Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 907/1999

8.2.1999

Virðisaukaskattur – þjónusta hjúkrunarfræðinga seld opinberri heilbrigðisstofnun

8. febrúar 1999
G-Ákv. 99-907

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. desember 1998, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort þjónusta hjúkrunarfræðinga falli undir undanþáguákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og sé því undanþegin virðisaukaskatti. 

Í bréfi yðar kemur m.a. fram:

“Til stendur að hefja verktakastarfsemi fyrir Landspítala, Borgarspítala og fleiri sjúkrahús um ákveðin störf hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar munu annast þessi störf sem verktakar hjá áðurnefndri starfsemi.”

Ákvæði 1. tölul. 3.mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, undanþiggur heilbrigðisþjónustu virðisaukaskatti, þ.e. þjónustu sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og aðra eiginlega heilbrigðisþjónustu. Við túlkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" í ákvæðinu þykir rétt að miða við að (1) þjónusta aðila falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og (2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Það er álit ríkisskattstjóra að sú starfsemi sem hér um ræðir sé sambærileg hluta þeirrar þjónustu sem veitt er af sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum sem taldar eru upp í undanþáguákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaganna og því beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkri þjónustusölu. Sé starfsemi yðar hins vegar einungis fólgin í milligöngu um tímabundna ráðningu hjúkrunarfræðinga til sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana þá er þóknun fyrir slíka atvinnumiðlun virðisaukaskattsskyld, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í bréfi yðar segir að umræddir hjúkrunarfræðingar muni annast þessi störf sem verktakar. Vegna þessara ummæla vill ríkisskattstjóri koma því á framfæri að skattyfirvöld hafa heimild til að leggja sjálfstætt mat á það hvort samningar skulu metnir sem vinnusamningar í skattalegu tilliti eða sem verksamningar, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu Tollstjórinn í Reykjavík gegn X dags. 22. janúar 1998. Þau atriði sem helst greina að vinnusamninga og verksamninga er að finna í meðfylgjandi leiðbeiningum um könnun á starfssambandi og meðfylgjandi eyðublaði RSK 10.31, Könnun á starfssambandi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum