Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 889/1998

19.11.1998

Bókhaldsleg meðhöndlun virðisaukaskatts af kassamismun

19. nóvember 1998
G-Ákv. 98-889

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. september sl., þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig eigi að færa kassamismun í bókhald, þ.e. mun á skráðri sölu samkvæmt sjóðvél annars vegar og talningu úr sjóðvél hins vegar.

Í bréfi yðar eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:

  1. Á að reikna virðisauka af sölu skv. sjóðvél eða talningu?
  2. Ef mismunur er færður á mismunareikning er þá reiknaður virðisaukaskattur af honum hvort heldur um er að ræða “jákvæðan” eða neikvæðan mismun?
  3. Er eðlilegt að kassamismunur teljist aukning eða minnkun á sölu eða á að meðhöndla hann öðruvísi?

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að gert er ráð fyrir að hin raunverulega sala hvers aðila sé sú sala sem skráð er í sjóðvél og kemur því fram á útsláttarstrimli sjóðvélar ef tekjuskráningu viðkomandi aðila er á annað borð hagað með skráningu í sjóðvél. Komi í ljós við uppgjör dagssölu að sala samkvæmt útsláttarstrimli stemmir ekki við talningar úr sjóðvélinni verður skattaðili að leita skýringa á þeim mismun og skrá þær á söluuppgjörsblað, sbr. 1.mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Eðli málsins samkvæmt eru þó ávallt líkur fyrir því að sala sem skráð hefur verið í sjóðvél sé í raun rétt enda sé hún ekki minni en talningar úr sjóðvélinni.

Þótt ekki séu nákvæm ákvæði í lögum eða reglugerðum um virðisaukaskatt hvernig með kassamismun skuli fara þá er komið inn á þetta efni í 12. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Í umræddu ákvæði eru settar fram leiðbeiningar um það hvernig beri að fara með mismun á skráðri sölu á uppgjörsstrimli sjóðvélar og talningar úr sjóðvél. Þar segir að komi fram mismunur á skráðri sölu á uppgjörsstrimli sjóðvélar og talningar úr sjóðvél skuli miða skatthlutfall fjárhæðarinnar við meðaltalshlutfall innheimts virðisaukaskatts viðkomandi dags. enda sé ekki vitað til hvaða skatthlutfalls fjárhæðin tilheyrir. Jafnframt kemur fram að ef mismunurinn er óvenju mikill og verður til vegna sérstakra aðstæðna skuli miða skatthlutfall fjárhæðarinnar við meðaltalshlutfall síðasta uppgjörstímabils. Eins og áður er komið inn á þá tekur ákvæðið eðli málsins samkvæmt einungis til þeirra tilvika þegar talning úr sjóðvél er hærri en skráð sala samkvæmt sjóðvél enda hljóta ríkari kröfur að vera gerðar til sönnunar á mistökum þegar bakfæra á áður tekjuskráða sölu.

Í einhverjum tilvikum getur þó sú staða komið upp að við skráningu sölu í sjóðvél sé slegin inn mun hærri fjárhæð en salan í raun var. Slík mistök er almennt hægt að leiðrétta við uppgjör enda séu skýringar gefnar á slíkum mismun á söluuppgjörsblaði viðkomandi dags. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum