Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2007

Tollflokkun á myndvörpu af gerðinni BENQ, PE8720 Digital Projector, Home Cinema Series

17.2.2007

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf A dags. 22. maí sl., þar sem kærð er ákvörðun embættisins tekin sama dag um tollflokkun á myndvörpu af gerðinni BENQ, PE8720 Digital Projector, Home Cinema Series sem var flutt til landsins með sendingu F 782 14 03 7 US JFK W563.

Málavextir eru þeir að 21. mars sl. móttók embættið rafræna aðflutningsskýrslu vegna fyrrgreindrar sendingar. Í þeirri aðflutningsskýrslu var myndvarpan tollflokkuð í tollskrárnúmer (hér eftir tnr.) 8528.6100: „Skjáir og myndvörpur, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða –flutningsbúnaði: - Myndvörpur: -- Sem gerðar eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471“. Embættið gerði athugasemd við tollafgreiðsluna þess efnis að tollflokka ætti myndvörpuna í tnr. 8528.6900: „ ... - Myndvörpur -- Aðrar“. Í kjölfar þess var embættinu afhent ný aðflutningsskýrsla þar sem myndvarpan var tollflokkuð í tnr. 8528.6900.

Í bréfi kæranda kemur fram að hann telji að tollflokka beri myndvörpuna í tnr. 8528.6100 í stað 8528.6900. Því til stuðnings vísar hann til þess að samkvæmt túlkunarreglu a-liðar 3. töluliðar almennra reglna um túlkun tollskrárinnar skal vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennri vörulýsingu. Kærandi bendir einnig á að myndvarpan sem hér um ræðir sé ekki frábrugðin meginþorra þeirra myndvarpa sem eru í notkun hérlendis að öðru leyti en því að hún sé búin DLP-myndtækni í stað LCD-myndtækni.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem tók gildi 1. janúar 1988. Með lögum nr. 96/1987, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, var tekin upp tollskrá sem byggir á tollflokkunarreglum samræmdu skrárinnar. Alþjóðatollastofnunin gefur út skýringarbækur og álit um túlkun samræmdu skrárinnar. Tollskrárnúmer í vörulið 8528 eru byggð á skiptingu samkvæmt samræmdu skránni og því ber að líta til skýringargagna Alþjóðatollastofnunarinnar við túlkun þeirra.

Í skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar kemur fram að skjáir sem hafi tengimöguleika við tölvu flokkist í tnr. 8528.4100 og 8528.5100 en utan þeirra falli skjáir sem geti einnig tekið við almennum video-merkjum, s.s. NTSC, SECAM, PAL og D-MAC. Þessar skýringar gilda einnig um myndvörpur í tnr. 8528.6100, eftir því sem við getur átt, þar sem orðalagið er hið sama, þ.e. tækin eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471. Það nægir þannig ekki eitt og sér að myndvarpan sé tengjanleg við tölvu til þess að hún flokkist í tnr. 8528.6100. Ef hún er einnig með búnaði til þess að taka við almennum video-merkjum flokkast hún í tnr. 8528.6900. Þess ber að geta að ekki skiptir máli við tollflokkun tækisins hvort það er búið DLP- eða LCD-myndtækni.

Samkvæmt notendahandbók framleiðanda um myndvörpuna, sem kærandi lagði fram, má tengja hana við tölvu með VGA-BNC-tengi, sem er sérhæft tölvutengi. Hins vegar má einnig tengja hana á margvíslegan annan hátt við annan búnað. Í tækinu er m.a. HDMI-búnaður sem styður óþjöppuð video-samskipti við önnur tæki, s.s. DVT- móttökubúnað gegnum einn leiðara. Þá er einnig unnt að tengja tækið við DVD- spilara, video-myndbandsupptökutæki o.fl. með component-tengi, s-video-tengi og composit-tengi. Tækið er því búið til að taka við almennum video-merkjum, s.s. PAL, NTSC o.fl. og eru þeir kostir umfram það sem Alþjóðatollastofnunin gerir ráð fyrir í tækjum sem flokkast eiga í tnr. 8528.6100. Auk þess er myndvarpan hluti af Home Cinema Series sem gefur til kynna að hún sé sérstaklega ætluð til þess að horfa á kvikmyndir. Þar sem búnaður tækisins er umfram það sem gert er ráð fyrir að falli í tnr. 8528.6100 á túlkunarregla a-liðar 3. töluliðar ekki við. Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða embættisins að flokka eigi myndvörpuna í tnr. 8528.6900.

Í kærubréfi er því einnig haldið fram að tollyfirvöld hafi ekki sinnt lögbundinni upplýsingaskyldu sinni, sbr. m.a. 6. tölulið 42. gr. tollalaga nr. 88/2006, þar sem fyrir innflutning myndvörpunnar hafi ekkert í tollskrá gefið til kynna að breytingar á henni hefðu áhrif á tollflokkun myndvörpunnar. Af þeirri ástæðu eigi að tollflokka myndvörpuna í tnr. 8528.6100.

Með auglýsingu 142/2006, sem tók gildi 1. janúar sl., var númerum og orðalagi tollskrárnúmera breytt til samræmis við samræmdu skrána sbr. 1. mgr. 189. gr. tollalaga. Auglýsingin var birt í A-deild Stjórnartíðinda 22. desember sl. Í stað tnr. 8528.3001 kom 8528.6100 og tnr. 8528.3009 er nú 8528.6900. Auglýsingin hafði ekki í för með sér efnisbreytingu en orðalagið varð skýrara. Fyrir 1. janúar sl. hefði réttilega átt að tollflokka myndvörpuna í tnr. 8528.3009. Ekki er hægt að byggja tollflokkun myndvörpunnar á því að tollstjóri hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að ofan að ákvörðun tollstjórans í Reykjavík 22. maí sl., um að tollflokka myndvörpu af gerðinni BENQ, PE8720 Digital Projector, Home Cinema Series, í tollskrárnúmer 8528.6900, er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum