Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2007

Synjun um niðurfellingu vörugjalds af bifreiðunum sem ganga fyrir etanóli E85

12.12.2007

I. Hin kærða ákvörðun

Með bréfi dagsettu 29. september sl., kærði A, synjun tollstjórans í Reykjavík um niðurfellingu vörugjalds af tveimur bifreiðum sem fyrirtækið flutti inn. Bifreiðarnar eru af gerðinni Volvo C30, fastnúmer X, sem flutt var inn í sendingarnúmeri E DET 07 08 7 DK AAR W313, og Ford Focus C- Max, Y, sem flutt var inn í sendingarnúmeri E DET 23 07 7 NL RTM R604. Bifreiðarnar ganga báðar fyrir etanóli E85.

Tollstjóri synjaði að fella niður vörugjald af bifreiðunum í samræmi við IX. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (hér eftir skammstöfuð völ.) þar sem að mati tollstjóra lágu ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um hvort bifreiðarnar uppfylltu skilyrði ákvæðisins. Bifreiðarnar voru tollafgreiddar 28. september sl. og greitt af þeim vörugjald í samræmi við 3. gr. völ. Þann 29. september var svo ákvörðun tollstjóra kærð.

Kæruheimild er 27. gr. völ. og málsmeðferð fer eftir 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, m. br.

II. Kröfur og meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að bifreiðarnar eigi að tollafgreiðast án vörugjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Í kærubréfi er ekki vísað til tiltekinna ákvæða völ. en í samtali við starfsmann tollstjóra kom fram að kærandi álítur að um sé að ræða ökutæki sem hefur í för með sér hverfandi mengun og er knúið óhefðbundnum orkugjafa, sbr. IX. bráðabirgðaákvæði völ. Þá hefur kærandi bent á að samkvæmt X. bráðabirgðaákvæði völ. séu bifreiðar sem nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu undanþegnar vörugjaldi og að hér sé um að ræða sambærilegar bifreiðar.

III. Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt IX. bráðabirgðaákvæðis völ. skulu ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin gjaldskyldu samkvæmt völ. Þann 12. september óskaði tollstjórinn eftir umsögn Umhverfisstofnunar um það hvort fyrrgreind ökutæki hefðu í för með sér hverfandi mengun og væru knúin óhefðbundnum orkugjafa í skilningi IX. bráðabirgðaákvæðisins. Í umsögn Umhverfisstofnunar sem barst tollstjóra 1. október sl. kemur fram að þegar metið sé hvað teljist hverfandi mengun í skilningi völ. sé hægt að líta á það frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar sé um að ræða lofttegundir sem stuðla að auknum gróðurhúsaáhrifum og hins vegar mengunarefni sem valda staðbundinni loftmengun. Umhverfisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að bifreiðar sem gangi fyrir E85 losi verulega minna af gróðurhúsalofttegundum en þær bifreiðar sem eru búnar vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu falla og undir VII. bráðabirgðaákvæði völ. Losun efna sem valda staðbundinni loftmengun geti hins vegar ekki talist hverfandi og sambærileg við mengun frá bifreiðum sem eingöngu gangi fyrir rafmagni eða vetni. Í ljósi þessa sé ekki hægt að fullyrða að bifreiðarnar hafi í för með sér hverfandi mengun í skilningi völ.

Í tölvubréfi frá kæranda frá 26. nóvember sl. komu fram athugasemdir við umsögn Umhverfisstofnunar. Kærandi telur umsögn Umhverfisstofnunar ekki nægjanlega nákvæma og niðurstöðu hennar ekki studda nægjanlegum rökum. Kærandi bendir á að ekki sé borin saman mengun etanólbifreiðanna við bifreiðar nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu og falla undir X. bráðabirgðaákvæði völ. Þá gagnrýnir kærandi að Umhverfisstofnun virðist í umsögn sinni ekki kanna mengunargildi rafmagns- eða vetnisbifreiða heldur gefa sér að þessar bifreiðar beri með sér hverfandi mengun á meðan stuðst sé við ákveðin mæligilda um etanólbifreiðar.

Embættið telur ekki ástæðu til þess að draga í efa þá niðurstöðu Umhverfisstofnunar að staðbundin loftmengun etanólbifreiða geti ekki talist hverfandi og sambærileg við mengun frá bifreiðum sem eingöngu gangi fyrir rafmagni eða vetni þrátt fyrir að ekki komi fram mæligildi fyrir vetnis- eða rafmagnsbifreiðar í umsögninni. Með vísan til umsagnar Umhverfisstofnunar og til þess að skýra ber undanþágur frá skattskyldu þröngt er það niðurstaða embættisins að ekki sé heimilt að fella niður vörugjald af fyrrgreindum bifreiðum með stoð í IX. bráðabirgðaákvæði völ. Þá veita önnur ákvæði vörugjaldslaga ekki heimild til þess að lækka eða fella niður vörugjald af bifreiðunum. Í 3. gr. völ. er kveðið á um gjaldflokka fólksbifreiða og annarra vélknúinna ökutækja, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr. Í ákvæðinu er tekið fram að sprengirými aflvélar ráði flokkun þeirra til gjaldskyldu. Ákvæðið tekur þannig ekki einungis til ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísil, heldur einnig þeirra sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum eins og þær bifreiðir sem hér um ræðir. Það eru því ekki skilyrði til þess að beita með lögjöfnun um þetta tilvik VII. bráðabirgðaákvæði völ. sem tekur til bifreiða sem eru búnar vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu eða X. bráðabirgðaákvæði völ. sem tekur til bifreiða sem búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu.

Ákvörðun tollstjóra er staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu kærunnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi úrskurðar skv. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Reykjavík 12. desember 2007.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum