Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2005

Ákvörðun aðflutningsgjalda vegna gjafar

31.1.2005

I

Með bréfi dagsettu þann 17. nóvember 20 mótmælti A ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 10.11.2004 um fjárhæð aðflutningsgjalda af sendingu með framangreint sendingarnúmer. Embætti tollstjórans í Reykjavík lítur svo á að um sé að ræða kæru til úrskurðar tollstjóra samkvæmt 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

II

Framangreind sending kom til landsins 27.10.2004 og var skráður móttakandi A. Samkvæmt aðflutningsskýrslu er um að ræða innflutning á 23 CD ROM skrifanlegum geisladiskum með efni á og einum MP3 spilara, iPod. Reikningi var ekki framvísað með aðflutningsskýrslu. Í yfirlýsingu ,,customs declaration and dispatch note”, sem fylgdi með vörunni, kemur fram að verðmæti hennar sé US $ 340,- þar af er verðmæti iPod spilarans sagt US $ 330,- og verðmæti CD ROM geisladiska US $ 10,-. Merkt er við að innihald sendingar sé gjöf.

Aðflutningsgjöld voru lögð á með hliðsjón af 4. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágur aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum. Þar er segir m.a. að hámarks verðmæti gjafar sem taka má við án þess að greiða toll af sendingunni sé kr. 7000,- Aðflutningsgjöld voru lögð á að teknu tilliti til framangreindar heimildar, þegar búið var að draga IS kr. 7000 frá uppgefnu verðmæti iPod spilarans eins og það var gefið upp á ,,customs declaration and dispatch note” þ.e. US $ 330,-

Útreiknuð aðflutningsgjöld voru samtals IS kr. 11.173,- sem sundurliðast þannig:

  1. iPod spilari: tollverð til grundvallar útreikningi kr. 15.794,-, A tollur 7.5% kr. 1.185,- , vörugjald 25% kr. 4.245,- , virðisaukaskattur 24.5% kr. 5.200,-
  2. CD ROM geisladiskar : tollverð 1.496,-, A tollur 10% kr. 147,-, virðisaukaskattur 24.5% kr. 396,-

III

Kærandi sætti sig ekki við álagningu aðflutningsgjalda og óskaði eftir rökstuðningi fyrir álagningunni. Hann lagði fram tölvupóst frá sendanda vörunnar dags 1.11.2004 þar sem fram kemur að um sé að ræða gjöf frá sendanda og að verðmæti gjafarinnar sé US$ 235,-

Af hálfu embættisins var óskað eftir vöruskoðun sem framkvæmd var þann 1.11.2004. Niðurstaða vöruskoðunar var að sendingin innihéldi; MP3, spilara 20 GB og 23 CD ROM skrifanlega geisladiska með efni á. Enginn reikningur var með í sendingunni.

Tollstjóraembættið rökstuddi álagningu sína með bréfi til kæranda þann 10.11.2004. Þar var gerð grein fyrir skilyrðum 4. gr. rg. 797/2000 og forsendum álagningar.

Kæranda var leiðbeint um kæruleiðir sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum.

IV

Kærandi skrifaði embættinu bréf dagsett 17. nóvember 2004 en embættið telur rétt að líta svo á að með bréfinu sé verið að kæra ákvörðun embættisins um álagningu aðflutningsgjalda af framangreindri sendingu sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Í bréfi kæranda kemur fram að um sé að ræða gamlan iPod spilara sem vinur hans í Bandaríkunum sé að gefa honum. Ástæðu gjafarinnar segir kærandi vera þá, að vinur hans viti að hann sé láglaunamaður sem ekki hafi möguleika á að kaupa svona tæki, sem séu mjög dýr hér á landi. Kærandi segir að nýr iPod spilari kosti US $ 250,- en ekki sé fast verð á notaða spilara, en samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi, sé það milli US $ 100 og 200,- Ástæðu þess að verðmæti iPod spilarans sé tilgreint US $ 330,- kveður kærandi vera þá að vinur hans, sendandinn, hafi tryggt sendinguna hjá Bandaríska póstinum fyrir þá fjárhæð. Kærandi leggur til, að til grundvallar verði lagt að verðmæti iPod spilarans sé US $ 150 – 200.

Þann 18. 11. 2004 sótti kærandi umrædda sendingu til póstsins. Embættið hefur undir höndum ljósrit af afhendingarlista frá tollmiðlun Íslandspósts þar sem fram kemur að sendingin var afhent móttakanda hennar, A, þann 18. nóvember 2004 og er afhendingarseðillinn undirritaður. Sama dag voru greidd af henni álögð aðflutningsgjöld og sendingin því afgreidd af hálfu tollstjóra þann dag.

V

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um álagningu aðflutningsgjalda þann 10.11.2004 byggði á þeim upplýsingum sem fyrir lágu á þeim tíma, þ.e. það sem fram kom á póstfylgiseðli sendingar um verðmæti og upplýsingum frá sendanda um að sendingin væri gjöf. Aðflutningsgjöld voru því ákvörðuð í samræmi við skilyrði reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágur aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum. Í 4. gr. reglu- gerðarinnar kemur fram að gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, skuli undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að verðmæti gjafar samkvæmt framlögðum reikningi sé ekki meira en 7.000 kr. Fylgi reikningur ekki vörusendingu skal tollstjóri áætla verðmæti með hliðsjón af líklegu smásöluverði hér á landi. Sé verðmæti gjafar meira en 7.000 kr. skal reikna aðflutningsgjöld að því marki sem verðmætið er umfram þá fjárhæð. Brúðkaupsgjafir skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum enda þótt þær séu meira en 7.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.
  2. Að viðtakandi sýni fram á að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast m.a. vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu sambandi.
  3. Að sending beri með sér að um sé að ræða gjöf frá tilteknum aðila búsettum erlendis og að tengsl séu á milli þess aðila og gjafþega.

Í tölvupósti sem gefandi sendi embættinu 1.11.2004 kemur ekkert fram um að iPod spilarinn sé gamall en þar kemur fram að verðmæti iPod spilarans sé US$ 235,-. Samkvæmt upplýsingum af veraldarvefnum slóð http//www.appel.com/ipod/ kostar nýr 20 GB iPod spilari US $ 299,-. Ekki verður ráðið af gögnum, að því hafi verið haldið fram, að um væri að ræða notaðan iPod spilara fyrr en eftir að kærandi fékk rökstuðning fyrir álagningu aðflutningsgjalda þann 10. nóvember sl.

Vegna þess að sendingin var leyst út úr pósti svo stuttu eftir að andmæli bárust var ekki hægt að skoða vöruna aftur til að meta hvort um væri að ræða notaðan eða nýjan iPod spilara. Samkvæmt heimildum í 4. gr. er ekki gert ráð fyrir að tekið sé tillit til þess hvort það sem gefið er sé notað eða nýtt heldur aðeins verðmæti gjafarinnar. Sendandi gefur upp í tölvupósti að verðmæti gjafarinnar sé US $ 235,- sem er lægra verð en sambærilegum nýjum iPod spilurum. Við útreikning tollverðs var lagt til grundvallar það verð sem sendandi gaf upp á fylgiseðli með póstsendingu að frádregnum gjafaafslætti og niðurstaðan varð sama fjárhæð og sendandi gjafar tilgreindi í áður nefndum tölvupósti. Við vöruskoðun þann 1.11.2004 var staðreynt að um iPod spilara var að ræða. Við álagningu aðflutningsgjalda var tekið tillit til þeirra ívilnandi heimilda sem fyrir hendi eru vegna tollafgreiðslu gjafasendinga.

Með vísan til þess sem að framan er greint eru ekki fyrir hendi forsendur til að breyta ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu númer P 150 27 10 4 IS R18 8163 og skal hún því standa óbreytt.

Úrskurður:

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um aðflutningsgjöld af sendingu númer P 150 27 10 4 IS R18 8163 skal standa óbreytt.

Úrskurð þennan er heimilt að kæra til ríkistollanefndar sbr 101. gr. tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum. Kæra skal vera skrifleg og studd gögnum og berast nefndinni eigi síðar en 60 dögum frá póstlagningardegi þessa bréfs.

Reykjavík 31. janúar 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum