Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2005

Höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bilaðs varahlutar í þyrlu

26.4.2005

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi yðar, dags. 22. mars sl. þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 29. desember sl. varðandi höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bilaðs varahlutar í þyrlu.

II.

Málavextir eru á þann veg að þann 22. desember 2004, sótti kærandi um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna Hydralic Servo frá E sem kom til landsins með sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357, innflytjandi A. Í bréfi kæranda er tilgreint að árið 2003 hafi deild innan A keypt Hydralic Servo hjá E í Frakklandi og var umræddur hlutur fluttur til landsins með sendingu F 751 25 08 3 BE BRU D030 og aðflutningsgjöld (virðisaukaskattur) greidd af sendingunni. Þá kom fram í erindi A að umræddur hlutur hafi síðan bilað og þar sem hann var í ábyrgð fékk A Hydralic Servo sendan með sendingu númer F 543 24 09 4 FR CDG 8357. Bilaði varahluturinn var endursendur á Airwaybill 8246819162. Í ljósi þessa fór A fram á að virðisaukaskattur yrði endurgreiddur. Taldi tollstjórinn í Reykjavík að með erindi þessu væri farið fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts af sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357 sem afgreidd var hjá tollstjóranum í Reykjavík. Það var mat embættisins að umrædd beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatt næði ekki til sendingar F 751 25 08 3 BE BRU D030 þar sem sú sending var afgreidd hjá sýslumanninum á B og hefði því þurft að beina umræddri beiðni til þess embættis ef ætlunin hefði verið að fá virðisaukaskatt endurgreiddan af þeirri sendingu. Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 29. desember 2004, hafnaði embættið beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bilaðs varahlutar, Hydralic Servo, frá E, með vísan til 7. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Með bréfi embættisins, dags. 27. janúar 2005, var A tilkynnt um kæruleið og kærufrest þar sem láðst hafði að geta þess í ákvörðun embættisins, dags. 29. desember 2004. Með bréfi kæranda, dags. 22. mars sl., var ákvörðun embættisins um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna gallaðs varahlutar, Hydralic Servo, kærð til úrskurðar tollstjórans í Reykjavík.

III.

Í 7. gr. tollalaga er kveðið á um vörur sem koma úr viðgerð og annarri aðvinnslu. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir séu vörur sendar til útlanda til viðgerðar, þvotta, bleikjunar, litunar, málmhúðunar eða annarrar aðvinnslu, og þær breyta ekki svo eðli sínu við aðvinnsluna að úr verði nýir hlutir, og við útflutning og innflutning þeirra er fullnægt þeim skilyrðum sem um ræðir í niðurlagi þessarar málsgreinar, og skal þá greiða af aðvinnslukostnaði, að viðbættum flutningskostnaði til landsins, þann toll sem sams konar erlend aðflutt vara ber eftir tollskránni. Í 2. mgr. 7. gr. segir síðan að vörur sem á ábyrgðartíma eru sendar utan til viðgerðar skulu við innflutning undanþegnar tolli, enda séu að mati tollstjóra færðar fullnægjandi sönnur á að viðgerðin sé viðkomandi að kostnaðarlausu og ábyrgð innifalin í upphaflegu tollverði vörunnar. Í 3. mgr. 7. gr. kemur síðan fram að breyti vörur, sem sendar eru utan til aðvinnslu, svo eðli sínu við aðvinnsluna að úr verði nýir hlutir skal greiða af þeim toll eftir tollskránni eins og um væri að ræða erlenda, aðflutta vöru.

Samkvæmt gögnum málsins virðist nýi varahluturinn hafa komið til landsins þann 24. september 2004 (með sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357) en bilaði varahluturinn virðist ekki vera sendur úr landi fyrr en þann 25. nóvember 2004 (með Airwaybill 824619162). Ljóst er því að hinn nýi varahlutur var kominn til landsins áður en hinn bilaði varahlutur var sendur úr landi.

Embættið telur rétt áður en lengra er haldið að benda á að upplýsingar á útflutningsskýrslu sendingar A 973 25 11 4 IS KEF D596, sbr. Airwaybill 8246819162, virðast ekki vera í fullu samræmi við þær upplýsingar sem að fram koma á aðflutningsskýrslu sendingar F 751 25 08 3 BE BRU D030, en þess má m.a. geta að ekki er samræmi milli verðmætis á innfluttri vöru og útfluttri vöru. Þá bendir embættið einnig á að á reikningi sem að fylgdi með aðflutningsskýrslu sendingar F 543 24 09 4 FR CDG 8357 kemur hvergi fram að umræddur varahlutur sé sendur vegna ábyrgðar á Hydralic Servo varahlut. Þá hefur engin staðfesting borist frá E um að umræddur varahlutur hafi í raun verið gallaður.

Eins og rakið er hér að framan, kemur fram í 2. mgr. 7. gr. tollalaga að vörur sem á ábyrgðartíma eru sendar utan til viðgerðar skulu við innflutning undanþegnar tolli. Embættið telur að umrætt ákvæði eigi ekki við í máli þessu þar sem hinn bilaði varahlutur var ekki sendur utan fyrr en nýr varahlutur hafði komið til landsins með sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að umræddur hlutur hafi verið í ábyrgð. Verður því að telja að hinn gallaði varahlutur hafi í raun ekki verið sendur erlendis til viðgerðar enda virðist umræddur varahlutur ekki hafa komið til landsins á ný heldur hafi nýr varahlutur komið í hans stað.

Í 3. mgr. 7. gr. tollalaga er kveðið á um það að breyti vörur, sem sendar eru utan til aðvinnslu, svo eðli sínu við aðvinnsluna að úr verði nýir hlutir skal greiða af þeim toll. Ljóst er af 3. mgr. 7. gr. tollalaga að sú regla gildir að ef nýjir hlutir koma í stað þeirra er sendir voru til aðvinnslu þá ber að greiða af þeim toll. Samkvæmt þeim gögnum sem að fyrir liggja í máli þessu virðist hinn bilaði varahlutur ekki hafa verið sendur erlendis fyrr en nýr varahlutur var kominn til landsins. Verður því að telja að nýr hlutur hafi í raun komið í stað þess bilaða. Í 7. gr. tollalaga er gengið út frá því að sama vara komi til baka og send var úr landi í viðgerð.

Eins og áður hefur verið vikið að er í máli þessu um að ræða nýjan hlut sem kom til landsins áður en hinn gallaði hlutur var endursendur til seljanda. Enga heimild er því að finna í 7. gr. tollalaga eða öðrum heimildum til niðurfellingar virðisaukaskatts af sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357. Það er meginregla tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, greiða skuli toll af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, sbr. 4. gr. laganna. Þá er það meginregla virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, með síðari breytingum, að við innflutning á vöru skal virðisaukaskattur innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð. Undanþágur frá framangreindum meginreglum verða að koma skýrt fram í lögum en hvergi í tollalögum, virðisaukaskattslögum eða reglugerðum að finna heimild til þess að fella niður virðisaukaskatt í sambærilegum málum og hér um ræðir. Í ljósi alls framangreinds hafnar tollstjórinn í Reykjavík endurgreiðslu virðisaukaskatts af varahlut í sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357.

IV.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að hafna skuli kröfu A um endurgreiðslu virðisaukaskatts af Hydralic Servo frá E sem að kom til landsins með sendingu F 543 24 09 4 FR CDG 8357.

Úrskurðurinn er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 26. apríl 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum