Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 903/1999

18.1.1999

Tapaðar kröfur - afskrift og ráðstöfun greiðslu upp í höfuðstól og vexti

18. janúar 1999
G-Ákv. 99-903

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 2. október sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort afskrifa eigi hlutfallslega jafnt höfuðstól og vexti kröfu ef hún tapast að hluta.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er skráðum aðila heimilt að draga frá skattskyldri veltu 80,32 % af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum vegna sölu sem áður hefur verið talin til skattskyldrar veltu í 24,5% skattþrepi og 12,28% ef sala hefur verið talin til skattskyldrar veltu í 14% skattþrepi. Það er skilyrði fyrir leiðréttingu á skattskyldri veltu vegna tapaðra krafna að skuld sé sannanlega töpuð, skýrt komi fram í bókhaldsgögnum á hverju það sé byggt að telja útistandandi viðskiptaskuld tapaða og hvað hafi verið aðhafst til að innheimta hana. Í athugasemdum í greinargerð með lögum um virðisaukaskatt segir um þetta ákvæði að reglur laga um tekju- og eignarskatt um það hvenær draga má tapaðar viðskiptaskuldir frá atvinnurekstrartekjum, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, skuli gilda varðandi heimild þá sem hér um ræðir.

Hvorki í ákvæðum skattalaga né reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra er að finna ákvæði er taka á því hvort og þá að hve miklu leyti telja megi vexti hinnar töpuðu kröfu tapaða í skattalegu tilliti. Þrátt fyrir það verður að telja það eðli málsins samkvæmt að afskrifa megi, og þá telja tapaða, vexti kröfunnar með sama hætti og höfuðstól hennar við tekjuskattsuppgjör enda hafa bæði höfuðstóll og vextir verið tekjufærðir áður. Aftur á móti má ekki við uppgjör virðisaukaskatts draga frá skattskyldri veltu þann hluta kröfunnar sem varðar vexti. Að áliti ríkisskattstjóra gilda almennar reglur kröfuréttar um það hvernig greiðslu inn á kröfu er stýrt, þ.e. að það sé á valdi kröfuhafa hvort innborgun fari einungis upp í höfuðstól, einungis upp í vexti eða hvoru tveggja. Ef kröfuhafi og skuldari hafa hins vegar hagað viðskiptum sínum þannig að innborgunum hefur verið  skipt hlutfallslega upp í afborgun af höfuðstól og afborgun vaxta þá verður að telja að kröfuhafi verði að fara eftir því verklagi við afskriftir þeirra krafna. Á hinn bóginn verður jafnframt að álíta að ef kröfuhafi og skuldari hafa ekki samið sérstaklega um annað (nægjanlegt er að þeir hafi háttað sínum viðskiptum á þann veg) eða engin venja hefur skapast í þess konar viðskiptum þá gildi sú almenna regla kröfuréttar að kröfuhafi hefur val um hvernig hann stýrir innborgunum.

Að lokum skal tekið fram að sömu reglur gilda um tekjufærslu við greiðslur krafna, sem hafa verið afskrifaðar áður.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum