Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2007

Tollflokkun á myndvörpum af gerðinni Toshiba X2000, X3000 og T95.

18.2.2007

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf A., dags. 25. maí sl., f.h. B, þar sem kærð er ákvörðun embættisins um tollflokkun á myndvörpum. Myndvörpurnar voru fluttar inn 18. apríl sl. með sendingu til B nr. F 703 18 04 7 BE BRU 4452 og eru þær af gerðinni Toshiba X2000, X3000 og T95. Kærandi sendi frekari gögn að beiðni embættisins með bréfi dags. 5. júlí sl. og tölvubréfi 10. júlí sl.

Málavextir eru þeir að 18. apríl sl. móttók embættið aðflutningsskýrslu vegna fyrrgreindrar sendingar. Í þeirri aðflutningsskýrslu voru myndvörpurnar flokkaðar í tnr. 8528.6100: „Skjáir og myndvörpur, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða –flutningsbúnaði: - Myndvörpur: -- Sem gerðar eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471“. Embættið gerði athugasemd við skýrsluna og tollflokkaði myndvörpurnar í tnr. 8528.6900: „ ... - Myndvörpur -- Aðrar“.

Í kærubréfi er þess krafist að myndvörpurnar verði flokkaðar í tnr. 8528.6100 þar sem þær séu eingöngu framleiddar til að varpa mynd á tölvutæku formi. Kærandi vísar í þessu tilliti til almennra túlkunar- og skýringaregla tollskrár og tekur fram að þrátt fyrir að hægt sé með einhverjum tilfæringum að nota myndvörpurnar til annars séu þær ekki ætlaðar til slíkra nota og sjáist það best á því að líftími perunnar í myndvörpunni sé aðeins 1000 klst. Að lokum vísar kærandi til rökstuðnings í kæru hans í sambærilegu máli frá 16. september 1997 og úrskurðar ríkistollanefndar nr. 13/1997.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem tók gildi 1. janúar 1988. Með lögum nr. 96/1987, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, var tekin upp tollskrá sem byggir á tollflokkunarreglum samræmdu skrárinnar. Alþjóðatollastofnunin gefur út skýringarbækur og álit um túlkun samræmdu skrárinnar. Tollskrárnúmer í vörulið 8528 eru byggð á skiptingu samkvæmt samræmdu skránni og því ber að líta til skýringargagna Alþjóðatollastofnunarinnar við túlkun þeirra. Í skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar við vörulið 8528 kemur fram að skjáir sem hafi tengimöguleika við tölvu flokkist í tnr. 8528.4100 og 8528.5100 en utan þeirra falli skjáir sem geti einnig tekið við almennum video-merkjum, s.s. NTSC, SECAM, PAL og D-MAC. Þessar skýringar gilda einnig um myndvörpur í tnr. 8528.6100, eftir því sem við getur átt, þar sem orðalagið er hið sama, þ.e. tækin eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471. Það nægir þannig ekki eitt og sér að myndvörpurnar séu tengjanlegar við tölvu til þess að þær flokkist í tnr. 8528.6100. Ef þær eru einnig með búnaði til þess að taka við almennum video-merkjum flokkast þær í tnr. 8528.6900.

Samkvæmt upplýsingum framleiðanda um myndvörpurnar, sem kærandi lagði fram, má tengja þær við tölvu með VGA og XGA tengi, sem eru sérhæfð tölvutengi. Hins vegar má einnig tengja þær á margvíslegan hátt við annan búnað s.s. við DVD- spilara, video-myndbandsupptökutæki o.fl. með s-video-tengi og composit-tengi.

Tækin eru því búin til að taka við almennum video-merkjum, s.s. PAL, NTSC o.fl. og eru þeir kostir umfram það sem Alþjóðatollastofnunin gerir ráð fyrir í tækjum sem flokkast eiga í tnr. 8528.6100. Embættið vill einnig taka fram að í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/1997 fólst ekki efnisleg niðurstaða um tollflokkun vöru auk þess sem rökstuðningur kæranda í því máli varðar aðrar tegundir af myndvörpum en þær sem hér er fjallað um. Embættið lítur því svo á að rökstuðningur í því máli eigi ekki við hér.

Í kærubréfi er tekið fram að kærandi hafi um langt árabil flutt inn myndvörpur af þeirri gerð sem hér um ræðir. Óheimilt sé að breyta tollflokkun þannig að leiði til gjaldahækkunar nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Engrar slíkrar lagaheimildar njóti hér við og því sé aukin gjaldtaka á grunni breyttrar tollflokkunar beinlínis ólögmæt. Auk þess hafi upptaka nýrrar tollskrár um sl. áramót ekki átt að leiða til gjaldahækkunar eða breyttrar flokkunar. Kærandi telur að þetta leiða til þess að flokka eigi myndvörpurnar í tnr. 8528.6100.

Með auglýsingu nr. 142/2006, sem tók gildi 1. janúar sl., var númerum og orðalagi tollskrárnúmera breytt til samræmis við samræmdu skrána sbr. 1. mgr. 189. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í stað tnr. 8528.3001 kom 8528.6100 og tnr. 8528.3009 er nú 8528.6900. Auglýsingin hafði ekki í för með sér gjaldahækkun eða breytta tollflokkun en orðalag tollskrárnúmeranna varð skýrara. Fyrir 1. janúar sl. hefði réttilega átt að tollflokka myndvörpurnar í tnr. 8528.3009.

Í ljósi ofangreinds verður ekki fallist á kröfu kæranda um tollflokkun myndvarpanna í tnr. 8528.6100 heldur er það niðurstaða embættisins að flokka eigi myndvörpurnar í tnr. 8528.6900.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 að ákvörðun tollstjórans um að tollflokka myndvörpur af gerðinni Toshiba X2000, X3000 og T95 í tollskrárnúmer 8528.6900 er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum