Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2016

Álögð aðflutningsgjöld á inniskó frá Hong Kong

9.3.2016

Reifun

Kærandi flutti inn skó frá Hong Kong sem framleiddir höfðu verið í Kína. Var fríðindameðferð hafnað á þeim grundvelli að sendingarnúmer bæri með sér að skórnir hefðu verið sendir frá Hong Kong. Kærandi taldi slíka meðferð ekki standast anda fríverslunarsamninga, hvorki tvíhliðasamnings Íslands við Kína né fríverslunarsamnings EFTA við Hong Kong.

Niðurstaða: Fríðindameðferð vara er háð því að reglum um uppruna sé fullnægt. Ljóst var af máli kæranda að varan væri framleidd í Kína og átti því fríverslunarsamningur EFTA við Hong Kong ekki við. Var kæranda skýrt frá því að til þess að varan nyti fríðindameðferðar yrði hún að hafa komið í beinum flutningi til landsins í skilningi 33. gr. fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Þýðir það að hana má afferma, geyma o.fl. undir tolleftirliti í ríki sem ekki er aðili samningsins. Var kæranda gefinn kostur á að leggja fram sönnun fyrir því að svo hefði verið. Slík gögn gat kærandi ekki lagt fram og varð því Tollstjóri að hafna því að veita sendingu kæranda fríðindameðferð.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 1. desember sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 30. nóvember s.á., um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu frá Hong Kong. Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Kærandi keypti inniskó frá Kína sem fluttir voru til landsins með sendingarnúmerinu P frá Hong Kong þann 18. nóvember 2015. Var kæranda tilkynnt af Íslandspósti að sendingin ætti ekki rétt á fríðindameðferð þar sem hún væri send frá Hong Kong. Kæranda var ráðlagt á að leita til Tollstjóra óskaði hann frekari skýringa. Kærandi hafði samband við Tollstjóra með tölvupósti þann 30. nóvember og óskaði skýringa á tollmeðferð sendingarinnar. Kærandi var ósáttur við þau svör sem hann fékk og kærði ákvörðunina þann 1. desember 2015. Þann 9. desember tilkynnti Tollstjóri kæranda að mál hans hefði verið tekið til meðferðar og óskaði þess að kærandi skýrði betur kringumstæður málsins. Var kæranda leiðbeint um framlagningu upprunasönnunar í samræmi við fríverslunarsamningi EFTA og Hong Kong, teldi kærandi samninginn eiga við. Kærandi svaraði pósti Tollstjóra þann 12. desember og var þar með ljóst að kærandi teldi vöruna vera af kínverskum uppruna. Af hálfu Tollstjóra var lagt fyrir kæranda að leggja fram sönnun um að sendingin kæmi í beinum flutningi frá Kína í samræmi við 33. gr. fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Slík gögn bárust ekki og gaf Tollstjóri að lokum kæranda frest til 15. febrúar til að leggja gögnin fram, en að öðrum kosti yrði úrskurðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Engin gögn bárust frá kæranda innan umrædds frests og taldist gagnaöflun því lokið 16. febrúar 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi greiddi aðflutningsgjöld af sendingunni með þeim fyrirvara að innheimta þeirra væri í andstöðu við ákvæði ofangreindra fríverslunarsamninga um tollfrelsi milli landanna.Telur kærandi túlkun Tollstjóra á umræddum fríverslunarsamningum ekki vera í anda samninganna og hamla viðskiptum við umrædd lönd. Kærandi vísar til fríverslunarsamninga milli Íslands og Kína annars vegar og EFTA og Hong Kong hinsvegar. Kærandi telur ekki rétt að vara frá Kína missi rétt til fríðindameðferðar á þeim forsendum að hún sé send gegnum Hong Kong.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Í 1. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga segir að tollur skuli falla niður í samræmi við ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Sé í gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og þess ríkis sem sending kemur frá, getur vara því notið fríðindameðferðar við tollafgreiðslu að vissum skilyrðum uppfylltum.

Fríðindameðferð kæranda með vísan til fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína var við tollafgreiðslu hafnað á þeim grundvelli að varan væri send frá Hong Kong en ekki Kína. Líkt og fram kom í tölvupósti Tollstjóra til kæranda þann 30. nóvember telst vara sem framleidd er í Kína en tollafgreidd hefur verið inn í Hong Kong og seld þaðan, ekki lengur uppfylla skilyrði til fríðindameðferðar. Orsakast þetta af því að í 33. gr. fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína segir að vara skuli flutt milli ríkjanna með beinum flutningi. Sendingu má umskipa eða geyma tímabundið í öðru ríki að því gefnu að hún sé undir tolleftirliti á meðan umflutningur á sér stað. Sendingarnúmer vöru kæranda bar með sér að hún hafi ekki komið í því sem telst beinn flutningur frá Kína, heldur hafi upprunaland sendingarinnar verið Hong Kong og varan send kæranda þaðan. Var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn sem sannað gætu að varan hafi verið undir tolleftirliti í Hong Kong, en kærandi gat ekki lagt slík gögn fram. Ljóst var af tölvupósti kæranda þann 12. desember að umrædd vara var framleidd í Kína og því kemur fríverslunarsamningur EFTA og Hong Kong heldur ekki til álita. Af ofangreindum orsökum getur Tollstjóri ekki fallist á að veita sendingu kæranda fríðindameðferð.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun fríðindameðferðar er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 55/2008 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum