Ákvarðandi bréf nr. 921/1999
Virðisaukaskattur - opinberir aðilar - ríkisstofnanir - samkeppni
5. nóvember 1999
G-Ákv. 99-921
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. maí 1999, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á stöðu H með tilliti til virðisaukaskatts. Í bréfi yðar kemur m.a. fram að þeir þættir í starfseminni sem hugsanlega séu virðisaukaskattsskyldir hafi í eðli sínu ekki mikið breyst frá áliti ríkisskattstjóra frá því í febrúar 1991 (tilv. 233/91). Stofnuninni sé hins vegar ljóst að á þessu tímabili, sem síðan er liðið, hafi viðhorf og starfsumhverfi verið að breytast, ekki síst út frá samkeppnissjónarmiðum. Á síðastliðnu ári hafi H t.d. verið gert með úrskurði Samkeppnisstofnunar að aðgreina rekstur rannsóknarstofu frá allri annarri starfsemi stofnunarinnar.
Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:
Ákvæði um H eru nú í III. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuvernd og mengunarvarnir. H er ríkisstofnun og meginhlutverk hennar er að annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 7/1998 og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni sem undir lögin falla, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna og athugasemdir með lagafrumvarpinu. Stofnunin hefur yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skal sjá um vöktun og að rannsóknir þessu tengdar séu framkvæmdar, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Samkvæmt lögskýringargögnum og skilgreiningum í 3. gr. laganna er hlutverk H að mestu óbreytt frá því sem var skv. III. kafla eldri laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
Á meðal nýmæla laga nr. 7/1998 er að skv. 2. mgr. 18. gr. skal öll starfsemi H sem er í samkeppnisrekstri vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi hennar. Undir þetta fellur m.a. sala á þjónustu, ráðgjöf, rannsóknum og prófunum og hverskonar eftirlitsstarfsemi sem þar kann að vera stunduð. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir um þetta að hér sé einkum átt við rannsóknarstarfsemi en matvælarannsóknir stofnunarinnar séu reknar í samkeppni við einkafyrirtæki að hluta til. Þetta ákvæði virðist sett vegna álits samkeppnisráðs nr. 8/1997 þar sem mælt var fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli rannsóknarstofu H og annarra sviða stofnunarinnar frá 1. janúar 1998, en í álitinu kemur m.a. fram að það sé mat samkeppnisráðs að öll starfsemi rannsóknarstofu H geti flokkast undir samkeppnisrekstur.
Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að því leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Eigin úttekt ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra getur einnig verið skattskyld, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Sú skattskylda byggir einnig á samkeppnissjónarmiðum. Um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila eru nánari fyrirmæli í reglugerð nr. 248/1990. Þeirri reglugerð hefur m.a. verið breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 601/1995. Þessari breytingu var fyrst og fremst ætlað að skýra og afmarka frekar þá starfsemi opinberra aðila sem telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990 kemur fram að starfsemi telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé útskattur af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur. Lögbundin starfsemi opinberra aðila telst þó m.a. ekki vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 1. mgr. 6. gr. í eftirfarandi tilfellum:
- Þegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum.
- Þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr.[i]
Samkvæmt framangreindu er H skattskyld til virðisaukaskatts að því leyti sem um er að ræða sölu til annarra eða eigin not í samkeppni við atvinnufyrirtæki, en fyrir liggur að a.m.k. starfsemi rannsóknarstofunnar er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. álit samkeppnisráðs.
Þetta er þó háð því að útskattur sé að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur, en út frá gjaldskrárákvæðum 21. gr. laga nr. 7/1998 og reglum um útskatt og innskatt verður að telja að þessu skilyrði sé fullnægt í tilviki H.
Sá fyrirvari skal gerður að virðisaukaskattsskyldan nær ekki til þeirra þjónustuaðstæðna sem lýst er í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, sbr. liði 1 og 2 að framan. Ennfremur skal bent á að skattskylda nær ekki til þjónustu nema hún sé innan skattskyldusviðs laga nr. 50/1988. Af því tilefni fylgir hjálagt bréf um starfsemi tiltekinnar rannsóknarstofu.
Að lokum skal bent á að samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er H óheimilt að draga frá innskatt að hluta af þeim kostnaði sem er sameiginlegur skattskyldri og óskattskyldri starfsemi stofnunarinnar.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar yðar.
Ríkisskattstjóri
[i] Í 12. gr. kemur fram að endurgreiða skal ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á tiltekinni vinnu og þjónustu, t.d. þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi, eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.