Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2007

Höfnun lækkunar vörugjalds af hópbifreiðunum

8.1.2007

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi A fyrir hönd B ehf., dags. 20. nóvember 2006, þar sem kærð er ákvörðun embættisins, frá 27. september 2006, þess efnis að hafna lækkun vörugjalds.

II.

Málavextir eru þeir að þann 29. maí 2006 fluttu B ehf., hér eftir nefnt kærandi, til landsins þrjár framangreindar hópferðabifreiðar frá Þýskalandi. Bifreiðarnar voru fluttar til landsins með þremur aðskildum sendingum. Aðflutningsskýrslur ásamt fylgigögnum bárust embættinu 8. júní 2006, og voru hópferðabifreiðarnar tollafgreiddar samdægurs, með rafrænni tollafgreiðslu. Við tollafgreiðsluna var lagt á 30% vörugjald, eins og um 17 manna hópferðabifreið væri að ræða, til samræmis við

5. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 með síðari breytingum, sbr. a-lið 4. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum með síðari breytingum. Hópferðabifreiðarnar voru nýskráðar hjá Umferðarstofu 12. og 13. júní 2006. Var álagningu 30% vörugjalds eigi mótmælt af hálfu kæranda við tollafgreiðsluna.

Embætti tollstjórans í Reykjavík barst síðan bréf A fyrir hönd kæranda, dags. 1. september 2006, er varðaði beiðni um niðurfellingu vörugjalda vegna innflutnings á þremur innfluttum hópbifreiðum með fastanúmerin X, Y og Z. Í bréfinu kom fram að bifreiðunum hafi verið breytt í hópferðabifreiðar fyrir 18 manns. Í bréfinu er farið fram á endurgreiðslu vörugjalds með vísan til a-liðar 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 en þar kemur fram að hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri skuli undanþegnar vörugjaldi. Vörugjaldsskýrslum vegna aðvinnslu eða framleiðslu ökutækis, var skilað til embættisins 31. ágúst 2006. Með ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, frá 27. september 2006, var því hafnað að lækka vörugjald af framangreindum hópferðabifreiðum. Rök fyrir synjuninni voru þau, að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 5. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Samkvæmt því ákvæði hafi kærandi orðið að sækja um eftirgjöf vörugjalds fyrir eða í beinum tengslum við nýskráningu. Vísað var til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 13/2004, varðandi skýringu þess hvað teldist vera í beinum tengslum við nýskráningu, en það væru taldir vera 7 dagar. Þar sem þessum skilyrðum var ekki fullnægt var synjað um niðurfellingu.

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2006, er ákvörðun tollstjórans í Reykjavík kærð. Í kærunni er þess óskað aðallega, að felld verði niður álagning vörugjalds á framangreindar bifreiðar, en til vara að þær beri einungis 5% vörugjald.

III.

Um álagningu og útreikning vörugjalds af ökutækjum gilda lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, með síðari breytingum. Þá er einnig í gildi reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum sem sett er með stoð í 28. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

Samkvæmt a-lið 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 skulu hópferðabifreiðar, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni, undanþegnar álagningu vörugjalds, sbr. og a-lið 1. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000 með síðari breytingum. Þá segir í 5. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 að 30% vörugjald skuli leggjast á hópferðabifreiðar sem skráðar séu fyrir 10-17 manns að meðtöldum ökumanni, sbr. og a-lið 4. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000 með síðari breytingum. Ennfremur segir í 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, að greiða skuli 5% vörugjald af hópferðabifreiðum sem eru skráðar fyrir 10–17 manns að meðtöldum ökumanni, og eru í eigu hópferða- eða sérleyfishafa, eða í fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa, sbr. og 6. tl. 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 331/2000 með síðari breytingum. Í 8. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 er kveðið á um, að ef aðvinnsla á ökutæki fer fram fyrir nýskráningu þá skuli innflytjandi skila vörugjaldi samkvæmt þeim gjaldflokki sem ökutækið fellur undir þegar að nýskráningunni kemur.

IV.

Í bréfi kæranda til embættis tollstjórans í Reykjavík, dags. 1. september 2006, kemur fram að bifreiðarnar sem hér um ræðir hafi komið hingað til lands svo búnar, að þær rúmuðu 17 manns ásamt ökumanni. Búið hafi verið að senda inn teikningar til Umferðarstofu, þar sem gert væri ráð fyrir að bifreiðarnar rúmuðu 18 manns að meðtöldum ökumanni. Bifreiðarnar hafi verið tollafgreiddar, eins og þær voru þá úr garði gerðar, til þess að fá þær „inn í landið“ eins og kærandi orðar það. Þegar þær hafi verið nýskráðar hafi þær rúmað 18 manns að meðtöldum ökumanni. Þá kemur fram að ekki hafi við tollafgreiðslu bifreiðanna verið lögð inn vörugjaldsskýrsla vegna framleiðslu eða aðvinnslu ökutækis. Hafi það ekki verið gert vegna sumarfría hjá kæranda og vanþekkingar starfsmanna hans. Þá bendir kærandi á, að öll sams konar ökutæki sín hafi fengið niðurfellt vörugjald, en bifreiðarnar eigi að teljast vera fyrir 18 manns að meðtöldum ökumanni. Á þessum forsendum óskar kærandi eftir niðurfellingu vörugjalds.

Í kæru, dags. 20. nóvember 2006, er vísað til fyrri röksemda úr framangreindu bréfi. Ítrekað er þar, að vegna vankunnáttu hafi hvorki verið lagt fram rekstrarleyfi til hópflutninga, né heldur tekið fram að ökutækin ættu að vera fyrir 18 manns að meðtöldum ökumanni. Hefði slíkt verið gert hefði vörugjald annað hvort átt að falla niður eða verða einungis 5%. Einnig mótmælir kærandi tilvísun tollstjórans í Reykjavík, til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 13/2004 sem fordæmisgefandi, á þeim forsendum að hann eigi ekki við enda ólíku saman að jafna. Þá vísar kærandi til þess, að hann hafi gilt rekstrarleyfi til fólksflutninga, og það eigi að leiða til þess að vörugjald verði einungis 5%. Á þessum forsendum óskar kærandi þess að mistök sín við innflutninginn verði leiðrétt, aðallega þannig að vörugjald af bifreiðunum verði fellt niður, eða til vara að það lækki í 5%.

Með kæru fylgdi afrit af almennu rekstraleyfi kæranda til fólksflutninga, dags. 4. nóvember 2004, með gildistíma til 4. nóvember 2009. Þá fylgdu þar með myndrit af skráningarskírteinum fyrir tvær bifreiðar af þeim þremur sem hér um ræðir. Í báðum skráningarskírteinunum kemur fram að sætafjöldi sé 17 og í athugasemdum stendur „Sérbúnaður: Leiðsögumannssæti“.

Áður en úrskurður þessi var kveðinn upp var aflað frekari gagna. Voru prentuð út skráningarskírteini fyrir bifreiðarnar þrjár af alnetinu, á heimasíðu Ekju – opinberrar ökutækjaskrár, þann 29. nóvember 2006. Þar kemur fram að bifreiðarnar séu skráðar fyrir 16 farþega og þar af engan hjá ökumanni. Jafnframt kemur fram meðal athugasemda „Sérbúnaður: Leiðsögumannssæti“. Einnig kemur þar fram, undir svonefndum breytingarferil, að við forskráningu hafi verið í bifreiðunum sérbúnaðurinn leiðsögumannssæti.

Í kjölfarið var Umferðarstofu sendur rafpóstur, dags. 29. nóvember 2006, þar sem spurt var að því hve margir mættu ferðast í hverri af þeim bifreiðum sem hér um ræðir, við forskráningu þeirra annars vegar og við nýskráningu hins vegar. Svar Umferðarstofu var á þá leið að allar bifreiðarnar hefðu verið skráðar sem hópbílar fyrir 16 farþega og ökumann þar að auki og hefði svo verið bæði við forskráningu og nýskráningu. Af þessu tilefni var kæranda tilkynnt um svar Umferðarstofu og honum gefið færi á að koma sínum sjónarmiðum að, til samræmis við 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda taldi embættið að svar Umferðarstofu varðaði grundvallaratriði málsins.

Að beiðni kæranda bárust upplýsingar frá Umferðarstofu með rafpósti þann 14. desember 2006. Þar kemur fram að í skráningarskírteinum bifreiða séu svonefnd leiðsögumannssæti ekki talin með þeim sætafjölda sem tilgreindur sé fyrir farþega. Sætin séu þó tilgreind sem sérbúnaður og því eigi að telja þau með til viðbótar skráðum heildarfjölda sæta í hópbifreið. Slík sæti séu þó eingöngu ætluð leiðsögumönnum en ekki farþegum og litið sé svo á að leiðsögumaður sé hluti af áhöfn hópbifreiðar.

V.

Kærandi krefst þess aðallega að vörugjöld verði felld niður af þremur hópbifreiðum með fastanúmerin X, Y og Z. Samkvæmt a-lið 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 skulu hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni undanþegnar álagningu vörugjalds, sbr. og a-lið 1. tl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Kærandi hefur lagt fram skráningarskírteini bifreiðanna þar sem fram kemur að sætafjöldi sé 17 og sérbúnaður sé m.a. leiðsögumannssæti. Kemur það heim og saman við skráningarskírteini sem prentuð voru út af alnetinu. Einnig liggur fyrir rafpóstur frá Umferðarstofu, dags. 14. desember 2006, þar sem gefnar eru þær leiðbeiningar að telja skuli leiðsögumannssæti með til viðbótar skráðum sætafjölda bifreiðar, sé það tilgreint sem sérbúnaður í skráningarskírteini. Þá liggur einnig fyrir rafpóstur frá Umferðarstofu, dags. 29. nóvember 2006, þar sem fram kemur að bifreiðarnar þrjár hafi verið eins skráðar við forskráningu og nýskráningu sem hópbifreiðar fyrir 16 farþega auk ökumanns.

Samkvæmt breytingaferli bifreiðanna, á heimasíðu Ekju – opinberrar ökutækjaskrár, hefur sérbúnaðurinn leiðsögumannssæti verið fyrir hendi í bifreiðunum við forskráningu. Á milli forskráningar og nýskráningar bifreiðanna líða 5 til 7 dagar, eftir því hvaða bifreið á í hlut, og vandséð er að á þeim tíma hafi verið unnt að breyta þeim í verulegum atriðum. Telja verður því miðað við framangreind gögn að bifreiðarnar hafi verið fyrir 18 manns að meðtöldum ökumanni við nýskráningu. Þau hafi því átt að falla undir 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 sbr. og a-lið 1. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000 með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 8. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 segir að sá aðili, er framleiðir eða vinnur að breytingum á ökutæki áður en það er skráð samkvæmt umferðarlögum, skuli skila gjaldi af ökutækinu í samræmi við verðmæti þess við skráningu og samkvæmt þeim gjaldflokki sem það þá fellur undir samkvæmt lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Samkvæmt þessu lagaákvæði er það tímamarkið við nýskráningu sem ræður gjaldflokknum og útbúnaður ökutækis á þeim tímapunkti. Telja verður, miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, að við nýskráningu hafi bifreiðarnar uppfyllt þau skilyrði sem fram koma í a-lið 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Bifreiðarnar hafa þegar af þeirri ástæðu átt að vera undanþegnar vörugjaldi. Í ljósi þeirra upplýsinga og gagna sem aflað hefur verið, varðandi rétta túlkun og skilning skráningarskírteina, og þess sem að framan greinir um búnað og gerð bifreiðanna þriggja sem hér um ræðir við nýskráningu, sem og a-liðar 1. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 og fortakslauss orðalags 1. mgr. 8. gr. sömu laga er fallist á aðalkröfu kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 27. september 2006, þar sem synjað var um niðurfellingu álagðs vörugjalds á hópbifreiðarnar X, Y og Z, er felld úr gildi. Fallist er á kröfu kæranda um að hópbifreiðarnar X, Y og Z skuli ekki bera vörugjald.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar innan 60 daga frá póstlagningardegi sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Reykjavík, 8. janúar 2007

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum