Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 919/1999

26.10.1999

Undanþága frá virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi. 

26. október 1999
G-Ákv. 99-919

Að gefnu tilefni þykir rétt að taka eftirfarandi fram varðandi undanþágu frá virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi.

Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er góðgerðarstarfsemi undanþegin skattskyldu enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála.  Skilyrði fyrir undanþágu er að starfsemi sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila og hann hafi fengið staðfestingu skattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Í ákvæðinu er fjallað um hvaða starfsemi telst til góðgerðarstarfsemi.

Samkvæmt 1. tl. 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er basarsala, merkjasala og önnur hliðstæð sala góðgerðarfélaga talin góðgerðarstarfsemi, enda vari starfsemi ekki lengur en í þrjá daga í hverjum mánuði eða í fimmtán daga sé um árlegan atburð að ræða. 

Algengt er að góðgerðarfélög, t.d. Lionsklúbbar, standi árlega fyrir sölu á jóladagatölum.  Fer salan þannig fram að Lionsklúbbur fer með dagatölin í nokkrar verslanir og selja þær dagatölin án þóknunar.  Salan er á ábyrgð Lionsklúbbsins.

Það er mat ríkisskattstjóra að sala jóladagatala sem fjallað er um hér að framan sé undanþegin skattskyldu skv. 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

  1. Hagnaður renni að öllu leyti til líknarmála.
  2. Starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila.
  3. Fengin staðfesting skattstjóra að undangenginni umsókn
  4. Starfsemin vari ekki lengur en fimmtán daga.
  5. Skýrt og greinilega komi fram að sala á jóladagatalinu sé á vegum Lionsklúbbs og til styrktar líknarmálum.
  6. Sala jóladagatala skal fara fram í nafni Lionsklúbbs og fyrir hans reikning á grundvelli skriflegs samnings Lionsklúbbs og viðkomandi verslunar.  Samningur aðila er bókhaldsgagn verslunarinnar.  Sala jóladagatala telst ekki til tekna hjá verslun og sérstaklega verður að aðgreina söluna frá almennri sölu.  Sölu dagatala skal ekki stimpla inn í sjóðvél, né tilgreina sölu á sölureikningum, heldur skal færa sölu daglega á staðgreiðslusölulista sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.  Staðgreiðslusölulistar skulu vera fyrirframtölusettir í samfelldri töluröð.

Að lokinni sölu á umræddum jóladagatölum skal gera söluuppgjör þar sem fram kemur fjöldi dagatala sem fengin voru frá Lionsklúbbi til sölu, fjöldi skilaðra dagatala til Lionsklúbbs að sölu lokinni svo og heildarsöluverð og fjöldi seldra dagatala.  Söluuppgjör skal staðfest af forráðamönnum eða öðrum ábyrgum starfsmanni viðkomandi verslunar og geymd eins og önnur bókhaldsgögn hjá viðkomandi verslun og Lionsklúbbi sem er ábyrgur fyrir sölunni.

Verið er að vinna að leiðbeiningum um góðgerðarstarfsemi og verða þær sendar út fljótlega.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum