Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 2/01

16.3.2001

Fjárframlag, rekstrarkostnaður. Frávísun: Ekki verulegir hagsmunir.

Reykjavík, 16. mars 2001

Þann 14. febrúar 2001 móttók ríkisskattstjóri beiðni A ehf., um bindandi álit og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins.

Samkvæmt álitsbeiðni er óskað bindandi álits ríkisskattstjóra á því hvort fjárframlag sem A ehf. hyggst veita B ses. sé frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Málavöxtum er svo lýst í álitsbeiðni: "10. október sl. samþykkti borgarráð Reykjavíkur að taka kauptilboði C ehf. í kaup á ....., en þar var áður til húsa ...... Tilgangur kaupa félagsins er sá að útvega húsnæði vegna fyrirhugaðrar starfsemi B. Um þessar mundir er unnið að stofnun sjálfseignarstofnunar sem halda mun utan um starf B. Fyrirhugað nafn stofnunarinnar er B ses., og mun stofnunin verða stofnuð sem sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri sbr. lög nr. 33/1999. Tilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að nýrri þekkingu og aukinni menntun í samfélaginu með því að hvetja ungt fólk á aldrinum 11-18 ára til dáða og rækta með því frumkvöðla hugsun, örva skapandi hugsun meðal barna og unglinga, miðla þekkingu til ungmenna sem búa yfir frumkvæði og ýta undir að framsæknar hugmyndir þeirra öðlist brautargengi." Nánari lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar er svo að finna í álitsbeiðni og þar kemur m.a. fram að fyrirhugað sé að starfsemi stofnunarinnar verði að mestu fjármögnuð með framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Þá er upplýst að verði hagnaður af rekstrinum verði hann færður yfir á næsta reikningsár, en verði um tap að ræða skuli það niðurgreitt með fjárframlögum næsta árs.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Í 1. gr. fyrrgreindra laga koma fram skilyrði sem beiðni þarf að fullnægja til þess að hægt sé að láta upp bindandi álit, en þar segir m.a. að málið varði verulega hagsmuni þess sem eftir áliti leitar. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998 kemur fram að skýra beri þetta skilyrði þannig að um sé að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni þess er álits leitar.

Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, er heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi einstaka gjafir og framlög til málaflokka sem fram koma í 16. gr. reglugerðarinnar. Hámark þessa frádráttar er 0,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til þessa er það mat ríkisskattstjóra að hagsmunir álitsbeiðanda séu ekki verulegir í skilningi 1. gr. laga nr. 91/1998.

Í skattframkvæmd hefur löngum verið talið eðlilegra að sá aðili, sem hyggst afla sér framlaga, sem frádráttarbær væru hjá gefanda skv. 31. gr., sbr. ákvæði reglugerðar nr. 483/1994, fengi á grundvelli samþykkta sinna og eftir atvikum ársreikninga staðfestingu skattyfirvalda á frádráttarbærni gjafa, sem gefnar eru viðkomandi aðila, frá skattskyldum tekjum gefanda. Staðfesting skattyfirvalda grundvallast þannig á markmiðum í starfsemi gjafþega, ráðstöfun gjafafjár og eftirliti með ráðstöfun fjármuna frá ári til árs, sem kann að vera breytileg. Hagsmunir gjafþega beinast að því að þær kvittanir, sem hann gefur út fyrir móttöku gjafarinnar séu formlega og efnislega í samræmi við hæfi þess aðila til móttöku gjafafjár á grundvelli tilvitnaðrar reglugerðar til framdráttar hugsjónarmálum viðkomandi gjafþega. Það hefur því almennt verið talið að hagsmunir gjafþega væru þannig ríkari, hvað varðar öflun gjafafjár, og það bæri því fremur undir þann aðila að leggja samþykktir sínar og eftir atvikum ársreikninga fyrir skattyfirvöld til staðfestingar á frádráttarbærni gjafa frá skattskyldum tekjum gefanda, en fyrirhugaðs gefanda að kalla úttekt og skoðun yfir væntanlegan gjafþega vegna hugsanlegra skattalegra hagsmuna gefanda.

Stofnun hins væntanlega gjafþega hefur ekki farið fram og hefur ríkisskattstjóri því ekki efnislegar forsendur til að meta hvort starfsemi gjafþega falli að ákvæðum 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Álitsbeiðni nr. ..... um bindandi álit á því hvort framlag til B ses. sé frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 15. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum