Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 883/1998

8.10.1998

Útleiga skips og áhafnar ásamt lausum útbúnaði – sundurliðun á reikningi

8. október 1998
G-Ákv. 98-883

Vísað er til bréfs yðar. dags. 20. júlí 1998, og svarbréfs ríkisskattstjóra dags. 18. ágúst (tilv. 874/98) þar sem þér óskuðuð eftir áliti ríkisskattstjóra á því, hvort yður bæri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti vegna leigu báts og áhafnar í yðar eigu.

Í bréfi yðar kom fram að þér hafið leigt bát yðar ásamt áhöfn og tækjum til sýnatöku á vegum Hafrannsóknarstofnunar. Svarbréf ríkisskattstjóra var á þann veg að þér bæri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti vegna þeirra viðskipta.

Ríkisskattstjóri telur þrátt fyrir svarbréf til yðar dags. 18. ágúst að ef þjónusta, vara eða verðmæti eru afhent ásamt skipaleigunni en þó þannig að þau séu aðgreind frá leigunni þá sé leigusala heimilt að telja söluandvirði leigu undanþegið skattskyldri veltu enda sé virðisaukaskattur innheimtur af öðrum kostnaðarþáttum. Með öðrum kostnaðarþáttum er m.a. átt við útselda þjónustu vegna launþega leigusala, notkun á lausum útbúnaði svo sem veiðarfærum og fiskkössum svo og olíunotkun. 

Við aðgreiningu hins undanþegna þáttar frá hinum skattskylda verður að gæta reglna um að skattverð miðist við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts, sbr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Liggi slíkt almennt gangverð ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi, sbr. 8. gr. virðisaukaskattslaga. 

Athygli yðar er vakin á því að ef umrædd sala er ekki sundurliðuð á sölureikningi er ekki heimilt að telja hluta veltunnar undanþeginn virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda er þar einungis átt við þegar skip er leigt eitt og sér ásamt föstu fylgifé, þ.e. án annarrar þjónustu eða vöru.

Að öðru leyti en að framan greinir ítrekar ríkisskattstjóri það sem fram kom í svarbréfi til yðar varðandi umrædda þjónustu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum