Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr.10/2005

Aðflutningsgjöld af bifreiðunum af gerðinni Volvo XC90 (CZ59) árgerð 2005

26.9.2005

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf frá forsvarsmanni A, dags. 17. ágúst sl., þar sem beðið er um endurskoðun tollverðs vegna sendinga. 

Embættið lítur svo á að umrætt bréf feli í sér kæru, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, á ákvörðun embættisins, dags. 8. ágúst sl., um að hafna við tollafgreiðslu, vörureikningum sem lagðir voru fram vegna tollafgreiðslu á bifreiðunum, X, Y, Z, Þ og Æ af gerðinni Volvo XC90 (CZ59) árgerð 2005 sem fluttar voru til landsins með fyrrgreindum sendingum. Innflytjandi sendinganna er A.

II

Málavextir eru á þann veg að þann 27. júlí sl. flutti innflytjandi til landsins umræddar bifreiðar frá Bandaríkjunum. Var aðflutningsskýrslum ásamt fylgigögnum skilað til embættisins þann 26. júlí sl. og var kaupverð hverrar bifreiðar tilgreint að fjárhæð USD 26.000,00 og tollverð hverrar bifreiðar reiknað 1.797.760 kr. Með bréfi embættisins, dags.

27. júlí sl., óskaði embættið eftir frekari skýringum og gögnum til staðfestingar á innkaupsverði ökutækjanna. Skýringar bárust með bréfi innflytjanda dags. 2. ágúst sl. Aðflutningsgjöld umræddra sendinga voru ákvörðuð með bréfum tollstjórans dags. 8. ágúst sl., á þann veg að tollverð hverrar bifreiðar var ákvarðað 2.814.212 kr. með vísan til 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun. Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um aðflutningsgjöld bifreiðanna X, Y, Z, Þ og Æ var kærð til úrskurðar tollstjórans í Reykjavík, með bréfi frá innflytjanda, dags. 17. ágúst sl. Í kæru innflytjanda er gerð sú krafa að tollverð bifreiðanna verði ákvarðað á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995.

III

Í 8. gr. tollalaga nr. 55/1987 er að finna þá meginreglu að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af 9. gr. tollalaga. Um tollverð og tollverðsákvörðun gildir reglugerð nr. 374/1995, með síðari breytingum, en reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga. Grunnregla 8. gr. tollalaga er ítrekuð í 2. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en þar kemur fram að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 3. gr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði sem sett eru fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar eru tilgreind í a.-e. lið 2. gr tollverðsreglugerðarinnar. Fram kemur í e. lið reglugerðarinnar að viðskiptaverðið verði lagt til grundvallar ef tollstjóri dregur ekki í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess, eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum, saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóra ber að athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, kemur fram að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum, sbr. 7. gr. sömu reglugerðar.

Í 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar kemur fram að ríkistollstjóri skuli safna saman upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá og sjá til þess að tollstjórar eigi greiðan aðgang að upplýsingum þessum.

Ljóst er að framansögðu að tollstjórinn í Reykjavík ber að kanna sjálfstætt viðmiðunarverð annarra ökutækja og ástand ökutækja, óháð því hvort reikningar eru taldir trúverðugir eða ekki. Við verðmætamat bifreiðarinnar, sem kveðið er á um í 17. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, hefur tollstjórinn í Reykjavík stuðst við upplýsingar sem fram koma í Red Book til viðmiðunar, sbr. 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Verð hinna innfluttu bifreiða, Volvo XC90 (CZ59) árgerð 2005 er samkvæmt framlögðum reikningum USD 26.000,00 en viðmiðunarverð samkvæmt Red Book er USD 35.990,00. Í Red Book kemur því fram verð á Volvo XC90 (CZ59), árgerð 2005, sem er talsvert hærra en tilgreint er á framlögðum gögnum við tollafgreiðslu og víkur kaupverð bifreiðanna X, Y, Z, Þ og Æ 27,76% frá viðmiðunarverði embættisins sem kemur fram í Red Book. Við vöruskoðun á fyrrgreindum sendingum kom ekki fram neitt sem skýrt gæti lágt verð bifreiðanna.

IV

Í kærubréfi dags. 17. ágúst sl. vísar innflytjandi til gríðarlegrar samkeppni og afslátta sem bifreiðaframleiðendur bjóði nú á flest öllum tegundum eftirársbifreiða í Bandaríkjunum. Árgerð 2005 hafi fallið í verði við það að árgerð 2006 komi á markaðinn. Umboðssalar séu farnir að bjóða allt að 30% afslætti af eftirársbifreiðum. Þess til stuðnings hefur innflytjandi bent á greinar í nokkrum fréttamiðlum sem fjalla um ástandið á bifreiðamarkaðnum í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim greinum sem innflytjandi vísar til hafa þrír stærstu bifreiðaframleiðendur Bandaríkjanna, General Motors, Ford og DaimlerChrysler, boðið upp á svokallaðan ,,starfsmannafslátt" af hluta af bifreiðum sínum, árgerð 2005. Hefur þetta skapað sérstakt ástand á bifreiðamarkaðnum í Bandaríkjunum. Hins vegar er ekki um það að ræða að aðrir bílaframleiðendur hafi boðið slíkan afslátt. Þrátt fyrir sérstakt ástand á bandarískum bifreiðamarkaði, samanber verðlækkanir á eftirársbifreiðum hjá bandarískum bílaframleiðendum, hefur innflytjandi ekki sýnt fram á að slíkar verðlækkanir hafi orðið á Volvo bifreiðum. Þá skal jafnframt tekið fram að Volvo bifreiðar eru framleiddar á Evrópumarkaði og fluttar til Bandaríkjanna og því er ljóst að gera þarf fyrirvara við það hvort sama gildi um Volvo bifreiðar og gildir um bifreiðar sem framleiddar eru í Bandaríkjunum og seldar á bandarískum markaði.

Innflytjandi vísar auk þess í kærubréfi til þriggja tilboða á uppboðsvefnum eBay (www.ebay.com). Í tveimur af þeim tilboðum sem innflytjandi vísar til er um að ræða bandarískar bifreiðar sem ekki eru sambærilegar þeim Volvo bifreiðum sem hér um ræðir. Í einu tilviki, boði nr. 4569060298 á eBay, viðist vera um sambærilegar bifreiðar að ræða, Volvo XC90, árgerð 2005. Boðnar eru 8 bifreiðar á USD 216.000,00 þannig að hver bifreið kostar USD 27.000,00, ef allar bifreiðarnar væru keyptar, en þær voru boðnar án ábyrgðar og seldar í núverandi ástandi. Um er að ræða boð þar sem lágmarki var ekki náð og ekki varð því af kaupum. Mjög takmarkaðar upplýsingar lágu fyrir í boðslýsingunni,

t.d. fylgdi einungis ein mynd af einni bifreið og ekki var greint frá því hvernig bifreiðarnar væru á litinn. Í lýsingu á bifreiðunum stóð að þær væri nýjar en einnig stóð á vefsíðunni að vegna mjög þrifalegs útlits litu bifreiðirnar út eins og nýjar. Þarna var því um misvísandi upplýsingar að ræða. Í ljósi þess að einungis er um eitt uppboð, þar sem takmarkaðar upplýsingar voru veittar, telur embættið að það sýni ekki fram á trúverðugleika framlagðra vörureikninga.

Innflytjandi bendir einnig í kærubréfi á að listaverð þessara bifreiða árgerð 2006 sé USD 36.000,00. Samkvæmt opinberri síðu Volvo í Bandaríkjunum www.volvocars.us er listaverð á Volvo XC90 2.5T USD 35.640,00 án alls aukabúnaðar. Með þeim aukabúnaði sem á þessum bifreiðum er, er verðið USD 41.105,00.

Í kærubréfi vísar innflytjandi til þess að viðmiðunarverð sé ekki réttur mælikvarði, þar sem það taki ekki mið af tímabundnum verðtilboðum framleiðanda og bifreiðaumboða. The Automobile Red Book er gefin út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Upplýsingar úr Red Book falla undir þær upplýsingar sem um er getið í 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar, þ.e. upplýsingar frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá. Verð í ritinu eru meðalverð frá stærstu bifreiðasölum Bandaríkjanna. Red Book er gefin út 8 sinnum á ári. Notuð var júlíútgáfa 2005 til þess að finna út viðmiðunarverð og því tekur sú útgáfa mið af þeim verðum sem þá voru í gangi. Í ljósi framangreinds er það álit embættisins að Red Book gefi rétta mynd af verðum af bifreiðum og beri að styðjast við hana þegar viðmiðunarverð er fundið.

Innflytjandi vísar í kærubréfi einnig til þess að hann kaupi inn bifreiðar í magni og í gegnum innkaupabandalög og því fái hann mjög hagstæð verð. Auk þess búi hann yfir þekkingu á þeim markaði sem hér um ræði. Innflytjandi bendir á að þær bifreiðar sem hér eru til umfjöllunar séu hluti af kaupum hans á yfir 30 bifreiðum sömu gerðar af Volvo Momentum í Houston, Texas. Embættið fellst á það að eðlilegt gæti verið að í slíkum magninnkaupum sé bifreiðaverð hagstæðara en annars. Hins vegar er slíkur munur á verði skv. framlögðum vörureikningum og viðmiðunarverði að það getur ekki talist útskýrt með þeim afslætti er fylgir magninnkaupum. Embættið telur einnig að góð þekking innflytjanda á bandarískum bifreiðamarkaði geti ekki útskýrt hið mikla frávik sem er á milli viðmiðunarverðs og verði samkvæmt vörureikningum.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að viðskiptaverð bifreiðanna samkvæmt umræddum reikningum er mun lægra en markaðsverð sambærilegra bifreiða, miðað við uppgefin verð í Red Book og því telur embættið að framlagðir reikningar séu ekki trúverðugir og ekki beri að leggja þá til grundvallar við tollverðsákvörðun, sbr. 18. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995.

V

Í þeim málum sem upp koma hjá embættinu varðandi innflutning notaðra bifreiða og þar sem embættið telur að ekki sé unnt að styðjast við framkomna reikninga, þá gerir embættið könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma. Innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð var kannaður á tímabilinu 1. janúar 2005 til 1. september 2005. Það er mat embættisins að afar erfitt sé að finna sams konar ökutæki sem flutt hafi verið inn til landsins á sama eða svipuðum tíma, í sama ástandi og þau ökutæki sem um ræðir. Skoðun á innflutningi leiddi hins vegar í ljós að unnt var að taka til viðmiðunar bifreið, verksmiðjunúmer YV1CM592951134827, sem var flutt inn frá Bandaríkjunum og tollafgreidd hjá tollstjóranum í Hafnarfirði þann 11. maí sl. Söluverð bifreiðarinnar var USD 33.367,00. Samanburðarbifreiðin er keyrð 6.128 mílur og er 5 sæta en ekki 7 sæta, eins og þær bifreiðar sem A flutti inn. Þrátt fyrir að embættið telji umræddar bifreiðar ekki fyllilega sambærilegar þeirri sem notuð er til viðmiðunar hefur embættið ákveðið með hliðsjón af sérstöku eðli máls þessa og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að miða við fyrrnefnda bifreið og þannig er tekið tillit til þeirra afslátta sem innflytjandi hefur mögulega fengið vegna mikilla viðskipta við söluaðila. Það skal tekið fram að úrlausn þessi hefur ekki fordæmisgildi.

Embættið telur að rök kæranda nægi ekki til að skýra hið lága viðskiptaverð bifreiðanna og því ber að ákvarða tollverð bifreiðanna út frá annarri samskonar bifreið, sem keypt var á sama markaðssvæði á svipuðum tíma, skv. 10. gr. reglugerðar um tollverð og tollverðsákvörðun nr. 374/1995, USD 33.367,00 hver bifreið.

VI

Með vísan til alls framanritaðs ákveðst tollverð bifreiðanna, hverrar um sig, X, Y, Z, Þ og Æ því 2.188.105 kr. skv. 10. gr. reglugerðar um tollverð og tollverðsákvörðun nr. 374/1995, með síðari breytingum.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 26. september 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum