skulu þau innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu sinni og skila honum í ríkissjóð að frádregnum innskatti af aðföngum.  Að virtu lögmæltu hlutverki Rf í Vestmannaeyjum (RfV) sbr. 28. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, verður ekki annað ráðið en að rannsóknarstofnunin sé virðisaukaskattsskyld á grundvelli framangreinds ákvæðis.

Af framlögðum samkomulagsdrögum verður ráðið að tveimur starfsmönnum RfV sé auk starfa sinna í þágu RfV falið að gegna störfum heilbrigðisfulltrúa í þágu HS.  Fram kemur að starfsmennirnir lúta stjórn framkvæmdastjóra HS í starfi sínu við heilbrigðiseftirlit.  Þá kemur í drögunum fram að RfV greiði allan launakostnað starfsmannanna í umboði HS.  Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að umræddir heilbrigðisfulltrúar séu starfsmenn HS að því er lýtur að starfi þeirra sem heilbrigðisfulltrúa.  Í samræmi við það þykir ekki bera að líta svo á að RfV selji HS þjónustu umræddra starfsmanna.  Kröfur RfV á hendur HS um greiðslu launakostnaðar starfsmannanna, sem RfV innir af hendi í umboði HS, bera því ekki virðisaukaskatt.

Í samkomulagsdrögunum er gert ráð fyrir að RfV leggi HS til starfsaðstöðu fyrir heilbrigðisfulltrúana.  Fyrir þá þjónustu og þá þjónustu er RfV innir af hendi fyrir HS vegna umsjónar með launagreiðslum til starfsmanna er í samkomulagsdrögunum gert ráð fyrir að HS greiði RfV mánaðarlega þóknun.

Hin ráðgerða þjónusta fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts eins og hún er skilgreind í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  RfV ber því sem skattskyldum aðila, sbr. framanritað, að innheimta virðisaukaskatt af þóknun fyrir þjónustuna og standa skil á þeim skatti í ríkissjóð, að frádregnum innskatti af aðföngum.  Innskattsréttur er samkvæmt almennum reglum þar um með þeirri takmörkun þó sem kann að leiða af ákvæði 10. gr. reglugerðar um innskatt nr. 192/1993.

Umrædd þjónusta fellur ekki undir upptalningu 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 á þeirri þjónustu sem virðisaukaskattur er endurgreiddur af til ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra.  HS á því ekki rétt til endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem það greiðir RfV komi til framkvæmda samkomulag aðilanna skv. fyrirliggjandi drögum.  Hins vegar þykir, að virtu starfssviði heilbrigðisfulltrúa og að virtum menntunarkröfum sem gerðar eru til þeirra sbr. reglugerð nr. 294/1995, um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa, bera að líta svo á að þjónusta heilbrigðisfulltrúa falli undir skilgreiningu 5. tl. umræddrar 3. mgr. 42. gr. á sérfræðiþjónustu.  HS ætti því rétt á endurgreiðslu greidds virðisaukaskatts af slíkri þjónustu væri um það að ræða að þjónusta heilbrigðisfulltrúa væri keypt af RfV, enda bæri RfV af innheimta virðisaukaskatt af slíkri þjónustu og standa skil á honum í ríkissjóð.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum