Ákvarðandi bréf nr. 887/1998
Virðisaukaskattur – mötuneyti sjúkrahúsa (í eigu opinberra aðila)
26. október 1998
G-Ákv. 98-887
Vísað er til samtals við yður þar sem þér óskuðuð þess að ríkisskattstjóri veitti rökstutt álit um skattskyldu mötuneyta með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 313/1998.
Málið fjallar um það hvort rekstur mötuneytis sjúkrahúss sé skattskyldur til virðisaukaskatts. Mötuneytið þjónar bæði sjúklingum og starfsmönnum.
Sala á tilreiddum mat og þjónustu er virðisaukaskattsskyld, sbr. 1. mgr. 2. gr. sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., í 24,5% skattþrepi, sbr. 1. mgr. ,sbr. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sala opinberra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er í samkeppni við slíka sölu á almennum markaði og því virðisaukaskattsskyld á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Hins vegar skal tekið fram að afhending fæðis úr mötuneytum sjúkrahúsa til sjúklinga hefur verið talin undanþegin á grundvelli 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. afhending fæðisins er þá talin vera svo nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur í sjúkraþjónustu slíkra stofnanna að samkeppnisaðstæður þykja ekki vera með þeim hætti að um skattskylda eigin þjónustu sé að ræða.
Samkvæmt kjarasamningum ríkisstarfsmanna er rekstur ríkisrekinna mötuneyta fyrir starfsmenn aldrei í hagnaðartilgangi þar sem ríkinu ber sem launagreiðanda að greiða kostnað við rekstur starfsmannamötuneytis en starfsmönnum ber þá einungis að greiða efnisverð matarins. Skattskylda sjúkrahúss vegna reksturs starfsmannamötuneytis verður því ekki byggð á 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna enda eru samanlagðar tekjur af skattskyldu sölunni ekki að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti. Því er ljóst sú eigin þjónusta sjúkrahússins sem fólgin er í rekstri mötuneytis vegna starfsmanna er skattskyld, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Þó að rekstur mötuneytis sé ekki sérstaklega talin upp í ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990 verður að gæta samræmis við ákvæði reglugerðar nr. 562/1989, um eigin þjónustu óskattskyldra aðila, þegar meta á hvað telst skattskyld eigin þjónusta. Ef tekjur mötuneytisins eru að jafnaði undir kostnaði þá ber að reikna út virðisaukaskatt vegna slíkrar starfsemi skv. 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Skattverðið er því samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. Auglýsing nr. 17 dags. 9. janúar 1996. Hér ber að hafa í huga að sú vinna starfsmanna í mötuneyti er varðar matreiðslu handa sjúklingum er ekki skattskyld til virðisaukaskatts.
Hins vegar er heimilt að fara eftir ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar og greiða virðisaukaskatt af starfsemi mötuneytisins eftir þeim reglum. Við innheimtu á útskatti skal skattverð miðað við almennt gangverð í sams konar viðskiptum og við skil á skatti í ríkissjóð skal innskattur af aðföngum dreginn frá útskatti samkvæmt almennum reglum. Liggi almennt gangverð ekki fyrir skal ákveða skattverð í umræddri starfsemi með hliðsjón af reglum um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi. Í lið 2.1 Almennt í Auglýsingu nr. 8/1994 (birt í Lögbirtingablaðinu dags. 26. janúar 1994) kemur fram: Liggi almennt gangverð einhvers eða allra liða sem reikna skal virðisaukaskatt af við byggingarframkvæmdir ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar og ágóða við hina skattskyldu starfsemi. Ljóst er að ekki liggur fyrir reiknað útsöluverð vegna reksturs mötuneytis í framangreindum skattverðsreglum en í
“Leiðbeiningum um virðisaukaskatt af starfsemi starfsmannamötuneyta”
(útg. dags. 6. desember 1995, eldri útg. 21. maí 1991) eru settar fram reglur um útreikning skattverðs sem nemur a.m.k. framleiðsluverði afhents fæðis. Og skal tekið mið af þeim leiðbeiningum við ákvörðun á greiðslu virðisaukaskatts af rekstri mötuneyta.
Með vísan til þess sem að framan greinir skiptir ekki máli hvor leiðin er farin þegar finna á hver virðisaukinn er í rekstri starfsmannamötuneytis ríkisstofnunar, þ.e. hvort starfsemin er talin falla undir 3. eða 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Í báðum tilvikum er það launaþátturinn sem er virðisauki eigin þjónustunnar.
Að lokum skal tekið fram að þar sem mötuneyti sjúklinga telst ekki vera rekið í samkeppni við atvinnurekstur þá verður að finna út hlut þess þáttar matreiðslunnar af heildarhlutanum þar sem ekki ber að greiða virðisaukaskatt af slíkri eigin þjónustu.
Ríkisskattstjóri