Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 918/1999

26.7.1999

Greiðslufrestur í tolli - ný reglugerð nr. 390/1999.

26. júlí 1999
G-Ákv. 99-918

Hjálagt sendist yður reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, sem felldi úr gildi eldri reglugerð nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum í tolli. Hér á eftir fer yfirlit yfir helstu breytingar sem gerðar voru með nýju reglugerðinni. Jafnframt er bent á bréf ríkistollstjóra, um breytta framkvæmd við skuldfærslu aðflutningsgjalda, sem birt er á heimasíðu ríkistollstjóra, www.tollur.is.

1.      Virðisaukaskattsskyldir aðilar sem eru í tveggja mánaða skilum fá sjálfkrafa greiðslufrest í tolli.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 390/1999, njóta þeir aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá og eru í tveggja mánaða eða skemmri skilum, sjálfkrafa greiðslufrest í tolli án þess að þurfa heimild tollstjóra. Þeir sem eru með bráðabirgðauppgjör fiskvinnslu eru í tveggja mánaða skilum og fá því sjálfkrafa greiðslufrest í tolli. Áður var heimild til greiðslufrests háð samþykki tollyfirvalda að undangenginni umsókn.

Í bréfi ríkistollstjóra kemur fram að þeir sem fá innskatt uppgerðan örar en á tveggja mánaða fresti, öðlist ekki rétt til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum. Þegar reglugerðin var samin var horfið frá því að undanskilja þá sem eru með skemmri uppgjörstímabil en tvo mánuði og bráðabirgðauppgjör fiskvinnslu frá greiðslufresti í tolli.

Framkvæmdin verður sú að við tollafgreiðslu verður kannað hvort viðkomandi innflytjandi sé á virðisaukaskattsskrá og hvernig skilamáta hans sé háttað. Ef uppgjörstímabilið er tveir mánuðir eða minna þá öðlast aðili rétt til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum.

2.      Heimild til greiðslufrests til opinberra aðila og virðisaukaskattsskyldra aðila sem eru með lengra uppgjörstímabil en tvo mánuði.

Opinberir aðilar geta fengið heimild tollstjóra til greiðslufrests, þó þeir séu ekki skráðir á virðisaukaskattsskrá, ef þeir sækja um það.

Þeir aðilar sem skila virðisaukaskatti miðað við lengri uppgjörstímabil en tvo mánuði þurfa að fá heimild tollstjóra og leggja fram tryggingu í formi bankaábyrgðar ef þeir vilja fá greiðslufrest í tolli. Hafi þeir ekki heimild geta þeir ekki fengið vörur tollafgreiddar nema staðgreiða aðflutningsgjöld af þeim.

3.      Greiðslufrestur fellur niður vegna vanskila.

Réttur til greiðslufrests er bundinn því skilyrði að innflytjandi sé ekki í vanskilum með aðflutningsgjöld. Rétturinn fellur sjálfkrafa niður ef vanskil verða og viðkomandi getur þá ekki tollafgreitt vörur nema staðgreiða aðflutningsgjöld af þeim.

4.      Möguleiki til staðgreiðslu aðflutningsgjalda.

Einstakir innflytjendur, sem kjósa að staðgreiða aðflutningsgjöld hverju sinni, geta það eftir sem áður.

5.      Skuldfærsla flutningsfyrirtækja og miðlara á aðflutningsgjöldum.

Þegar flutningsfyrirtæki og miðlarar taka að sér að annast innflutning vöru fyrir innflytjanda, þ.m.t. tollafgreiðslu hennar, geta slíkir aðilar ætíð óskað þess að gjöld verði skuldfærð á viðkomandi innflytjanda. Skilyrði er þó að þessir aðilar fái heimild innflytjanda til skuldfærslunnar, annað hvort í formi almennrar heimildar eða með sérstakri heimild hverju sinni.

6.      Ath.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri ítreka bréf nr. 826/97 og 755/96, þar sem fram kemur að ekki sé gert ráð fyrir því í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að gjaldandi fái virðisaukaskatt af innflutningi endurgreiddan sem innskatt áður en hann greiðir tollkrít. Því er óheimilt að telja ,,greiðsluskjal“ vegna tollkrítar gilt sem innskattsskjal nema ljóst sé að gjaldandi hafi greitt virðisaukaskatt af innflutningi í þessum tilvikum. Reglugerðin er enn í ósamræmi við 3. mgr. 34. gr. virðisaukaskattslaga, þar sem gjalddagar tollkrítar eru óbreyttir frá því sem var í eldri reglugerð og þeir sem eru í skemmri skilum og bráðabirgðaskilum geta fengið greiðslufrest í tolli.

Dæmi um það hvernig gjalddagar laganna og reglugerðarinnar fara ekki saman. Innflytjandi sem er með eins mánaðar uppgjörstímabil innanlands flytur inn 1. janúar vöru sem fellur undir viðauka I með reglugerð nr. 390/1999. Gjalddagi virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattslögunum er 5. mars en gjalddagi samkvæmt reglugerðinni er  15. mars. Gjaldanda er því óheimilt að innskatta samkvæmt greiðsluskjali tollsins 5. mars þar sem virðisaukinn verður ekki greiddur fyrr en 15. mars. Hins vegar ef flutt er inn vara sem fellur ekki undir viðauka reglugerðarinnar er gjalddagi samkvæmt reglugerðinni 15. febrúar og þá er hægt að innskatta á gjalddaganum 5. mars.

Samkvæmt framangreindu þarf við innskattsskoðun einkum að gefa gaum að ,,greiðsluskjölum“ vegna tollkrítar í þeim tilvikum sem aðili er með skemmri skil eða bráðabirgðaskil eða grunur leikur á að aðflutningsgjöld séu ógreidd af öðrum sökum.

Verið er að skoða hvort setja eigi tengingu milli tölvukerfa virðisaukaskatts og tekjubókhalds þannig að ábending komi til skattstjóra þegar skráðar verða virðisaukaskattsskýrslur, um það ef viðkomandi gjaldandi er með ógreidd aðflutningsgjöld í tolli, sem þýðir að heimild til greiðslufrests er fallin niður. Upplýsingar um það hvernig núna er hægt að kanna vanskil í tolli verðar sendar yður með tölvupósti.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum