Auglýsingar

Tilkynning til Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) og Tryggingastofnunar (TR)

1.1.2023

Að gefnu tilefni vill Skatturinn benda á að nokkrar breytingar þarf að gera á sundurliðun upplýsinga samkvæmt staðgreiðsluskilum árið 2023 og skilum á launaupplýsingum lífeyrissjóða í ársbyrjun 2024, eftir setningu laga nr. 55/2022, um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.). Lögin taka gildi 1. janúar 2023.

Skil lífeyrissjóða á staðgreiðslu og upplýsingagjöf vegna greiðslu til sjóðfélaga hefur verið með eftirfarandi hætti:

  • Í mánaðarlegum staðgreiðsluskilum hefur verið gerð grein fyrir heildarfjárhæð greiðslu til sjóðfélaga en jafnframt tekið fram hversu há fjárhæð þar af er tilkomin vegna greiðslu úr séreignarsjóði. Þannig hefur legið fyrir fjárhæð í staðgreiðsluskrá sem TR hefur miðað útreikninga sína á tekjutengdum greiðslum til skjólstæðinga sinna við, þ.e. greiðsla án séreignar úr lífeyrissjóði.
  • Árlegar launaupplýsingar í almennum gagnaskilum vegna fyrra árs, sem fram fara í janúar árið eftir tekjuárið, hafa verið sundurliðaðar í tvo hluta. Annars vegar greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum (sameign), sem gerð er grein fyrir í launamiðareit 021 og áritast þaðan í reit 43 í kafla 2.3 í skattframtali lífeyrisþegans. Hins vegar lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum, sem gerð er grein fyrir í launamiðareit 010 og áritast þaðan í reit 140 í kafla 2.3 í skattframtali lífeyrisþegans. Fjárhæðin í reit 140 í framtali hefur þannig ekki haft áhrif á lífeyrisgreiðslur frá TR til lækkunar.
Að auki hefur verið um að ræða tímabundna heimild vegna COVID-19 til sérstakrar skattfrjálsrar útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem gerð hefur verið grein fyrir í launamiðareit 031 í gagnaskilum og áritast þaðan í reit 143 í kafla 2.3 í skattframtali, en sú heimild er nú fallin niður.

Með greindum lögum var m.a. gerð sú breyting að allar aðrar greiðslur frá lífeyrissjóðum en það sem fellur undir skilgreininguna á að vera viðbótarlífeyrissparnaður, þ.e. 4% framlag launamanns og 2% framlag launagreiðanda, munu hafa áhrif á tilteknar greiðslur frá TR til skjólstæðinga sinna til lækkunar, hjá þeim sem byrja að taka lífeyri hjá stofnuninni frá og með 1. janúar 2023.

Þar sem TR byggir útreikninga sína á upplýsingum frá Skattinum verður að gera eftirfarandi breytingar á sundurliðun í staðgreiðsluskilum frá og með 1. janúar 2023 og skilum á launaupplýsingum í gagnaskilum í janúar 2024:
- Staðgreiðsluskil vegna janúar 2023 og áfram;

  • Heildargreiðslur lífeyris til sjóðfélaga.
  • Í sérstakan reit „þar af viðbótarlífeyrissparnaður“ skal tilgreina greiðslur sem stafa af lífeyrissjóðsframlagi samkvæmt reglum um viðbótarlífeyrissparnað, þ.e. 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag sjóðfélaga.
  • Í sérstakan reit „þar af önnur séreign“, þ.e. greiðsla úr séreignarsjóði sem myndast af tilgreindri séreign sem og annarri séreign.
- Í upplýsingagjöf vegna greiðslna til einstaklinga á tekjuárinu 2023, sem fram fer í gagnaskilum í janúar 2024, verður bætt við nýjum reit þannig að sundurliðun verður meiri en áður. Lífeyrissjóðir þurfa þá að gera grein fyrir greiðslum til sjóðfélaga úr almennum sjóðum (sameign), greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar (úr sjóðum eingöngu mynduðum úr 4% framlagi launamanns og 2% framlagi launagreiðanda) og greiðslu annarrar séreignar (séreign
sem mynduð er úr hluta skyldubundna (15,5%) framlagsins í lífeyrissjóði, t.d. „tilgreind séreign“ sem og annarri séreign).
- Launamiðareitur 021 og framtalsreitur 43 munu áfram verða notaðir fyrir almennar greiðslur úr lífeyrissjóðum, launamiðareitur 010 og framtalsreitur 140 munu eingöngu verða fyrir greiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar og að lokum nýr launamiðareitur og nýr reitur í framtali fyrir þær greiðslur úr séreignarsjóðum sem ekki eru myndaðar vegna hefðbundins viðbótarlífeyrissparnaðar (4% + 2%).

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum