Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 909/1999

18.3.1999

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af þjónustu sérfræðinga við hugbúnað

18. mars 1999
G-Ákv. 99-909

Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra ástæða til að koma eftirfarandi leiðbeiningum til skattstjóra vegna endurgreiðslna til opinberra aðila á virðisaukaskatti af aðkeyptri þjónustu sérfræðinga:

1.      Almennt um ákvæði 5. tölul. 12. gr. rg. 248/1990

Ákvæðið hefur oft orðið andlag ágreinings og þá sér í lagi vegna aðkeyptrar tölvuþjónustu opinberra aðila. Í þessu sambandi hefur ríkisskattstjóri álitið að ákvæðið tæki til aðkeyptrar hugbúnaðarþjónustu, þ.e. gerð hugbúnaðar, viðhalds eða breytingu á hugbúnaði en aftur á móti ekki til viðhalds eða viðgerða á vélbúnaði.

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 443/1996 hefur nefndin túlkað ákvæðið þannig að það eigi skírskotun í söluskattslöggjöf, þ.e. það eigi við þá sérfræðiþjónustu sem var undanþegin söluskatti lengst af en síðan gerð skattskyld í lægra þrepi, sbr. 18. gr. laga nr. 10/1960, sbr. 7. gr. laga nr. 1/1988, sbr. bráðabirgðalög 68/1987, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að við skýringu á inntaki endurgreiðsluákvæðisins í 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 mætti styðjast við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/1960, sbr. lög nr. 1/1988.

Í kjölfar laga nr. 68/1987 gaf fjármálaráðherra út reglur um söluskatt og sérstakan söluskatt af tölvum og tölvubúnaði og er þar skýrt tekið fram að greiða skuli 25% söluskatt af vinnu við viðgerðir á tölvum svo og þjónustusamningum um viðhald og eftirlit með þeim (þ.e. vélbúnaðinum).

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit ríkisskattstjóra að þjónusta við tölvuvélbúnað fellur ekki undir ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

2.      Þjónustusamningar

Algengt er að opinberir aðilar geri þjónustusamninga við tölvufyrirtæki sem innihalda að mestu ef ekki öllu leyti annað en eiginlega hugbúnaðargerð. Sem dæmi þá er innihald slíkra samninga oft aðgangur að upplýsingakerfum, sívinnslur, runuvinnslur (útprentanir á upplýsingum og/eða gögnum), sala á segulböndum og snældum og akstur með gögn. Í sumum tilvikum innihalda þjónustusamningar þó vinnu við hugbúnað sem fellur þá undir 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 og er virðisaukaskattur af þeirri þjónustu því endurgreiðsluhæfur.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts í þessum tilvikum er að ljóst sé af þjónustusamningum að um sé að ræða endurgreiðsluhæfa þjónustu. Ekki er nægjanlegt að kaupandi eða seljandi hafi reiknað út síðar hversu mikill hluti þjónustunnar sé hugbúnaðargerð. Sölureikningur þarf enn fremur að vera sundurliðaður í samræmi við þjónustusamninginn, þ.e. á reikningnum þarf að koma fram upphæð fyrir hverja tegund þjónustu sem samningurinn kveður á um, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 695/1996.

Með vísan til framanritaðs er því beint til skattstjóra að kalla eftir afriti af þjónustusamningi þegar sótt er um endurgreiðslu virðisaukaskatts af umræddri sérfræði-þjónustu til að sannreyna endurgreiðslurétt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum