Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 840/1998

6.2.1998

Umboðslaun - greiðslur frá erlendum aðilum

6. febrúar 1998
 G-Ákv. 98-840

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 13. október sl., þar sem óskað er svara við ýmsum álitaefnum varðandi virðisaukaskatt af greiðslum frá erlendum umboðum/birgjum vegna kostnaðar við kynningar og markaðsstarf hér á landi.

Í bréfi yðar kemur fram að greiðslur frá erlendum aðilum séu í raun þóknun fyrir markaðssetningu, sölu  og dreifingu framleiðsluvara viðkomandi fyrirtækja. Jafnframt segir að þóknunin sé reiknuð eftir mismunandi leiðum, þ.e. hluti af þóknun sé í formi álagningar, hluti í formi umboðslauna, hluti í formi fastra greiðslna og hluti í formi endurgreiðslu á útlögðum kostnaði. Síðan spyrjið þér hvort hér sé um að ræða þjónustu fyrir erlenda aðila í skilningi skattalaga.

Af bréfi yðar verður ekki annað ráðið en greiðslur til yðar frá erlendum aðilum séu annars vegar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar og hins vegar greiðslur vegna umboðslauna sem eru annað hvort reiknuð sem hlutfall af vörukaupum eða sem föst fjárhæð á mánuði.

Ljóst þykir að greiðslur sem þér móttakið sem umboðslaun frá erlendum aðilum teljast til undanþeginnar veltu skv. e. lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 sbr. og a. lið sama ákvæðis eins og þau ákvæði eru nú eftir breytingu á lögum um virðisaukaskatt (með lögum nr. 115/1997) enda þykir ljóst að starfsemi kaupanda þjónustunnar (hinn erlendi aðili) væri skráningarskyld hér á landi ef hún færi fram hérlendis. Tekið skal fram að ákvæðið gildir frá og með 1. júlí 1997 og hafa því lagabreytingar þær sem kynntar voru í orðsendingu nr. 5/97 og vörðuðu umrædda þjónustu verið felldar úr gildi með afturvirkum hætti.

Í bréfi yðar kemur fram að þér lítið svo á að sá hluti greiðslu hins erlenda aðila sem er til endurgreiðslu kostnaðar (t.d. kostnaðar vegna markaðssetningar) teljist jafnframt vera undanþeginn skattskyldri veltu. Að áliti ríkisskattstjóra skiptir ekki máli með hvaða hætti þóknun fyrir umboð er ákveðin þegar meta á hvort þjónustan er undanþegin skattskyldri veltu eða ekki, þ.e. 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, eiga ekki við um þau tilvik sem rakin eru í bréfi yðar.

Með vísan til framanritaðs er þóknun yðar vegna umboðs fyrir erlendan aðila hér á landi undanþegin skattskyldri veltu og skiptir þá ekki máli með hvaða hætti sú þóknun er ákveðin eða reiknuð út. 

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum