Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 899/1999

5.1.1999

Undanþegin velta sbr. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988

5. janúar 1999
G-Ákv. 99-899

Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. nóvember 1998, þar sem þér óskið staðfestingar á því að sala á vinnu og búnaði til flotkvíar og raflögnum að henni teljist til undanþeginnar veltu skv. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. 

Til undanþeginnar veltu telst viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og fastan útbúnað þeirra. Sama gildir um efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina notar og lætur af hendi við þá vinnu sbr. 7. tölul. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri telur að við túlkun orðsins skip í ákvæðinu verði að líta til ákvæða söluskattslaga og túlkunar á þeim ákvæðum á sínum tíma. Í “Handbók um söluskatt” (annarri útg. 1985) er undanþáguákvæði sambærilegt 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga túlkað á þann veg að það eigi einnig við um önnur fljótandi för sem ætluð eru til annars konar notkunar en siglinga, svo sem flotkrana og flotkvíar.

Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að viðgerðar- og viðhaldsvinna við flotkví og fastan útbúnað hennar sé undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu skv. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkri sölu. Tekið skal fram að umrætt ákvæði á ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtæki selur tæki, búnað, efni eða varahluti í skip án þess að annast sjálft viðgerð eða uppsetningu.

Vegna þess að hér er að finna afbrigði frá meginreglu virðisaukaskattslaga, eru gerðar kröfur um að seljandi geti sannað með bókhaldsgögnum sínum að honum hafi verið heimilt að halda viðskiptunum utan skattskyldrar veltu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, (áður 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 501/1989 um sama efni). Þar er ríkisskattstjóra falið að setja  reglur um hvaða gögn seljandi skuli varðveita í þessu sambandi. Ríkisskattstjóri telur að skilyrði fyrir því að umrædd þjónusta geti fallið undir undanþáguákvæðið sé að þjónustuaðili geti þess á reikningi við hvaða skip var unnið og skal útgerðarmaður eða yfirmaður skips staðfesta með yfirlýsingu og áritun sinni á afrit reiknings að þjónustan varði skip hans. Að öðrum kosti telst þjónustan til skattskyldrar veltu, sbr. 19. gr. virðisaukaskattslaga.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum