Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2016

Tollflokkun tengivagns

6.10.2016

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tengivagns af gerðinni Stagline SL 100 í tollskrárnúmer 8716.4000. Var krafa A sú að tengivagninn yrði tollflokkaður í tollskrárnúmer 8716.3991.

Niðurstaða: Í tollskrárnúmer 8716.4000 fara tengivagnar sem ekki eru sérstaklega ætlaðir til vöruflutninga. Tengivagnar af gerðinni Stagline SL 100 hafa það meginhlutverk að vera svið sem sé færanlegt. Litið var til skýringabóka Alþjóðatollastofnunarinnar við tollflokkun tengivagnsins. Í skýringarbókum voru nefndir sem dæmi um vagna sem ekki væru ætlaðir til vöruflutninga, vagnar sem notaðir væru á skemmtisvæðum, t.d. vagnar sem breytast í verslun eða leiksvæði. Þrátt fyrir að vagn af gerðinni Stagline SL 100 hefði umtalsverða burðargetu og geti borið töluvert magn af varningi, var litið til hlutverks tengivagnsins. Var ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tengivagns af gerðinni Stagline SL 100 í tollskrárnúmer 8716.4000 staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 8. september sl., hefur B f.h. A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 6. júní 2016, um tollflokkun tengivagns af gerðinni Stagline SL 100 í tollskrárnúmer 8716.4000.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tengivagnsins verði endurskoðuð og vagninn tollflokkaður sem tengivagn í tollskrárnúmer 8716.3991.

II. Málsmeðferð

Þann 27. mars 2016 flutti kærandi inn til landsins tengivagn af gerðinni Stagline SL 100 með sendingarnúmerinu E. Samkvæmt aðflutningsskýrslu kæranda innihélt sendingin tengivagn sem tollflokkaður var í tollskrárnúmer 8716.4000. Sendingin var afgreidd í samræmi við aðflutningsskýrslu kæranda og tilskilin gjöld lögð á hana. Þann 1. júní 2016 móttók Tollstjóri leiðréttingarskýrslu kæranda fyrir áðurnefnda sendingu, sbr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005. Leiðrétting fólst í því að tengivagninn var færður úr tollskrárnúmeri 8716.4000 í tollskrárnúmer 8716.3991. Með ákvörðun Tollstjóra dags. 6. júní 2016, var tollafgreiðslu leiðréttingarskýrslu kæranda hafnað, með þeirri athugasemd að fyrri tollafgreiðsla skyldi standa, þ.e. að tengivagninn skyldi tollflokkast í tollskrárnúmer 8716.4000.

Ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tengivagnsins í tollskrárnúmer 8716.4000 var kærð með bréfi til Tollstjóra dags. 8. september 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að vagninn, sem sé svið og flutningavagn í einu tæki, eigi að vera tollflokkaður í tollskrárnúmer 8716.3991. Í fylgigögnum kærunnar fylgi með myndir sem sýni vagninn hlaðinn varningi. Vagninn hafi burðargetu upp á 2800 kg. og heildarþyngd vagnsins sé 6804 kg., fullhlaðinn. Það sé mat kæranda að vagninn uppfylli öll skilyrði til að falla í tollskrárnúmer 8716.3991.

Kærandi bendir þessu til stuðnings á að vagninn sé eingöngu notaður í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og henti ekki í neitt annað.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna tollflokkun tengivagnsins undir tollskrárnúmer 8716.3991.

IV. Niðurstöður

Í málinu er deilt um tollflokkun tengivagns af gerðinni Stagline SL 100. Um er að ræða tengivagn sem hægt er að breyta í svið. Vagninn hefur það hlutverk að vera svið sem sé færanlegt. Einnig hefur vagninn töluverða burðargetu. Kærandi fer fram á að vagninn verði tollflokkaður sem tengivagn til vöruflutninga í tollskrárnúmer 8716.3991. Embætti Tollstjóra telur að flokka eigi vagninn sem aðra tengivagna í tollskrárnúmer 8716.4000, en í það tollskrárnúmer fara nýir tengivagnar sem ekki eru sérstaklega ætlaðir til vöruflutninga.

Ef litið er í skýringabækur Alþjóðatollastofnunarinnar má sjá að með tengivögnum ætluðum til vöruflutninga er átt við vagna sem sérstaklega eru hannaðir til vöruflutninga, en í flokk annarra vagna flokkast tengivagnar sem þjóna helst öðru hlutverki en til vöruflutninga. Í skýringarbókum eru nefndir sem dæmi um slíkt, vagnar sem notaðir eru á skemmtisvæðum (enska. fairground caravans). Sem dæmi um slíka vagna væri hægt að nefna vagna sem breytast í verslun eða leiksvæði. Embætti Tollstjóra telur að vagn af tegundinni Stagline SL 100, sem breytist í svið falli undir þennan flokk. Vagninn hefur fyrst og fremst það hlutverk að breytast í svið og þó hann geti borið töluvert af varningi þá er vagninn ekki ætlaður aðallega eða eingöngu til vöruflutninga eins og þeir vagnar sem flokkast í tollskrárnúmer 8716.3991. Embættið staðfestir þar með fyrri ákvörðun sína um að tollflokka vöruna í tollskrárnúmer 8716.4000.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tengivagns af tegundinni Stagline SL 100 í tollskrárnúmer 8716.4000, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum