Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 913/1999

18.5.1999

Virðisaukaskattur - lántökugjald - staðfest framkvæmd - útlagður kostnaður - sala notaðra vélsleða

18. maí 1999
G-Ákv. 99-913

Eins og kunnugt er felldi Héraðsdómur Reykjavíkur niður allar kröfur ríkisins í mál­inu B. gegn Íslenska ríkinu, sbr. bréf ríkisskattstjóra dags. 18. apríl 1997 (tilv. 55/97). Með bréfi ríkisskattstjóra dags. 27. júní 1997 (tilv. 74/97 (805/97)) var þrátt fyrir þetta ákveðið að halda óbreyttri skattframkvæmd uns niðurstaða hefði fengist frá Hæstarétti. Nú liggur niðurstaða Hæstaréttar fyrir og í stuttu máli sagt þá snýr rétturinn niðurstöðu héraðsdóms við og fellst á allar kröfur ríkisins. 

Í dómi Hæstaréttar frá 23. október 1998 er komist að þeirri niðurstöðu að lántöku­kostnaður, þ.e. þinglýsingargjald og bankakostnaður vegna útgáfu skuldabréfa við sölu bifreiða sem seldar voru með afborgunarskilmálum, sé hluti af skattverði, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Féllst Hæstiréttur þannig á sjónar­mið skattyfirvalda, sbr. bréf ríkisskattstjóra frá 19. febrúar 1990 (tilv. 20/90).

Hins vegar virðist Hæstiréttur ekki taka  afdráttarlausa afstöðu til þess hvort lántökugjald geti fallið undir reglur um útlagðan kostnað. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 253/1999 frá 31. mars 1999 er aftur á móti leyst úr þessu og því hafnað að reglur um útlagðan kostnað geti átt við. Í úrskurðinum segir m.a.:

"Ekki liggur annað fyrir en að kærandi sé beinn aðili að samningum við kaupendur um fjárhæð eftirstöðva söluverðs, ..., greiðslutíma eftirstöðva söluverðs og greiðslukjör að öðru leyti. Verður þannig að telja hann sjálfan vera lánveitanda í þeim viðskiptum þar sem umræddur lántökukostnaður féll til. Afhending kæranda á viðskiptabréfum, sem hann eignast við kaup með afborgunar­kjörum, til viðskiptabanka síns, verðbréfafyrirtækis eða annarra aðila felur því í sér ráðstöfun á eigin verðbréfaeign. Lánskostnaður, svo sem lántökugjald banka, fellur ekki til gagnvart kæranda fyrr en við afhendingu bréfanna til þess aðila. Greiðsla viðsemjenda kæranda á lántökukostnaði til kæranda getur því ekki falið í sér endurgreiðslu á áföllnum kostnaði sem kærandi hefur lagt út fyrir kaupanda, sbr. áskilnað í upphafsákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 501/1989,[1] um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila."

Í dómi Hæstaréttar er einnig fjallað um virðisaukaskatt af sölu notaðra vélsleða. Þar kem­ur m.a. fram að óumdeilt sé að um hafi verið að ræða sölu í atvinnuskyni og ótvírætt sé að undir skattskylda veltu falli bæði sala nýrra og notaðra vara. Hvað varðar ákvörðun skattverðs þá tók orðalag 10. gr. laganna á þeim tíma sem atvik gerðust aðeins til fólks­bifreiða fyrir færri en níu menn, en ekki til allra vélknúinna ökutækja eins og eftir breytinguna sem gerð var með lögum nr. 122/1993. Féllst rétturinn ekki á að heimilt hefði verið að beita reiknireglu ákvæðisins með lögjöfnun um önnur vélknúin ökutæki. Breytt mat löggjafans á árinu 1993 getur ekki tekið til viðskipta sem fram fóru áður og er því enginn grundvöllur til þess að lögum að hinu nýrra ákvæði verði beitt um tilvik fyrir gildistöku  þess.

Ríkisskattstjóri

[1] Nú 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um sama efni.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum