Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2015

Höfnun tollfríðinda fyrir búslóð

15.1.2016

Reifun

S kærði ákvörðun Tollstjóra um að hafna honum um tollfríðindameðferð vegna innflutnings búslóðar. S fór fram á að fá endurgreiddan virðisaukaskattinn sem greiddur hafði verið vegna innflutningsins. Kærandi vísar í 36. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 4.tl. 6. gr. tollalaga. Telur kærandi sig uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða um undanþágu greiðslu tolla og vörugjalds vegna umrædds innflutnings hluta búslóðar, að öðru leyti en því að hann sé með lögheimili skráð í Bretlandi.

Niðurstaða: Skilyrði fyrir tollfríðindum búslóða er að finna í 1. mgr. 6 gr. tollalaga nr. 88/2005, en samkvæmt 4. tl. ákvæðisins eru búslóðir þeirra sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjálsar enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. eitt ár áður en flust var til landsins. Frekari skilyrði fyrir tollfrelsi búslóða má finna í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Í 2. tl. ákvæðisins er gerð krafa um að innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili

Þar sem kærandi er ekki með skráð lögheimil hér á landi uppfyllir hann ekki skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Embætti Tollstjóra hafnar því kröfum kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 15. nóvember 2015, hefur S, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. október 2015 um höfnun tollfríðinda fyrir búslóð.

Kærandi fer fram á að virðisaukaskattur sem greiddur var af búslóðinni verði endurgreiddur.

II. Málsmeðferð

Þann 2. mars 2015 og 27. júlí sama ár bárust sendingar hingað til lands með sendingarnúmerin X og var kærandi skráður innflytjandi. Fyrri sendingin innihélt málverk og kom frá Sidney, Ástralíu og hin síðari innihélt höggmyndir og kom frá London, Englandi.

Aðflutningsskýrslur vegna ofangreindra sendinga voru lagðar inn hjá embættinu þann 4. ágúst 2015. Samskipti milli kæranda og Tollstjóra fóru að mestu leyti fram símleiðis. Kærandi fékk tölvupóst frá Tollstjóra þann 23. september 2015 þar sem óskað var eftir því að kærandi greiddi tryggingagjald vegna ofangreindra sendinga, þar sem kærandi byggði upphaflega á því að um tímabundinn innflutning væri að ræða. Annar tölvupóstur var sendur til kæranda þann 2. október 2015 þar sem ekki var fallist á að veita heimild fyrir tímabundum innflutningi þar sem ljóst var að ekki stóð til að vörurnar færu aftur úr landi. Var kæranda því gert að greiða aðflutningsgjöld og tollafgreiða sendingarnar. Sendingarnar voru tollafgreiddar og tilbúnar til afhendingar þann 5. október sama ár.

Kæra vegna ofangreindrar tollafgreiðslu barst embætti Tollstjóra með bréfi dags. 19. nóvember sl.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveðst hafa lögheimili í London, Englandi, og hefur sent hluta af búslóð til afnota í íbúð sinni að L í Reykjavík. Hyggst kærandi hafa aðsetur á báðum stöðum í framtíðinni enda reki hann fyrirtæki hér á landi sem eru nátengd starfsemi hans í Bretlandi.

Kærandi byggir á því að hann hafi átt munina í mörg ár, en þeir komu annars vegar frá London og hins vegar frá fyrrum heimili hans í Sidney, Ástralíu. Við innflutning hafi verið lagður á munina virðisaukaskattur við afgreiðslu hjá tollyfirvöldum. Skatturinn hafi verið greiddur með fyrirvara um endurgreiðslukröfu.

Kærandi vísar til 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 þar sem segir að vörur sem eru tollfrjálsar eða undanþegnar tolli skv. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, skulu undanþegnar virðisaukaskatti. Þá vísar kærandi einnig til 4. liðar 6. gr. tollalaga, þar sem segir að búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands skuli vera undanþegin tollskyldu, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár. Í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er kveðið á um almenn skilyrði tollfrelsis búslóða. Þar er m.a. talað um að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt ár, að innflytjandi verði með fast lögheimili á Íslandi og að innflytjandi verði að flytja búslóð innan 6 mánaða frá þeim tíma sem hann tók sér bólfestu hér á landi.

Kærandi telur sig uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða um undanþágu greiðslu tolla og virðisaukaskatts vegna umrædds innflutnings hluta búslóðar að öðru leyti en því að hann sé með lögheimili í Bretlandi. Þá heldur kærandi því fram að það sé mjög algengt að fólk búi í fleiri en einu landi. Rökin fyrir því að búslóð manna sé undanþegin tollskyldu og virðisaukaskatti hljóti því að eiga jafnt við um þá sem eiga heimili í fleiri en einu landi og þeirra sem eru búsettir í einu landi óháð lögheimilisskráningu. Telur kærandi það í hæsta máta óeðlilegt að persónulegir hlutir sem teljast hluti af búslóð og búið er að borga skatta af þegar þeir eru keyptir séu skattlagðir aftur ef þeir skipta ekki um eiganda heldur einungis um íverustað.

Telur kærandi að ekki verði séð að ákvæði í reglugerð þar sem flutningur búslóðar sé bundinn við lögheimili eigi sér lagastoð. Óskar kærandi eftir því að virðisaukaskattur samtals að fjárhæð kr. 4.534.931 verði endurgreiddur.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá, sbr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.

Undantekningar frá þessari meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6 gr. tollalaga nr. 88/2005, en samkvæmt 4. tl. ákvæðisins eru búslóðir þeirra sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjálsar enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. eitt ár áður en flust var til landsins. Frekari skilyrði fyrir tollfrelsi búslóða má finna í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Í 2. tl. ákvæðisins er gerð krafa um að innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili. Um undanþáguákvæði er að ræða frá meginreglunni um gjaldskyldu og ber að túlka undanþágur þröngt.

Kærandi kveðst hafa sent hluta af búslóð sinni hingað til lands til afnota í íbúð sinni, en hann hyggst hafa aðsetur bæði á Íslandi og Bretlandi í framtíðinni. Í kæru kemur fram að kærandi telji sig uppfylla öll skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar að undanskyldri þeirri kröfu um að lögheimili sé skráð hér á landi, sbr. 2. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Ekkert kemur fram í kæru um að til standi hjá kæranda að flytja lögheimili sitt til Íslands og uppfyllir því kærandi ekki skilyrði sem sett eru fram í 2. tl. 16. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi heldur því fram að áðurgreint skilyrði reglugerðar 630/2008 um ýmis tollfríðindi, um að innflytjandi verði með skráð lögheimili hér á landi, eigi sér ekki lagastoð. Í því samhengi vill Tollstjóri benda á að í 2. mgr. 6. gr. tollalaga er reglugerðarheimild til handa ráðherra. Þar kemur fram að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt greininni. Telur Tollstjóri að umrætt skilyrði í 2. tl. 16. gr. reglugerðar 630/2008 sé innan þeirra marka sem þarna er tekið fram og fellst því ekki á að 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 eigi sér ekki lagastoð.

Þar sem kærandi er ekki með skráð lögheimil hér á landi uppfyllir hann ekki skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Embætti Tollstjóra hafnar því kröfum kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af ofangreindum sendingum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á tollfrelsi búslóðar kæranda, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum