Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 866/1998

13.7.1998

Sameining félaga, 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, viðhorf í markaðsgjaldi

13. júlí 1998
G-Ákv. 98-866

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. apríl sl., þar sem óskað er eftir því að ríkisskattstjóri endurskoði svar við fyrirspurn yðar (tilv. 838/98) varðandi virðisaukaskattsuppgjör við sameiningu félaga skv. 56. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.

Í IV. kafla virðisaukaskattslaga er fjallað um skattskylda veltu og eru í kaflanum tvær lagagreinar (11. og 12. gr.). Fyrra ákvæðið hefur að geyma meginreglurnar um skattskylda veltu en um þetta segir í greinargerð með frumvarpinu til virðisaukaskattslaga:

“Í upphafi 1. mgr. þessarar greinar er kveðið á um að öll afhending vöru og verðmæta, vinnu og þjónustu gegn greiðslu teljist til skattskyldrar veltu nema sérstakar undanþágur komi til samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarpsins.”

Í 3. mgr. segir síðan að til skattskyldrar veltu teljist sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum þegar fyrirtæki tilkynnir sig út af skrá. Um þetta ákvæði segir síðan í greinargerð:

“Slíkt ákvæði er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að reglur frumvarpsins séu sniðgengnar vegna þess að við kaup á þeim vörum og fjármunum hefur fyrirtækið fengið virðisaukaskattinn dreginn frá sem innskatt eða endurgreiddan sé innskattur hærri en útskattur.”

Í 12. gr. laganna er síðan að finna veigamiklar undantekningar frá almennu reglunni um skattskylda veltu sem fram kemur í 11. gr. Í 4. mgr. 12. gr. laganna kemur fram undanþágureglan við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess. Fyrri málsliður ákvæðisins er svohljóðandi:

“Eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna má ekki telja til skattskyldrar veltu þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti (auðk. hér) á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur skv. lögum þessum.”

Þrátt fyrir framangreint verður að telja að við sameiningu hlutafélaga skv. 119.-131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög og einkahlutafélaga skv. 94.-106. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, myndist ekki tekjur og því engin velta í skilningi laga um virðisaukaskatt og tekjuskatt. Með vísan til þessa sé ekki um að ræða veltu í skilningi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við slíka sameiningu og þar leiðandi hafi hún ekki áhrif á stofn til markaðsgjalds skv. lögum nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, sbr. lög nr. 122/1993. 

Samkvæmt sérreglu 56. gr. tekjuskattslaga nr. 75/1981 þá skal samrunafélagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var. Samkvæmt þessu er það álit ríkisskattstjóra að samrunafélagið yfirtaki leiðréttingarskyldu þess félags sem slitið var samkvæmt IV. kafla innskattsreglugerðar nr. 192/1993, um leiðréttingarskyldu innskatts af varanlegum rekstrarfjármunum, sbr. og  5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. 

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu er fyrra álit ríkisskattstjóra dags. 2. febrúar 1998, tilv. 838/98, afturkallað.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum