Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/ 2005

Höfnun á undanþágu aðflutningsgjalda vegna kaupa á ísskáp, kamínu og nuddpotti

8.3.2005

Embætti tollstjórans í Reykjavík barst bréf A, dags. 20 febrúar 2005 þar sem þess er farið leit að endurgreidd verði aðflutningsgjöld af þrem hlutum sem fluttir voru til landsins. Embættið lítur svo á að um sé að ræða kæru til úrskurðar á ákvörðunum embættisins um höfnun á undanþágu aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu umræddra sendinga, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum.

Um er að ræða kæliskáp, stálofn/ kaminu, sem flutt var til landsins í sendingu númer E SKO 06 01 5 CA NWP W675 og nuddtæki/ heitan pott, sem flutt var til landsins í sendingu númer BRU 20 01 5 CA NWP W675. Fyrri sendingin kom til landsins þann

6. janúar 2005 og var tollafgreidd 19.01.05. Seinni sendingin kom 20. janúar 2005 og var tollafgreidd 24.01.05. Aðflutningsgjöld voru greidd með fyrirvara, með vísan til

2. tl. 3. gr. reglugerðar 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með áorðnum breytingum, þar sem þetta væri hluti af búslóð.

Í kærubréfi kemur fram að fjölskyldan hafi dvalið í B á Nýfundnalandi í 4 mánuði og að óviðráðanlegar aðstæður hafi orðið til þess að dvölin varð ekki lengri. Meðfylgjandi bréfinu eru ljósrit kvittana:

  1. vegna kaupa á ísskáp dagsett 19. 12. 2004
  2. vegna kaupa á kaminu dagsett 21.12.2004
  3. vegna kaupa á nuddpotti dagsett 03.12.2004 Önnur gögn fylgdu ekki.

Heimild til undanþágu aðflutningsgjalda vegna búslóðaflutnings er í 4. tl.1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum. Skilyrði undanþágu eru að viðkomandi hafi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Reglugerð 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með áorðnum breytingum er sett með stoð í framangreindu lagaákvæði og í 1. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram það grundvallarskilyrði að búseta hafi verið í eitt ár. Undanþáguákvæði um niðurfellingu aðflutningsgjalda koma því fyrst til skoðunar þegar búsetuskilyrðið er uppfyllt.

Af framlögðum gögnum verður ekki séð að skilyrði um búsetu erlendis í eitt ár áður en innflutningur átti sér stað, sé uppfyllt og þar af leiðandi eiga ekki við ákvæði 4. tl.

1. mgr. 5. gr. tollalaga með áorðnum breytingum og 2. tl. 1. mgr. 3. áður nefndrar reglugerðar. Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. tl. 1. mgr. 3. gr. rg. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með áorðnum breytingum og 4. tl 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum, synjar tollstjórinn í Reykjavík um niðurfellingu aðflutningsgjalda af framangreindum sendingum

Úrskurður :

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum að hafna skuli kröfu innflytjandans A um undanþágu aðflutningsgjalda við innflutning á sendingum númer E SKO 06 01 5 CA NWP W675 og BRU 20 01 5 CA NWP W675, á þeirri forsendu að skilyrði um rétt til undanþágu aðflutningsgjalda hafi ekki verið fullnægt.

Úrskurð þennan er heimilt að kæra til Fjármálaráðuneytisins, Arnarhváli, 150 Reykjavík. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum og hafa borist ráðuneytinu eigi síðar en 60 dögum frá póstlagningardegi þessa bréfs, sbr. 1. mgr.

102. gr. tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum og 2. mgr. 15. gr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með áorðnum breytingum

Reykjavík 8. mars 2005

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum