Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 904/1999

26.1.1999

Virðisaukaskattur- blindraletursbækur

26. janúar 1999
G-Ákv. 99-904

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 1. desember sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sala A á blindraletursbókum sé virðisaukaskattsskyld og ef svo er hvort hún falli þá ekki undir ákvæði 6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 þannig að innheimta beri 14% virðisaukaskatt af sölunni.

Í bréfi yðar kemur fram að söluverð bókanna standi ekki undir kostnaði við gerð þeirra. Í 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga segir að eigi skuli skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Enn fremur skal tekið fram að opinberir aðilar hafa mjög svo takmarkaðan innskattsfrádráttarrétt, þ.e. þeir mega aðeins telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu.

Ef svo stendur á sem að framan greinir þá ber safninu ekki að skrá sig á virðisaukaskattsskrá vegna umræddrar starfsemi og því ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölunni.

Ef aftur á móti slík starfsemi er stunduð í hagnaðarskyni þá ber að skrá hana á virðisaukaskattsskrá hjá viðkomandi skattstjóra og innheimta virðisaukaskatt af sölunni. Sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra ber 14% virðisaukaskatt sbr. 6. tölul. 1. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga. Að áliti ríkisskattstjóra falla blindraleturs-bækur á íslenskri tungu einnig undir framangreint ákvæði og ber að innheimta 14% virðisaukaskatt af slíkri sölu enda sé hún í hagnaðarskyni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum