Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2007

Synjun um lækkun vörugjalds af bifreið af gerðinni Toyota Highlander Hybrid

25.8.2007

I

Með bréfi Hreins Pálssonar hrl., dagsettu 22. ágúst sl., var fyrir hönd A, kærð synjun tollstjórans í Reykjavík um lækkun vörugjalds af tvíorkubifreið til leiguaksturs um kr. 240.000.- í samræmi við VII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., m.br. (hér eftir skammstöfuð völ.) samhliða því að vörugjaldið væri lagt á skv. 4. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Kæruheimild er 27. gr. völ. og málsmeðferð fer eftir 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, m. br.

Um er að ræða tvíorkubifreið sem getur að hluta til nýtt rafmagn í stað bensíns. Hún er af gerðinni Toyota Highlander Hybrid. Innflytjandi var B. Bifreiðin var flutt til landsins 10. júlí sl., sbr. sendingarnúmer S ARN 10 07 7 DE CUX A087, og tollafgreidd hjá tollstjóranum 25. sama mánaðar. Hún er með fastanúmerið X og einkanúmerið Y.

Eigandi bifreiðarinnar er nú C og kærandi er umráðamaður. Umsókn kæranda um lækkun eða eftirgjöf vörugjalds vegna leiguaksturs, sbr. 4. tl. 2. mgr. 5. gr. völ., var afgreidd 24. júlí sl. Eftirgefið vörugjald var kr. 718.905.- og eftirgefinn virðisaukaskattur kr. 176.132.-; eftirgefin gjöld voru samtals kr. 896.037.-

Tollstjóri synjaði að lækka vörugjaldið jafnframt skv. fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði völ. á þeim grundvelli að bifreiðin væri ekki gjaldskyld skv. 3. gr. laganna eins og gerð er krafa um skv. bráðabirgðaákvæðinu.

II

Kærandi krefst þess að hann fái að njóta lækkunar vörugjaldsins skv. VII. bráðabirgðaákvæði völ. og fái því endurgreiddar kr. 240.000.-, auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Því er haldið fram að báðar lækkunarheimildirnar séu skyldubundnar. Tilvísun bráðabirgðaákvæðisins til 3. gr. taki til umræddrar bifreiðar, enda taki 3. gr. til allra bifreiða, annarra en þeirra sem séu tilgreindar í 4. gr. og séu að öllu leyti undanskildar vörugjaldinu. Af samhengi 4. tl. 2. mgr. 5. gr. og 3. gr. og samanburði við 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, m.br., megi ráða að ökutæki falli undir bæði tilvitnuð ákvæði völ. Það eina sem skilji leigubifreiðar frá öðrum gjaldskyldum bifreiðum sé lægra vörugjald. Hvorki í lögunum né reglugerðinni komi fram að vörugjaldslækkun leigubifreiða skv. 4. tl. 2. mgr. 5. gr. völ. komi í veg fyrir lækkun vörugjaldsins skv. bráðabirgðaákvæðinu.

III

Samkvæmt 1. mgr. VII. bráðabirgðaákvæðis völ. skal vörugjald af bifreiðum sem eru gjaldskyldar skv. 3. gr. laganna og eru búnar vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu vera 240.000.- kr. lægra en ella væri samkvæmt greininni. Í þessu máli er ágreiningur um hvort ökutæki teljist gjaldskylt samkvæmt 3. gr. völ. þegar vörugjald af ökutækinu hefur verið lækkað skv. 4. tl. 2. mgr. 5. gr.

Í 3. gr. völ. er kveðið á um gjaldflokka fólksbifreiða og annarra vélknúinna ökutækja, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., og hvað ráði flokkun þeirra til gjaldskyldu. Í 3. gr. er ekki vísað sérstaklega til 5. gr. laganna. Í 2. mgr. 5. gr. var við setningu laganna að finna heimild til handa ráðherra að lækka eða fella niður gjald af tilteknum sérhæfðum ökutækjum. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 151/1998 þannig að hlutfallstala vörugjalds var ákvörðuð í lögunum. Í skýringum við 5. gr. í greinargerð með frumvarpinu til völ. kemur fram að ákvæðið feli í sér undanþágu frá hinni almennu reglu um gjaldskyldu vélknúinna ökutækja.

Óumdeilt er að vörugjöld voru lögð á ökutækið skv. 4. tl. 2. mgr. 5. gr. en ekki 3. gr. völ. Þá ber að athuga að það er viðurkennt lögskýringarsjónarmið að undanþágur frá skattskyldu ber að túlka þröngt. Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða embættisins að ökutækið geti ekki talist gjaldskylt skv. 3. gr. og því eigi lækkunarregla VII. bráðabirgðaákvæðisins ekki við. Ákvörðun tollstjóra er því staðfest.

Tollalög gera ekki ráð fyrir að greiddur sé kostnaður kæranda við málarekstur þegar um er að ræða kærumál skv. 117. gr. laganna.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu kærunnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest. Kröfu um kærumálskostnað er hafnað.

Kæruréttur

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík, skv. 118. gr. tollalaga. Kærufrestur er 60 dagar frá póstlagningardegi úrskurðar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum