Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2005

Aðflutningsgjöld af bifreið af gerðinni Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2003

28.1.2005

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf yðar, dags. 16. nóvember sl. þar sem kærð er sú ákvörðun embættisins að hafna við tollafgreiðslu, vörureikningi sem lagður var fram vegna tollafgreiðslu á bifreiðinni X. Bifreiðin X er af gerðinni Jeep Grand Cherokee Overland, árg. 2003 og var flutt til landsins frá Kanada með sendingu E BRU 27 09 4 CA SBU R801. Innflytjandi sendingarinnar er A.

II.

Málavextir eru á þann veg að þann 27. september 2004 flutti innflytjandi til landsins umrædda bifreið frá Kanada. Var aðflutningsskýrslu ásamt fylgigögnum skilað til embættisins þann 30. september 2004 og var kaupverð bifreiðarinnar tilgreint að fjárhæð CAD 24.000,00 og tollverð bifreiðarinnar reiknað kr. 1.431.143,00. Með bréfi embættisins, dags. 8. október 2004, óskaði embættið eftir frekari skýringum og gögnum til staðfestingar á innkaupsverði ökutækisins. Skýringar bárust með bréfi innflytjanda dags. 18. október 2004. Aðflutningsgjöld umræddrar sendingar voru ákvörðuð með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 20. október 2004, á þann veg að tollverð bifreiðarinnar var ákvarðað kr. 2.329.039,00. Með bréfi dags., 20. október 2004 gerði innflytjandi athugasemdir við afgreiðslu máls. Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um aðflutningsgjöld bifreiðarinnar X var síðan kærð til úrskurðar tollstjórans í Reykjavík, með bréfi frá lögmanni innflytjanda, dags. 16. nóvember 2004.

III.

Í kæru innflytjanda, dags. 16. nóvember 2004, er aðallega gerð sú krafa að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun. Til vara er þess krafið að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað á grundvelli 10-14. gr. fyrrnefndrar reglugerðar.

Málavöxtum við kaup bifreiðarinnar, innflutning hennar og tollafgreiðslu er ítarlega lýst í kæru innflytjanda, dags. 16. nóvember 2004.

Embættið telur rétt að gera eftirfarandi athugasemdir við málavaxtalýsingu í kæru innflytjanda. Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um að það hafi verið starfsmenn embættis tollstjórans í Reykjavík sem opnuðu þaklúgu bifreiðarinnar X og því fellst embættið ekki á að tjón á bifreiðinni sé komið til vegna skoðunar embættisins á bifreiðinni. Þá telur embættið rétt að fram komi að B, deildarstjóri þjónustu- og lögfræðideildar, er ekki yfirmaður C sem er starfsmaður í vöruskoðunar- og afgreiðsludeild.

IV.

Í 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er að finna þá meginreglu að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af 9. gr. Um tollverð og tollverðsákvörðun gildir reglugerð nr. 374/1995, með síðari breytingum, en reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga. Grunnregla 8. gr. tollalaga er ítrekuð í 2. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en þar kemur fram að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 3. gr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði sem sett eru fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar eru tilgreind í a.-e. lið 2. gr tollverðsreglugerðarinnar. Fram kemur í e. lið reglugerðarinnar að viðskiptaverðið verði lagt til grundvallar ef tollstjóri dregur ekki í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóra ber að athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, kemur fram að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum, sbr. 7. gr. sömu reglugerðar.

Í 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar kemur fram að ríkistollstjóri skuli safna saman upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá og sjá til þess að tollstjórar eigi greiðan aðgang að upplýsingum þessum.

Ljóst er að framansögðu að tollstjórinn í Reykjavík ber að kanna sjálfstætt viðmiðunarverð annarra ökutækja og ástand ökutækja, óháð því hvort reikningar eru taldir trúverðugir eða ekki. Við verðmætamat bifreiðarinnar, sem kveðið er á um í

17. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, hefur Tollstjórinn í Reykjavík stuðst við upplýsingar sem fram koma í Canadian Red Book til viðmiðunar, sbr. 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðariðnaðarins í Kanada. Verð hinnar innfluttu bifreiðar, Jeep Grand Cherokee Overland árg. 2003, er samkvæmt framlögðum reikningi er CAD 24.000,00 en viðmiðunarverð samkvæmt Canadian Red Book er CAD 34.150,00. Í Red Book kemur fram að verð á Jeep Grand Cherokee, árg. 2003 er talsvert hærra en tilgreint er á framlögðum gögnum við tollafgreiðslu og víkur kaupverð bifreiðarinnar X um 29% frá viðmiðunarverði embættisins sem fram kemur í Red Book. Vöruskoðun fór fram á sendingu E BRU 27 09 4 CA SBU R801 en ekki kom fram neitt sem skýrt gæti lágt verð bifreiðarinnar. Þá leit embættið einnig til bifreiða af tegundinni Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2003, sem fluttar voru inn til landsins á tímabilinu frá 1. júlí 2004 til 27. desember 2004. Verð þeirrar bifreiðar sem er af sömu tegund, undirtegund og árgerð er í samræmi við viðmiðunarverð samkvæmt Canadian Red Book og er því mun hærra en kaupverð bifreiðar þeirrar er mál þetta varðar.

Þá telur tollstjóraembættið að bilun í miðstöðvarkerfi sem í ljós kom eftir innflutning til landsins ekki skýra lágt kaupverð bifreiðarinnar. Umrædd bilun var ekki ljós við kaup bifreiðarinnar og því ekki unnt að líta svo á að bilunin hafi verið ástæða lágs kaupverðs.

Embættið bendir einnig að á reikningi frá D kemur fram að kaupverð bifreiðarinnar sé CAD 24.000,00. Hvergi á reikningum er þess getið að veittur hafi verið afsláttur að fjárhæð CAD 2.000,00 og engin önnur gögn liggja fyrir hjá embættinu er sýna fram á slíkt. Embættið fellst því ekki á að umræddur afsláttur hafi verið veittur enda er það mat embættisins að slíkur afsláttur geti ekki skýrt að bifreiðin sé undir viðmiðunarverði því sem að fram kemur í Canadian Red Book.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að viðskiptaverð bifreiðarinnar samkvæmt umræddum reikningi er mun lægra en markaðsverð sambærilegra bifreiða, miðað við uppgefin verð í Canadian Red Book og því telur embættið að framlagður reikningur sé ekki trúverðugur og ekki beri að leggja hann til grundvallar við tollverðsákvörðun, sbr. 18. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995.

V.

Í IV. kafla tollverðsreglugerðarinnar er mælt fyrir um hvernig tollverð skuli ákveðið þegar viðskiptaverð verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan við þær aðstæður er sú að leggja skuli viðskiptaverð samskonar vöru á samskonar viðskiptastigi, sem seldar eru eða fluttar inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. nánar 10.-14. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun. Embættið telur ekki unnt að beita 10.-14. gr. tollverðsreglugerðarinnar í þessu tilfelli. Á tímabilinu 1. júlí 2004 til 27. desember 2004 var flutt inn til landsins ein bifreið sem er sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar og bifreið sú sem að mál þetta varðar. Ljóst er að þegar um notaðar bifreiðar er að ræða þá er ástand ástand og búnaður bifreiða ætíð mjög ólíkur þótt um sömu tegund, undirtegund og árgerð sé að ræða. Embættið telur að þegar um notuð ökutæki er að ræða þá sé ógerlegt að finna sams konar ökutæki sem flutt hefur verið inn til landsins á sama eða svipuðum tíma, í sama ástandi og það ökutæki sem málið varðar. Embættið telur því að ekki sé unnt að fallast á að samskonar eða svipaðar bifreiðar og bifreiðin X hafi verið flutt inn til landsins á tímabilinu frá 1. júlí 2004 til 27. desember 2004 og því telur embættið ekki unnt að beita 10.-14. gr. tollverðsreglugerðarinnar í þessu tilfelli.

Embættið hefur sett sér ákveðin mörk um það hversu mikið kaupverð ökutækja geta vikið frá viðmiðunarverði. Í öllum þeim tilvikum þegar kaupverð bifreiða víkur frá viðmiðunarverði umfram framangreind mörk þá fer embættið fram á frekari skýringar frá innflytjanda á lágu verði bifreiðarinnar, sbr. 18. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Í kjölfar þeirra skýringa sem berast frá innflytjanda eru mál síðan skoðuð á ný og metið hvort framkomnar skýringar séu fullnægjandi. Séu skýringar ekki fullnægjandi ákvarðar embættið aðflutningsgjöld skv. 21. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Embættið telur því að í málum þessum sé jafnræðis gætt.

Í þeim málum sem upp koma hjá embættinu varðandi innflutning notaða bíla og þar sem embættið telur að ekki sé unnt að styðjast við framkomna reikninga, þá gerir embættið könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma. Eins og að framan er rakið var innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð kannaður á tímabilinu 1. júlí 2004 til 27. desember 2004. Það er mat embættisins að afar erfitt sé að finna sams konar ökutæki sem flutt hafi verið inn til landsins á sama eða svipuðum tíma, í sama ástandi og það ökutæki sem um ræðir. Því hefur ákvörðun tollverðs samkvæmt 10.-14. gr. tollverðsreglugerðarinnar verið beitt afar sjaldan þegar um notaðar bifreiðar er að ræða. Eins og að framan er rakið telur embættið að á sama eða svipuðum tíma og innflutningur sá er mál þetta varðar hafi ekki verið fluttar inn til landsins sambærilegar bifreiðar.

Embætti tollstjórans í Reykjavík telur, með vísan til ofangreinds, að í máli þessu hafi ekki verið brotið gegn meðalhófs og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Skýrt er kveðið á um það í 20. gr. tollverðsreglugerðarinnar að við ákvörðun tollverðs skv. 15. gr. þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 2. eða 10.-14. gr. skuli tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og þar er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, reiknað út skv. ákvæðum 21. gr. reglugerðarinnar. Ekki er því við útreikning tollverðs skv. 21. gr. reglugerðarinnar stuðst við það verð sem að fram kemur í Canadian Red Book heldur hvílir sú skylda á embættinu að miða við verð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund sem tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra. Samkvæmt bifreiðaskrá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2004 er verð á Jeep Grand Cherokee kr. 6.300.000,00 og ber því að miða við það verð við útreikninga tollverðs, sbr. 20. gr. tollverðsreglugerðarinnar.

VI.

Með vísan til alls framanritaðs ákveðst tollverð bifreiðarinnar því kr. 2.329.039,00 reiknað skv. 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995, með síðari breytingum.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á máli þessu vegna mikilla anna hjá embættinu. Þá vekur embættið athygli á að sendingin E BRU 27 09 4 CA SBU R801 er tilbúin til afgreiðslu- endurreiknuð og er inneign, að fjárhæð kr. 10.340,00, er á framangreindri sendingu.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 28. janúar 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum