Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 875/1998

26.8.1998

Virðisaukaskattur – póstþjónusta

26. ágúst 1998
G-Ákv. 98-875

Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. júlí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af ýmis konar þjónustu sem veitt er samfara póstþjónustu.

Í bréfi yðar er spurt hvort eftirfarandi þjónusta sé virðisaukaskattsskyld:

  1. Birtingarþjónusta á stefnum, greiðsluáskorunum og boðunum.
  2. Frímerking póstsendinga.
  3. Heimsendingarþjónusta á póstsendingum sem að jafnaði eru ekki bornar út.
  4. Pósthólfaleiga.

Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði, er birting stefnu lögmæt m.a. ef samrit stefnu er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður vottar að hann hafi afhent bréfið stefnda eða öðrum sem er bær um að taka við stefnu í hans stað. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, skal gerðarbeiðandi beina greiðsluáskorun til gerðarþola áður en aðfarar er krafist. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal greiðsluáskorun send gerðarþola með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birt honum af einum stefnuvotti. Með vísan til framanritaðs verður að telja að sú birtingarþjónusta sem hér um ræðir sé sambærileg þeirri þjónustu sem veitt er í tengslum við ábyrgðarsendingar almennt og því undanþegin virðisaukaskatti sem póstþjónusta, sbr. 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.    

Það er jafnframt álit ríkisskattstjóra að þóknun sem tekin er fyrir frímerkingu póstsendinga sé undanþegin virðisaukaskatti sem almenn póstþjónusta enda er þjónustan veitt eingöngu í tengslum við póstsendingar.

Þriðja atriðið sem spurt er að er hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af heimsendingarþjónustu á póstsendingum sem að jafnaði eru ekki bornar út og þeirri þjónustu að fá sendingar sóttar gegn ákveðnu gjaldi. Það er álit ríkisskattstjóra að ef þjónustan sem dreifingaraðili veitir er vegna dreifingar og viðtöku á árituðum bréfapóstsendingum sem undanþegin er virðisaukaskatti þá sé umrædd þjónusta einnig undanþegin virðisaukaskatti á sömu forsendu. 

Hvað varðar pósthólfaleigu þá er það álit ríkisskattstjóra að ekki skipti máli varðandi virðisaukaskatt hvort dreifingaraðili beri póst út til heimilis viðtakanda eða í sérstakt hólf sem staðsett er hjá dreifingaraðila. Í báðum tilvikum er því um að ræða póstþjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum