Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2005

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna gallaðrar vöru í sendingu

28.7.2005

I.

Með bréfi, dags. 14. apríl sl., fór A, fram á endurgreiðslu aðflutningsgjalda á CPI BEACON, HR SMITH S/N, raðnúmer 195, sem kom með sendingu F 205 20 02 5 DK CPH 1403, innflytjandi A. Hluturinn, sem reyndist gallaður, var endursendur til B í Noregi, þar sem hann var í ábyrgð, með sendingu A 973 30 03 5 IS KEF D521.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 760/2000, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda, kemur fram að endurgreiða skuli aðflutningsgjöld af ónotaðri vöru sem reynist haldin galla. Sama á við þótt galli hafi ekki komið í ljós fyrr en við notkun, enda sé hann þess eðlis að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um hann fyrr. Í 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindar reglugerðar segir síðan að skilyrði tollmeðferðar skv. 1. mgr. 3. gr. sé að vara sé send aftur til útlanda eða fargað undir tolleftirliti, að lögð sé fram staðfesting hins erlenda seljanda á því að hann annaðhvort taki vöruna aftur vegna gallans eða að hann af sömu ástæðu óski eftir förgun hennar í stað endursendingar, og að skilyrðum 2. mgr. 2. gr. sé fullnægt eftir því sem við á.

Þann 20. apríl sl. tók embættið ákvörðun um að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts í þessu máli. Ekki var samræmi á milli þeirra upplýsinga sem fram komu í aðflutningsskýrslu sendingar F 205 20 02 5 DK CPH 1403 og útflutningsskýrslu sendingar A 973 30 03 5 IS KEF D521, t.d. á heildarfjárhæð reiknings, þyngd og tilvísana til reikningsnúmera og því var ekki talin komin fram fullnægjandi sönnun á því að um sömu vöru væri að ræða í þessum sendingum. Einnig var litið til þess að A er skattskyldur aðili skv. ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 760/2000 skal ekki endurgreiða virðisaukaskatt sem skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 50/1988 hafa greitt við innflutning þeirrar vöru sem beiðni lýtur að.

Með bréfi dags. 20. apríl sl. var fyrrnefnd ákvörðun kærð. Í bréfinu komu fram útskýringar á því misræmi sem var á aðflutningsskýrslu og útflutningsskýrslu auk þess sem útskýrt var að virðisaukaskattsnúmer kæranda væri eingöngu notað vegna starfsemi tiltekinnar deildar innan A. Embættið óskaði frekari gagna í bréfi, dags. 28. júní sl., sem kærandi veitti.

II.

Í ljósi eðli máls þessa og nýrra gagna og upplýsinga sem borist hafa í þessu máli hefur tollstjórinn í Reykjavík komist að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi gögn séu komin fram til þess að sannað geti talist að um sama hlut hafi verið að ræða í sendingu F 205 20 02 5 DK CPH 1403 og sendingu A 973 30 03 5 IS KEF D521. Endurgreiða skal kæranda aðflutningsgjöld, að upphæð 191.349 kr., af CPI BEACON, HR SMITH S/N, raðnúmer 195, sem kom með sendingu F 205 20 02 5 DK CPH 1403 og var

endursendur með sendingu A 973 30 03 5 IS KEF D521.

III.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að taka skuli til greina kröfu A um endurgreiðslu aðflutningsgjalda á CPI Beacon Hr. Smith S/N sem kom til landsins með sendingu A 973 30 03 5 IS KEF D521, að fjárhæð 191.349 kr.

Úrskurður þessi er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 28. júlí 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum