Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2007

Tollflokkun á skjáum af gerðinni Panasonic Plasma TH-50PH9UK

24.8.2007

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf A dags. 21. maí sl., þar sem kærð er ákvörðun tollstjórans um tollflokkun skjáa af gerðinni Panasonic Plasma TH- 50PH9UK. Skjáirnir fluttir voru inn 9. maí sl. með sendingu nr. F 782 09 05 7 US JFK V733. Kærandi sendi frekari rökstuðning og gögn að beiðni embættisins með tölvubréfi 5. júlí sl.

Málavextir eru þeir að 11. maí sl. móttók embættið aðflutningsskýrslu vegna fyrrgreindrar sendingar þar sem skjáirnir voru tollflokkaðir í tnr. 8528.5100: „Skjáir og myndvörpur, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða –flutningsbúnaði: - Aðrir skjáir: -- Sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471“. Embættið gerði athugasemd við skýrsluna og tollflokkaði skjáina í tnr. 8528.7209: „ ... – Móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnað eða – flutningsbúnaði: -- Önnur fyrir lit: --- Önnur“.

Í bréfi kæranda er þess óskað að skjáirnir séu flokkaðir í tnr. 8528.5100. Kærandi tekur fram að skjáirnir séu hluti af Professional Plasma Display línunni hjá Panasonic sem eingöngu séu seldir sem hluti af gagnaflutningskerfum og aðallega notaðir af lögaðilum til birtingu auglýsinga, til almennra sýninga eða sem hluti af fjarfundabúnaði. Því til stuðnings vísar hann til þess að fyrirhugað sé að nota skjáina m.a. sem auglýsingaskjái sem tengdir verði við tölvu í gegnum VGA/DVI tengi. Kærandi vísar einnig í úrskurð embættisins frá 28. maí 2005 þar sem tollstjóri tollflokkaði Panasonic skjái af gerðinni PWD7UY í tnr. 8528.2001.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem tók gildi 1. janúar 1988. Með lögum nr. 96/1987, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, var tekin upp tollskrá sem byggir á tollflokkunarreglum samræmdu skrárinnar. Alþjóðatollastofnunin gefur út skýringarbækur og álit um túlkun samræmdu skrárinnar. Tollskrárnúmer í vörulið 8528 eru byggð á skiptingu samkvæmt samræmdu skránni og því ber að líta til skýringargagna Alþjóðatollastofnunarinnar við túlkun þeirra.

Í skýringarbók Alþjóðatollastofnunarinnar, bls. XVI-8528-2, kemur fram að skjáir sem hafi tengimöguleika við tölvu flokkist í tnr. 8528.4100 og 8528.5100 en utan þeirra falli skjáir sem geti einnig tekið við almennum video-merkjum, s.s. NTSC, SECAM, PAL og D-MAC, og séu búnir hljóðrás. Þannig nægir það ekki eitt og sér að skjáirnir séu tengjanlegir við tölvu til þess að þeir flokkist í tnr. 8528.5100 heldur verður einnig að líta til annars búnaðar tækjanna.

Samkvæmt notendahandbók framleiðanda, sem embættið hefur aflað af heimasíðunni www.panasonic.com, eru skjáirnir ekki með móttakara og því verður ekki fallist á ákvörðun embættisins um að tollflokka þá í tnr. 8528.7209. Skjáirnir geta hins vegar tekið við almennum videomerkjum, s.s. NTSC, PAL, PAL60. SECAM og Modified NTSC, samkvæmt notendahandbókinni. Þeir eru þar að auki búnir hljóðrás þrátt fyrir að hátalarar fylgi ekki. Búnaður þessara skjáa er því umfram það sem Alþjóðatollastofnunin gerir ráð fyrir í skjáum sem flokkast eiga í tnr. 8528.5100.

Til stuðning þess að tollflokka eigi skjáina í tnr. 8528.5100 vísar kærandi til þess að sambærilegir skjáir, Panasonic PWD7UY, voru í úrskurði embættisins frá 28. maí 2005 flokkaðir í tnr. 8528.2001, en tnr. 8528.5100 kom í stað tnr. 8528.2001 með auglýsingu nr. 142/2006. Ekki er rétt að byggja niðurstöðu tollflokkunar hér á fyrrgreindum úrskurði þrátt fyrir að þau tæki sem um ræðir séu að einhverju leyti sambærileg. Samkvæmt notendahandbók framleiðanda um PWD7UY skjáina, sem embættið hefur aflað af heimasíðunni www.panasonic.com, geta þeir skjáir einnig tekið við almennum videomerkjum og á því ekki að tollflokka þá í tnr. 8528.2001. Embættið fellst samkvæmt ofangreindu ekki á kröfu kæranda um að tollflokka skjáina í tnr. 8528.5100.

Þar sem skjáirnir eru búnir ýmsum kostum umfram það sem gert er ráð fyrir í tnr. 8528.5100 á c-liður 3. töluliðar almennra regla um túlkun tollskrárinnar við. Samkvæmt honum skal telja vörur til þess vöruliðar sem síðastur er þeirra vöruliða sem að jöfnu koma til álita ef eigi er unnt að flokka vöru eftir reglum a- eða b-liðar 3. töluliðar. Í ljósi ofangreinds ber að flokka fyrrgreinda skjái í tnr. 8528.5900. Úrskurðurinn leiðir ekki til breytinga á aðflutningsgjöldum.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 að tollflokka beri Panasonic Plasma TH-50PH9UK í ofangreindri sendingu í tnr. 8528.5900.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118 gr. tollalaga nr. 88/2007 með síðari breytingum.

Reykjavík 24. ágúst 2007 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum