Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2007

Tollverð bifreiðar af gerðinni Dodge Caravan, árgerð 2000.

16.2.2007

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, B, dags. 28. desember 2006, er varðar kæru á ákvörðunum embættisins vegna innflutnings á bifreið með fastanúmer MM. Bifreiðin er af gerðinni Dodge Caravan, árg. 2000. Bifreiðin var flutt til landsins með sendingu S HEG 11 07 6 US ORF W005.

II

Málavextir eru þeir að þann 11. júlí 2006 flutti innflytjandi til landsins ofangreinda bifreið frá Bandaríkjunum. Innflytjandi fékk tímabundið akstursleyfi til 11. ágúst 2006 og var undirrituð yfirlýsing þess efnis þann 14. júlí 2006.

Þann 5. september 2006 var aðflutningsskýrsla ásamt fylgiskjölum móttekin hjá embættinu til skráningar og var skýrslan tilbúin til afgreiðslu þann 7. september 2006. Tollverð bifreiðar var metið að fjárhæð kr. 459.554 og eru álögð gjöld að fjárhæð kr. 371.923. Aðflutningsgjöld eru ógreidd.

Með tölvuskeyti, dags. 10. desember 2006, óskaði innflytjandi eftir því að aðflutningsgjöld vegna innflutnings á ofangreindri bifreið yrðu felld niður þar sem hún hafði eyðilagst sökum árekstrar. Embættið svaraði erindi innflytjanda með tölvuskeyti, dags. 18. desember 2006, og hafnaði framkominni beiðni um niðurfellingu gjalda. Innflytjanda voru jafnframt veittar upplýsingar um það hvernig hægt væri að kæra áðurnefnda ákvörðun embættisins um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda.

Með bréfi, dags. 28. desember 2006, kærði innflytjandi ákvarðanir embættisins þ.e. annars vegar ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda og hins vegar ákvörðun um tollverð bifreiðarinnar.

Þann 12. janúar 2007 sendi embættið innflytjanda bréf þar sem óskað var frekari upplýsinga vegna meðferðar málsins. Með bréfi innflytjanda, dags. 25. janúar 2007, bárust embættinu umbeðnar upplýsingar.

Í kærubréfi innflytjanda, dags. 28. desember 2006, kemur fram að bifreiðin hafi skemmst töluvert sökum árekstrar sem átti sér stað í nóvember 2006. Einnig kemur fram að bifreiðin sé ónýt af þeim sökum. Í kærubréfi krefst innflytjandi þess aðallega að aðflutningsgjöld verði felld niður, vegna nánar tilgreindra ástæðna. Verði því ekki komið við krefst innflytjandi þess að aðflutningsgjöldin verði lækkuð m.t.t. rangs útreiknings á tollverði bifreiðar.

IV

Í kærubréfi, dags. 28. desember 2006, krefst innflytjandi þess að aðflutningsgjöld verði niðurfelld þar sem bifreiðin sé hluti af tollfrjálsri búslóð. Í þessu sambandi telur embættið rétt að taka fram að í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er sérstaklega áréttað að tollfrelsi búslóðar taki ekki til ökutækja eða annarra vélknúinna farartækja. Af þessu leiðir að kærandi getur ekki fengið niðurfellingu aðflutningsgjalda af áðurnefndri bifreið á grundvelli þess að bifreiðin sé hluti af búslóð.

Í kærubréfi, dags. 28. desember 2006, krefst innflytjandi þess að aðflutningsgjöld verði niðurfelld þar sem um var að ræða tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiðar. Í þessu sambandi telur embættið rétt að taka fram að skv. 4. tl. 1. mgr. 7. gr. er heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af bifreiðum sem skráðar eru erlendis og fluttar til landsins af mönnum sem hafa haft búsetu erlendis. Undanþága þessi gildir í einn mánuð frá komu ökutækis til landsins. Í þessu sambandi telur embættið rétt að geta þess að ákvæðinu hefur verið breytt með breytingalögum nr. 146/2006, en þær breytingar skipta ekki máli við úrlausn máls þessa. Í reglugerð nr. 160/1990 um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla er ofangreint ákvæði útfært nánar, s.s. skilyrði fyrir tollfrelsi o.fl.

Tollstjóri hefur heimild til þess að framlengja tímabundinn tollfrjálsan innflutning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í kærubréfi, dags. 28. desember 2006, kemur fram að kærandi, ásamt fjölskyldu sinni, hafi verið að flytjast búferlum hingað til lands með búslóð sína, eftir sjö ára námsdvöl í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum úr tollakerfi embættisins flutti kærandi inn búslóð sína þann 11. júlí 2006 og samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var lögheimili kæranda flutt til Íslands þann 23. ágúst 2006.

Í máli þessu fékk kærandi tímabundið akstursleyfi í einn mánuð eða til 11. ágúst 2006. Í 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 160/1990 koma fram skilyrði fyrir því að tollstjóra sé heimilt að framlengja tímabundið akstursleyfi. Skilyrðin lúta m.a. að því að viðkomandi aðili má ekki hafa tekið sér fasta búsetu hér á landi né flutt búslóð sína hingað til lands. Að mati embættisins var ekki hægt að framlengja hinum tímabundna tollfrjálsa innflutningi þar sem skilyrðum áðurnefndra ákvæða voru ekki fyrir hendi. Af þeim sökum skal innflytjandi, að loknum leyfistíma, flytja bifreiðina úr landi eða greiða af henni lögboðin aðflutningsgjöld, sbr. 3. tl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 160/1990.

Í kærubréfi innflytjanda, dags. 28. desember 2006, kemur fram að bifreiðin hafi lent í harkalegum árekstri og að hún hafi reynst ónýt af þeim sökum. Innflytjandi krefst þess að aðflutningsgjöld verði felld niður þar sem um ónýta bifreið sé að ræða. Verði aðflutningsgjöld ekki niðurfelld sökum þess að bifreiðin teljist ónýt, krefst innflytjandi þess að „hrak“ bifreiðarinnar verði tekið upp í ógreidd aðflutningsgjöld.

Í þessu sambandi telur embættið rétt að taka fram að við innflutning á vöru skal virðisaukaskattur innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um ákvörðun tollverðs gilda ákvæði tollalaga, sbr. 2. mgr. 34. gr. sömu laga. Þá skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Tollstjóri sér um innheimtu og álagningu vörugjalda, sbr. 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

Í 3. gr. tollalaga er að finna meginreglu sem kveður á um að hver sá sem flytur inn vöru til landsins sé tollskyldur og beri af þeim sökum að greiða aðflutningsgjöld af hinni innfluttu vöru. Innflytjandi ber ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, sbr. 1. mgr. 127. gr. tollalaga og eru aðflutningsgjöld tryggð með lögveði í hinni innfluttu vöru, sbr. 1. mgr. 128. gr. tollalaga.

Í máli þessu liggur það fyrir að bifreiðin varð fyrir tjóni eftir að tollyfirvöld höfðu heimilað afhendingu bifreiðarinnar til innflytjanda. Hvorki í tollalögum né öðrum lögum er að finna undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda vegna atvika sem koma til eftir að vara er komin í vörslur innflytjanda. Er því óhjákvæmilegt að hafna ofangreindri röksemd kæranda.

Áréttað skal að tollstjóra er óskylt að selja ótollafgreidda vöru á uppboði til lúkningar aðflutningsgjöldum, ef svo hagar til að salan megi teljast þýðingarlaus þar eð ekkert eða óverulegt verð fáist fyrir vöruna við slíka sölu, sbr. 3. mgr. 128. gr. tollalaga. Það getur t.d. verið ef vara hefur orðið fyrir tjóni eftir innflutning, eins og hagar til í þessu máli. Í því sambandi telur embættið rétt að árétta að tollstjóri getur, án undangengins dóms eða sáttar, látið gera fjárnám hjá innflytjanda í öðrum hlutum til tryggingar greiðslu aðflutningsgjalda, dráttarvaxta og kostnaðar, ef eðli hinnar innfluttu vöru, sem er andlag veðsetningar, er með þeim hætti að hún verði ekki seld nauðungarsölu, sbr. 4. mgr. 128. gr. tollalaga.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat embættisins að greiða skuli lögboðin aðflutningsgjöld af umræddri bifreið.

V

Í kærubréfi, dags. 28. desember 2006, kemur fram að innflytjandi telji að rangar forsendur liggi til grundvallar við útreikning embættisins á tollverði bifreiðarinnar.

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, hér eftir nefnd tollverðsreglugerð, er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar er að finna ákvæði sem hafa að geyma fyrningarreglur sem ákvarða tollverð bifreiða við búferlaflutning til landsins. Regla 1. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar kveður á um fyrningarreglu þegar vörureikningur liggur til grundvallar við ákvörðun á tollverði bifreiðar, en ákvæðið hljóðar svo:

Flytji maður búferlum til landsins eftir að hafa verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár og hafi með sér ökutæki sem hefur verið í hans eigu það ár eða lengur, skal heimilt að fyrna verð ökutækisins samkvæmt framlögðum vörureikningi fyrir hvern byrjaðan mánuð frá dagsetningu vörureiknings og til komumánaðar flutningsfars. Skal fyrningarhlutfall á mánuði ráðast af aldri ökutækisins, í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 21. gr. Heimild þessi tekur þó ekki til ökutækja að heildarþyngd þrjú tonn eða meira.

Regla 2. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar kveður á um fyrningarreglu sem nota á í þeim tilvikum þegar innflytjandi leggur ekki fram vörureikning við ákvörðun tollverðs, en ákvæðið hljóðar svo:

Leggi aðili skv. 1. mgr. ekki fram vörureikning við tollafgreiðslu ökutækis fer ákvörðun tollverðs eftir IV. kafla, sbr. 20. og 21. gr. reglugerðarinnar. Sé tollverð notaðs ökutækis ákvarðað skv. 21. gr. reglugerðarinnar, skal heimilt að fyrna líklegt fob-verð um 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði og 1% fyrir hvern mánuð eftir það, þar til náð hefur verið 90% fyrningu, sem er hámarks fyrning.

Viðtekið er hjá tollstjóranum að reikna út tollverð bifreiða, sem fluttar eru inn við búferlaflutninga, samkvæmt báðum fyrningarreglunum í 23. gr. tollverðs- reglugerðarinnar. Sá útreikningur sem leiðir til lægra tollverðs, og þar með lægri aðflutningsgjalda, er svo notaður sem grundvöllur að álagningu gjalda.

Við ákvörðun tollverðs í máli þessu er fyrningarregla 2. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar notuð, þ.e. við ákvörðun tollverðs var ekki notast við framlagðan vörureikning. Þess í stað var tollverð ákvarðað með hliðsjón af viðmiðunarverði nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá, sbr. 2. mgr. 23. gr., sbr. 20. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Bifreiðaskrá er birt á heimasíðu ríkisskattstjóra www.rsk.is. Við meðferð málsins hjá embættinu kom hins vegar í ljós að bifreið af gerðinni Dodge Caravan, líkt og sú sem um ræðir í þessu máli, hefur ekki verið seld hér á landi síðustu ár. Af þessu leiðir að við úrlausn málsins er ekki hægt að styðjast við upplýsingar úr bifreiðaskrá ríkisskattstjóra. Þess í stað studdist embættið við upplýsingar sem fram koma í The Automobile Red Book til viðmiðunar, sbr. 22. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum.

Viðmiðunarverð (fob-verð) á Dodge Caravan, árg. 2000 samkvæmt The Automobile Red Book 15. ágúst 2006 – 30. september 2006, er USD 5.375 (u.þ.b. ISK 412.000 m.v. tollafgreiðslugengi í júlí 2006). Þá var jafnframt leitað eftir upplýsingum um verð á sams konar bifreiðum frá bílaumboðinu Sparibíll ehf, sbr. bréf dags. 25. ágúst 2006. Í bréfi Sparibíls ehf. kemur fram að fyrirtækið geti eingöngu gefið upp verð sambærilegrar bifreiðar og þá sem um ræðir í þessu máli, þar sem bifreið sömu tegundar var ekki til sölu hjá umboðinu. Í bréfinu kemur fram að verð á bifreið af gerðinni Chrysler Voyager LX kosti að heildarfjárhæð kr. 2.750.000, ný og óekin. Embættið leitaði jafnframt eftir upplýsingum á Netinu um verð á bifreiðum sem eru af sömu tegund og undirtegund. Í ljós kom að a.m.k. tvær sams konar bifreiðar fundust. Verðið á bifreiðunum var annars vegar USD 3.650,00 (fob-verð u.þ.b. ISK. 283.800) og hins vegar USD 4.975 (fob-verð u.þ.b. ISK 386.000). Samkvæmt útreikningum embættisins, sem gerðir voru á grundvelli 2. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar, er fob-verð bifreiðarinnar með fastanúmer MM-320 að fjárhæð kr. 280.187.

Embætti tollstjórans telur rétt að taka það fram að ef fyrningarregla 1. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar hefði verið notuð til þess að ákvarða tollverð bifreiðar þá hefði það leitt til hærri aðflutningsgjalda. Í máli þessu liggja fyrir upplýsingar um kaupverð bifreiðarinnar, þ.á.m. e-s konar kaupsamningur (e. Retail Buyer´s order), dags. 30. nóvember 2002, þar sem fram kemur að kaupverðið sé að fjárhæð USD 13.650,21. Ef vörureikningur er lagður til grundvallar við útreikning á tollverði bifreiðarinnar þá hefði tollverð bifreiðar verið að fjárhæð kr. 743.391 og álögð gjöld að fjárhæð kr. 602.413.

Í bréfi kæranda, dags. 25. janúar 2007, kemur fram að kaupverð bifreiðar, sem mál þetta fjallar um, hefði verið greitt m.a. með annarri bifreið, þ.e. sú bifreið var tekin upp í kaupverðið. Í þessu sambandi telur embættið rétt að taka fram að það að eldri bifreið hafi verið notuð sem greiðsla fyrir nýrri bifreið breytir engu um kaupverð þeirrar bifreiðar sem keypt var. Embættið telur því að kaupverð það sem tilgreint er í kaupsamningi (e. Retail Buyer´s order), dags. 30. nóvember 2002, sé sú fjárhæð sem nota skal við mat á tollverði áðurnefndrar bifreiðar, þ.e.a.s. USD 13.650,21.

Í bréfi kæranda, dags. 25. janúar 2007, koma fram upplýsingar um innflutning á bifreið sem kærandi telur vera sambærilega við þá bifreið sem um ræðir í þessu máli. Embættið kannaði innflutning þann sem kærandi vísar til, þ.e. bifreið með fastanúmer BB, en hún kom til landsins í janúar 2006. Líkt og kærandi bendir á í bréfi sínu, dags.

25. janúar 2007, er bifreiðin BB af gerðinni Dodge Grand Caravan Sport, árg. 1998, sem er mun dýrari gerð af bifreið en sú sem um ræðir í máli þessu. Þá er bifreiðin BB eldri árgerð. Embættið telur að ekki sé um að ræða bifreiðar sem eru hæfar til samanburðar með tilliti til ákvörðun tollverðs í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda er hafnað og ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, um tollverð bifreiðar með fastanúmer MM, er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Reykjavík, 16. febrúar 2007.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum