Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2005

Dráttarvexti af aðflutningsgjöldum af skemmtibát

21.12.2005

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf frá A dags. 19. nóvember sl. þar sem mótmælt er álagningu dráttarvaxta á skemmtibátnum X, sendingarnúmer X XXX 28 05 4 FO THO 0001, innflytjandi A. Embættið lítur svo á að umrætt bréf feli í sér kæru á ákvörðun embættisins, dags. 11. nóvember sl., um að reikna dráttarvexti af vangoldnum aðflutningsgjöldum frá komudegi farsins.

II

Málavextir eru þeir að þann 28. maí 2004 kom skemmtibáturinn X til Hafnar í Hornafirði þar sem hann fékk aðkomuafgreiðslu skv. 3. mgr. 51. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þann 6. júní sl. sendi embætti tollstjórans innflytjanda bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvort báturinn hefði verið tollafgreiddur. Embættinu barst svarbréf dags. 7. júlí frá lögmanni innflytjanda þar sem upplýst var að báturinn hafi komið til landsins á Höfn í Hornafirði og verið tollafgreiddur þar. Þann 10. ágúst sendi embættið lögmanni innflytjanda bréf þar sem segir að báturinn hafi væntanlega fengið aðkomuafgreiðslu á Höfn í Hornafirði en ekki hafi verið um tollafgreiðslu að ræða. Ítrekuð var ósk um upplýsingar um það hvort tollafgreiðsla, sbr. 24. gr. tollalaga, hafi verið fengin. Í bréfi embættisins dags. 27. september var innflytjanda svo veittur 15 daga frestur til þess að tollafgreiða bátinn. Þann 7. október sl. var aðflutningsskýrsla móttekin af embættinu. Þann 11. nóvember voru lagði dráttarvextir á vangreidd aðflutningsgjöld frá 28. maí 2004 til 11. nóvember 2005 að fjárhæð kr. 380.178.

III

Í kærubréfi krefst innflytjandi þess að ekki verði lagðir dráttarvextir á vangoldin aðflutningsgjöld fyrir fyrstu 12 mánuðina sem skemmtibáturinn var í landinu. Samkvæmt reglum og langri venju hafi erlendir bátar fengið að vera við land í 12 mánuði án þess að krafist væri aðflutningsgjalda. Þessu til stuðnings vísar innflytjandi til 103. gr. tollalaga.

Innflytjandi krefst þess einnig að ekki séu reiknaðir dráttarvextir af vangreiddum aðflutningsgjöldum frá þeim tíma er aðflutningsskýrsla var lögð fram þann 4. október sl. þar sem sá dráttur sé tollstjóraembættinu að kenna.

Innflytjandi fellst á að greiða dráttarvexti frá þeim tíma er 12 mánuðir voru liðnir frá komu fars til þess tíma er aðflutningsskýrsla var lögð fram, þ.e. frá 28. maí sl. til 4. október sl.

Í 2. gr. tollalaga er kveðið á um að hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða ábyrgur verður um greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga sé tollskyldur, sbr. þó 3. gr., og skuli greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá.

Í 1. mgr. 103. gr. tollalaga kemur fram að aðflutningsgjöld af öðrum vörum en þeim sem heimild hefur verið veitt til að settar séu í tollvörugeymslu eða fluttar á frísvæði, falli í gjalddaga þegar tollstjóra hefur verið afhent aðflutningsskýrsla yfir vöru ásamt tilskildum gögnum eða leyfi verið veitt til afhendingar vöru enda hafi flutningsfar tekið höfn. Aðflutningsgjöld skuli þó falla í gjalddaga eigi síðar en einu ári talið frá komudegi flutningsfars til landsins.

Í 1. mgr. 105. gr. er kveðið á um að sé vara tekin úr vörslu farmflytjanda, úr tollvörugeymslu, tekin til notkunar eða flutt brott af frísvæði án þess að leyfi tollstjóra liggi fyrir séu aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga.

Samkvæmt síðasta málslið 1. mgr. 103. gr. fellur ótollafgreidd vara, sem geymd er í vörslu fyrir ótollafgreidda vöru, í gjalddaga einu ári frá komudegi flutningsfars. Ef ótollafgreidd vara er ekki geymd í sérstakri vörslu fyrir ótollafgreidda vöru, heldur tekin til notkunar, falla aðflutningsgjöld þegar í eindaga, sbr. 1. mgr. 105. gr.

Í 2. mgr. 105. gr. kemur fram að sé vara tekin til notkunar ótollafgreidd skuli aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á komudegi flutningsfars til landsins hafi vara verið í vörslu farmflytjanda eða innflytjanda, en hafi hún verið sett í tollvörugeymslu eða flutt á frísvæði skulu aðflutningsgjöld reiknuð út samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar tollstjóri veitti leyfi til flutnings vöru þangað, nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að nefnd atvik séu síðar til komin. Reikna skuli frá sama tíma dráttarvexti af aðflutningsgjöldum þannig útreiknuðum. Dráttarvextir skulu vera hinir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt lögum nr. 25/1987, sbr. nú lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Ljóst er að skemmtibáturinn X var frá komudegi ekki á frísvæði, í tollvörugeymslu eða í annarri geymslu fyrir ótollafgreidda vöru, heldur var hann tekinn til notkunar án þess að hann væri tollafgreiddur. Þess ber að geta að ekki hefur verið sýnt fram á að innflytjandi uppfylli þau skilyrði sem þarf til þess að eiga rétt til tímabundins tollfrjáls innflutnings á farartæki, sbr. 4. mgr. 6. gr. tollalaga sbr. og reglugerð 160/1990, en þau eru m.a. á þann veg að innflytjandi farartækisins hafi verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár og hafi jafnframt ekki átt lögheimili hér á landi.

Samkvæmt ofansögðu féllu aðflutningsgjöld af skemmtibátnum í gjalddaga þann 28. maí 2004 og ber að greiða dráttarvexti af vangreiddum aðflutningsgjöldum frá þeim degi til þess dags er aðflutningsskýrsla var lögð inn hjá tollstjóra hinn 7. október 2005, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. tollalaga hvílir ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda á innflytjanda eða viðtakanda vöru.

Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla þessa máls hefur dregist vegna mikilla anna.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar að ákvörðun embættisins frá 11. nóvember sl. um álagningu dráttarvaxta á sendingu með sendingarnúmerinu X XXX 28 05 4 FO THO 0001, kr. 380.178, standi óbreytt að því er varðar upphafsdagsetningu dráttarvaxtaútreiknings frá 28. maí 2004 og að dráttarvextir reiknist til afhendingardags tollskýrslu þann 7. október 2005. Upphæð dráttarvaxta verður skv. því kr. 354.601.

Úrskurður þessi er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 102. gr. tollalaga.

Reykjavík, 21. desember 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum