2020

Dómur Landsréttar 15. maí 2020 í máli nr. 497/2019

15.5.2020

Dómur föstudaginn 15. maí 2020. 

Mál nr. 497/2019: 

Íslenska ríkið 
(Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður) 
gegn 
Eiríki Gunnari Helgasyni 

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð 
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Einkahlutafélag. Sýkna. 

Útdráttur 
E höfðaði mál á hendur Í og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar þar sem honum var gert að greiða sekt á grundvelli þess að hann hefði af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína sem prókúruhafi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður I ehf. þegar skuld myndaðist við ríkissjóð vegna vangoldinnar staðgreiðslu og vörsluskatta. Í dómi Landsréttar kom fram að samkvæmt gögnum málsins hefði stjórnarformaður félagsins séð einn um fjármál þess, þar á meðal skil á skýrslum til yfirvalda og greiðslur vegna félagsins frá árinu 2013. Jafnframt lægi ekkert fyrir um að E hefði tekið þátt í ákvörðunum um hverjar af skuldum félagsins yrðu greiddar eða tekið ákvarðanir um skattskil þess. Þá hafi E ekki haft neina vitneskju um vanskil félagins á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti á þeim tíma sem hann var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður með prókúru. Var því fallist á kröfu E um ógildingu úrskurðarins og endurgreiðslu sektarinnar.
 

Dómur Landsréttar 

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Ragnheiður Harðardóttir og Ása Ólafsdóttir, settur landsréttardómari. 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 
1 Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 1. júlí 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2019 í málinu nr. E-3802/2018. 

2 Áfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Til vara krefst hann þess að tildæmd fjárhæð verði stórlega lækkuð og að málskostnaður falli niður. 

3 Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik 
4 Með hinum áfrýjaða dómi var felldur úr gildi úrskurður yfirskattanefndar frá 14. mars 2018 í máli nr. 46/2018 þar sem stefnda var gert að greiða sekt að fjárhæð 3.450.000 krónur í ríkissjóð. Í úrskurði yfirskattanefndar var byggt á því að stefndi hefði af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína sem prókúruhafi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Inox ehf. þegar skuld myndaðist við ríkissjóð vegna vangoldinnar staðgreiðslu og vörsluskatta. Var stefndi þar talinn bera refsiábyrgð eftir viðeigandi ákvæðum laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

5 Í úrskurði yfirskattanefndar var byggt á því að stefndi hefði verið upplýstur og meðvitaður um fjármál Inox ehf. og vanskil á sköttum, að minnsta kosti frá árinu 2013. Var þar vísað til þess að stefndi hefði staðfest við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að stjórnarformaður félagsins hefði upplýst hann um fjármál þess og vanskil á sköttum að minnsta kosti frá árinu 2013 sem og um að samið hefði verið við innheimtumann ríkissjóðs vegna vangoldinnar staðgreiðslu. Þá er byggt á því í úrskurði yfirskattanefndar að vanskil á greiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts hafi að einhverju leyti mátt rekja til vanefnda félagsins Lumex ehf., sem hafi verið að hluta til í eigu stefnda. Það hafi því staðið stefnda næst sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa Inox ehf. að sjá til þess að greiðslum frá Lumex ehf. yrði ráðstafað til greiðslu vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts félagsins, enda hafi hann verið í því tilviki beggja megin borðsins. 

Niðurstaða 
6 Stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þá bera framkvæmdastjórar slíkra félaga, þegar þeir eru ráðnir, einnig ábyrgð samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Skal framkvæmdastjóri meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. 

7 Stefndi var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Inox ehf. frá 27. janúar 2014 til 16. janúar 2015 auk þess að vera með prókúru fyrir félagið á sama tíma. Stefndi hefur borið því við að hann hafi þrátt fyrir það ekki haft neina aðkomu að fjármálum félagsins. Það hafi verið hlutverk stjórnarformanns félagsins og prókúruhafa, allt frá árinu 2013. Hlutverk stefnda hjá félaginu hafi frá upphafi eingöngu falist í að afla verkefna, einkum frá félaginu Lumex ehf., en hann er einn eigenda þess félags, sem fyrr greinir. 

8 Í forsendum hins áfrýjaða dóms er rakin aðkoma stefnda að rekstri Inox ehf. Er óumdeilt að stefndi sá aldrei um bókhald félagsins og annaðist ekki skýrsluskil til yfirvalda. Ágreiningur virðist vera um hver hafi verið aðkoma hans að stjórnun félagsins. Af samantekt af framburði stjórnarformanns félagsins við meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra er þó ljóst að stjórnarformaðurinn sá einn um fjármál félagsins, þar á meðal skil á skýrslum til yfirvalda og greiðslur vegna félagsins frá árinu 2013. Fær þetta jafnframt stoð í framburði bókara félagsins við aðalmeðferð málsins í héraði. Jafnframt liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi tekið þátt í ákvörðunum um hverjar af skuldum félagsins yrðu greiddar umfram aðrar eða tekið ákvarðanir um skattskil þess. Þá hefur stefndi borið því við að hann hafi ekki haft neina vitneskju um vanskil félagsins á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti á þeim tíma sem hann var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður með prókúru. Hann hafi einungis fengið upplýsingar um að stjórnarformaður félagsins hefði gert samkomulag við innheimtumann ríkissjóðs vegna vanskila á árinu 2013. Hafa engin gögn verið lögð fram um annað í málinu. 

9 Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að fjármálum félagsins hafi verið stjórnað af stjórnarformanni þess, sem ásamt stefnda var gert að sæta sektargreiðslum í úrskurði yfirskattanefndar. Hafi stjórnarformaðurinn því í reynd borið fulla ábyrgð á skattskilum félagsins og fjármálum þess. Með vísan til þessa og dóma Hæstaréttar 30. október 2014 í máli nr. 295/2014, 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 og 16. febrúar 2017 í máli nr. 777/2015 sem og dóms Landsréttar 20. apríl 2018 í máli nr. 2/2018 verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. 

10 Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest en áfrýjanda verður jafnframt gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð: 

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Eiríki Gunnari Helgasyni, 850.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 5. júní 2019

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 8. nóvember 2018, var dómtekið 14. maí sl. Stefnandi er Eiríkur Gunnar Helgason, […]. Stefndi er íslenska ríkið. 

Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður yfirskattanefndar frá 14. mars 2018 í máli nr. 46/2018 verði felldur úr gildi hvað varðar stefnanda og að stefnda verði gert að greiða stefnanda 3.450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2018 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að úrskurði yfirskattanefndar 14. mars 2018 í máli nr. 46/2018 verði breytt á þann veg að sekt sem lögð var á stefnanda að fjárhæð 3.450.000 verði felld niður eða lækkuð verulega að mati dómsins og að stefnda verði gert að greiða stefnanda 3.450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2018 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda. 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hans hendi en til vara að hann verði felldur niður. 

I. 

Ágreiningur máls þessa lýtur að úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2018 frá 14. mars 2018 þar sem stefnanda var að kröfu skattrannsóknarstjóra gert að greiða 3.450.000 krónur í sekt til ríkissjóðs vegna brota á lögum um staðgreiðslu skatta og lögum um virðisaukaskatts. Með sama úrskurði var Karli Lund gert að greiða 3.550.000 krónur í sekt en kröfu skattrannsóknarstjóra um að Árna Jóhannessyni yrði gert að greiða sekt var hafnað.
Framangreindur úrskurður yfirskattanefndar byggir á rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum einkahlutafélagsins Inox ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 21. október 2015, vegna greiðslu- og 
uppgjörstímabila á rekstrarárunum 2013, 2014 og 2015. Stefnandi var í stjórn félagsins frá 27. janúar 2014 til 16. janúar 2015 og jafnframt framkvæmdarstjóri og prókúruhafi á sama tímabili. Karl Lund var stjórnarformaður og prókúruhafi á sama tímabili og áfram þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá gegndi Karl stöðu framkvæmdastjóra frá 12. mars 2015. Árni Jóhannesson tók sæti í stjórn félagsins þegar stefnandi gekk úr stjórninni og var jafnframt framkvæmdastjóri og prókúruhafi í tæpa tvo mánuði eða til 12. mars 2015. 

Rannsókn málsins lauk með skýrslu skattrannsóknarstjóra 20. október sama ár. Niðurstöður skýrslunnar voru þær að í starfsemi félagsins hefði verið brotið gegn lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum launamanna skattaðila vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, nóvember og desember rekstrarárið 2014 og janúar, febrúar og mars rekstrarárið 2015. Næmi vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna umræddra tímabila samtals 4.090.076 krónur auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Það var jafnframt niðurstaða skýrslunnar að í starfseminni hefði verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að vanrækt hefði verið að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti innheimtum af skattaðila vegna uppgjörstímabilanna nóvember til desember rekstrarárið 2013, mars til apríl, maí til júní og nóvember til desember rekstrarárið 2014 og janúar til febrúar rekstrarárið 2015. Næmi vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur samtals 4.660.264 krónur auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. 

Stefnandi andmælti fyrirhugaðri ákvörðun um refsimeðferð málsins sem honum var tilkynnt um með bréfi skattrannsóknarstjóra 27. október 2016 og svaraði ekki boðið skattrannsóknarstjóra um að ljúka málinu með sekt á því stjórnsýslustigi. 

Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til yfirskattanefndar 16. nóvember 2017. Gerði hann kröfu um að yfirskattanefnd myndi ákvarða stefnanda, auk hinna tveggja fyrirsvarsmanna félagsins, sekt með vísan til ákvæða 1. mgr. 31. gr., sbr. 30. gr. laga nr. 45/1987, 1. mgr. 41., sbr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. og 1. mgr. 22. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/199, um yfirskattanefnd, sem og 35.-37. gr. reglugerðar nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Var þeim tilkynnt um þetta sama dag. 

Stefnanda og Karli Árna var 20. nóvember 2017 gefinn kostur á að skila athugasemdum til nefndarinnar eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattnefnd afgreiddi mál þeirra. Bárust yfirskattanefnd athugasemdir þeirra í kjölfarið.

Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð 14. mars 2018 í máli nr. 46/2018. Áður hafði stefnanda verið gefinn kostur á að skila athugasemdum til nefndarinnar sem hann gerði. 

Með úrskurði yfirskattanefndar var stefnanda og öðrum fyrirsvarsmanni félagins gert að greiða sekt en þriðji aðilinn, sem sat í stjórn og gegndi stöðu framkvæmdarstjóra í um tvo mánuði á árinu 2015 var ekki gerð sekt. 

Sekt fyrirsvarsmannsins var ákveðin 3.550.000 króna sekt. Var til þess vísað að hann hefði verið stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins allan þann tíma er málið varðaði og framkvæmdastjóri frá 12. mars 2015. Einnig var vísað til þess að hann hefði við skýrslugjöf sína hjá skattrannsóknarstjóra greint frá því að hann hefði haft með höndum umsjón fjármála skattaðila og skil vörsluskatta. Þá var einnig vísað til framburðar annarra aðila málsins um aðkomu hans að fjármálum og daglegum rekstri. Að þessum frásögnum virtum og gögnum málsins að öðru leyti var talið að þessi fyrirsvarsmaður hefði haft með höndum daglega stjórn félagsins allan þann tíma er málið varðaði og því borið ábyrgð á skilum vörsluskatta skattaðila. Væri sektarkröfu því réttilega að honum beint. Einnig kom fram að huglægum refsiskilyrðum þætti fullnægt hvað þennan fyrirsvarsmann snerti. 

Stefnanda var gerð sekt að fjárhæð 3.450.000 krónur. Var vísað til þess að hann hefði verið skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi skattaðila og hefði honum borið að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal skil vörsluskatta og að annast um að starfsemi þess væri jafna í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Stefnandi ítrekaði fyrir nefndinni fyrri frásagnir, sem fram höfðu komið við skýrslutöku skattrannsóknarstjóra, þess efnis að hann hefði ekkert komið að fjármálum Inox ehf. þann tíma er málið tók til. Í úrskurði nefndarinnar kom fram að einn fyrirsvarsmanna félagsins hefði borið hjá skattrannsóknarstjóra að stefnandi hefði ásamt þeim sem gerð var sekt í málinu séð um fjármál félagsins í sameiningu. Þá hefði sá aðili við skýrslugjöf frá skattrannsóknarstjóra greint frá því að hann sjálfur hafi séð um fjármál félagsins en stefnandi verið upplýstur um bága stöðu þess frá upphafi. Jafnframt hefi hann sagt að fjárhagserfiðleikana væri að rekja til vanefnda af hálfu Lumex ehf., félags í eigu stefnanda, Inga Helgasonar og Helga Sigurðssonar. Stefnandi hefði staðfest við skýrslutöku að gert hefði verið samkomulag um greiðslur Lumex ehf. til Inox ehf. og að það hefði verið vilji hans að greiðslunum yrði ráðstafað upp í vangreidda staðgreiðslu. Stefnandi hefði einnig greint frá því að hann hefði verið „á haus“ í rekstri Lumex ehf. og því hefði hann ekki fylgt þessu eftir. Sagði í úrskurði yfirskattanefndar að samkvæmt þessu væri fram komið í málinu að stefnandi hefði verið upplýstur og meðvitaður um fjárhagsstöðu Inox ehf. og vanskil á sköttum að minnsta kosti frá árinu 2013. Þá hefði stefnandi ekki vefengt að stöðu Inox ehf. mætti að einhverju leyti rekja til vanefnda Lumex ehf. Vegna þeirrar viðbáru stefnanda að hann hefði viljað að greiðslum frá síðastgreindu félagi yrði varið til lúkningar staðgreiðsluskuld tók yfirskattanefnd fram að það hefði staðið honum sjálfum næst að sjá til þess, enda hefði hann í því tilviki verið beggja vegna borðsins. Yrði að þessu virtu að telja að stefnandi hefði af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína. Yrði því að telja hann bera refsiábyrgð samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 45/1987 og laga nr. 50/1988 sem fyrr greindi vegna þess misbrests skattskila sem um hefði rætt.
Stefnandi stóð skil á sektargreiðslu samkvæmt framangreindum úrskurði yfirskattanefndar. Hann unir hins vegar ekki niðurstöðu nefndarinnar og í málinu krefst hann ógildingar úrskurðarins og endurgreiðslu sektargreiðslunnar ásamt dráttarvöxtum frá greiðsludegi. 

II. 

Stefnandi reisir kröfur sína á því að úrskurður yfirskattanefndar sé efnislega rangur auk þess sem hann sé haldinn formgöllum. 

Hvaða efnislega úrlausn málsins hjá yfirskattanefnd varðar þá byggir stefnandi á því að hann hafi ekki á nokkurn hátt komið að daglegum rekstri Inox ehf. og ekki stýrt fjármálum félagsins eða annast fjárhagsmálefni þess að neinu leyti. Þá hafi hann ekki annast skýrsluskil félagsins til skattayfirvalda og ekki á nokkurn hátt komið að því að annast skil félagsins á sköttum og gjöldum, að öðru leyti en því að hann hlutaðist til um það með þriðja aðila og viðskiptaaðila Inox ehf. að tryggja félaginu fjármagn til að greiða skuld vegna vangoldinna gjalda, sem til var komin áður en hann tók að nafninu til við hlutverki framkvæmdastjóra, stjórnarmanns og prókúruhafa. Þar sem hann hafi einfaldlega ekki haft það hlutverk að annast framangreind atriði, sé ákvörðun yfirskattanefndar um að gera honum refsingu fyrir vanrækslu á slíkum skyldum röng, ólögmæt og í hróplegu ósamræmi við dómaframkvæmd síðustu ára í hliðstæðum og sambærilegum málum. Skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra og gögn málsins að öðru leyti styðji framangreinda staðhæfingu ef frá er talinn vitnisburður Árna Jóhannessonar sem bar að stefnandi og Karl hefðu í sameiningu annast fjármál félagsins. Það sé hins vegar í ósamræmi við framburð Karls og stefnanda. Verði að líta til þess að bæði stefnandi og Karl ber saman um að daglegur rekstur félagsins, skýrsluskil og greiðsla opinberra gjalda var alla tíð í höndum Karls, en ekki í höndum stefnanda. Ekki er því unnt að gera stefnanda refsingu fyrir þau mistök og þær röngu ákvarðanir sem teknar voru af hálfu Karls. 

Að sama skapi er því mati yfirskattanefndar mótmælt harðlega, að stefnandi hafi vanrækt eftirlitsskyldu sína af stórfelldu gáleysi. Svo virðist reyndar sem það mat nefndarinnar hafi verið byggt á þeim misskilningi að greiðslusamkomulag hafi verið gert við skattayfirvöld eftir að stefnandi var skráður framkvæmdastjóri Inox, en ekki áður en sú skráning fór fram. Hvort sem það er raunin eður ei, sé því mati yfirskattanefndar mótmælt harðlega, að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við eftirlitsskyldu sína, eingöngu vegna þess að honum hafi verið kunnugt um tilvist greiðslusamkomulags við skattayfirvöld, enda hafi daglegur rekstur félagsins ekki verið hans höndum. 

Þá sé fráleitt að telja að það hafa staðið stefnanda næst að standa skil á greiðslu vangoldinna skatta í ljósi þess að hann hafi gert ráð fyrir því að greiðslur félags hans, Lumex, rynnu til að gera upp fyrrnefnt greiðslusamkomulag við skattyfirvöld. Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir annað en að þær greiðslur hafi sannarlega í fyrstu runnið til að greiða upp vangoldin opinber gjöld eins og að var stefnt, en greiðsluvilja síðan skort af hálfu Lumex til að greiða frekari fjármuni inn í félag þar sem daglegum rekstri virtist illa sinnt. Í öðru lagi sé ekki með nokkru móti hægt að líta svo á að stefnandi hafi ráðið einu eða neinu um það hvaða kröfur skyldu greiddar af hálfu Inox, eða ráðið neinu um daglegan rekstur félagsins, enda þótt honum hafi auðnast að koma því til leiðar að aukið fjármagn rynni frá Lumex til Inox í skamman tíma, til þess eins að reyna að koma Inox yfir bratta í rekstri. Ósanngjarnt og órökrétt sé að ætla stefnanda eitthvert hluverk í daglegum rekstri félagsins og auknar eftirlitsskyldur, eingöngu þar sem hann kom því til leiðar að a.m.k. hluti vangoldinna gjalda yrðu greidd. 

Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að úrskurður yfirskattanefndar sé bæði studdur langsóttum og röngum röksemdum, auk þess sem túlkun nefndarinnar á refsiábyrgð stjórnenda á grundvelli ákvæða laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er í hróplegu ósamræmi við dómaframkvæmd síðustu ára. 

Að auki byggir stefnandi á því að rannsókn málsins á stjórnsýslustigi hafi verið áfátt. Hvorki skattrannsóknarstjóri né yfirskattanefnd hafi rannsakað málið nægilega vel og ítarlega með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar stefnandi í þessu efni til þess að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið leitast við að upplýsa um ástæður þess að framburður hinna tveggja fyrirsvarsmanna félagins var misvísandi varðandi viðveru stefnanda á starfsstöð félagsins eða staðhæfingu annars þeirra um að hann hafi komið að fjármálastjórn þess. Í ljósi þess að úrskurður nefndarinnar byggi á því að stefnandi hafi vanrækt eftirlitsskyldu sína, verður að telja þýðingarmikið að rannsaka það hversu mikil viðvera og raunveruleg tengsl stefnanda voru við félagið. Þá telur stefnandi augljóst að skattrannsóknarstjóri og yfirskattanefnd hefðu átt að hlutast til um það að varpa betra ljósi á aðkomu stefnanda að rekstri Inox ehf., til dæmis með því að afla frekari skýringa á því hjá Árna hvers vegna hann teldi að stefnandi hafi annast fjármál Inox að einhverju leyti og hvaða þýðingu hann legði þá í hugtakið sjálft, enda virðist sá framburður Árna augljóslega stangast á við framburð bæði stefnanda og Karls. Þá skorti frekari rannsókn á fjárhag félagsins og hvert fjármunir þess runnu. 

Úrskurður yfirskattanefndar um að gera stefnanda sekt á jafnveikum grunni og raun ber vitni er gáleysislegt, stríðir gegn réttarvitund og sanngirniskennd og er auk þess í andstöðu við áskilnað rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga um að mál skuli vera nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun um réttindi eða skyldur borgaranna. 

Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður yfirskattanefndar verði ógiltur. Þá krefst hann endurgreiðslu á þeirri sekt sem nefndin gerði honum og hann greiddi með fyrirvara þann 27. september 2018, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá greiðsludegi sektarinnar. Til vara krefst hann þess að úrskurður yfirskattanefndar, þess efnis að stefnanda beri að greiða sekt, verð felld niður eða sektin lækkuð verulega. Verði fallist á kröfu stefnanda um niðurfellingu sektarinnar eða lækkun hennar, felst í varakröfu hans krafa um endurgreiðslu á mismuni þeirrar fjárhæðar sem hann hefur þegar greitt með fyrirvara og þeirrar fjárhæðar sem dómurinn ákveður. 

Um lagarök vísar stefnandi einkum til ákvæða laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, þ.m.t. ákvæði 2. mgr. 30. gr. laganna, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, m.a. ákvæði 1. mgr. 40. gr. laganna, auk ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Krafa stefnanda um dráttarvexti byggir á ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 

III. 

Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Reisir stefndi sýknukröfu sína á því að meðferð málsins hjá skattyfirvöldum og úrskurður yfirskattanefndar í máli stefnanda sé í samræmi við lög. Sé því mótmælt að ógilda beri úrskurð nefndarinnar að því er varðar stefnanda og endurgreiða stefnanda sekt samkvæmt úrskurðinum. 

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi ekki á nokkurn hátt komið að daglegum rekstri Inox ehf. og ekki stýrt fjármálum félagsins eða annast fjárhagsmálefni þess að neinu leyti. Í þessu efni bendir stefndi á að óumdeilt sé að stefnandi hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafa Inox ehf. frá 27. janúar 2014 til og með 16. janúar 2015 eða í um eitt ár. Á þeim tíma hafi verið vanrækt af hálfu félagsins að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil, fyrir hönd skattaðila, á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins vegna greiðslutímabilanna janúar-ágúst, nóvember og desember rekstrarárið 2014. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla vegna þeirra uppgjörstímabila sem stefnandi var ábyrgur fyrir nam 3.593.083 krónum. Jafnframt hafi félagið vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri Inox ehf. vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember rekstrarárið 2013 og mars-apríl og maí-júní rekstrarárið 2014. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur vegna framangreindra uppgjörstímabila nemi 3.557.817 krónum. 

Stefndi byggir á því að vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti, sem teljast til vörsluskatta, séu refsiverð séu þau framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þegar refsiábyrgð manna vegna vanskila á vörslusköttum er metin þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt. Annars vegar þarf athafnaleysi, með því að standa ekki skil á sköttunum, að falla undir háttsemi sem sé refsiverð samkvæmt lögum. Hins vegar þarf athafnaleysið að teljast manni til stórfellds hirðuleysis eða ásetnings. Fjölmargir dómar Hæstaréttar staðfesti að fyrra skilyrðið teljist uppfyllt með því einu að vörslusköttum sé ekki skilað í ríkissjóð á réttum tíma og skipti þá engu máli þótt einhverjar afsökunarástæður liggi að baki vanskilum eða síðbúnum skilum, svo sem samkomulag við innheimtumann ríkissjóðs. Mat á síðara skilyrðinu ráðist aftur á móti að miklu leyti af ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, þar sem kveðið sé á um ríka eftirlits- og athafnaskyldu stjórnenda, það er félagsstjórnar og framkvæmdastjóra, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Athafnaleysi stjórnenda geti því fylgt refsiábyrgð þegar félag hefur með höndum innheimtu og skil á vörslusköttum. 

Dómaframkvæmt síðustu ára leiði til þess að framkvæmdastjóri félags ber allt að því hlutlæga refsiábyrgð á vörslusköttum. Hér sé þó ekki um eiginlega hlutlæga ábyrgð að ræða heldur byggi ábyrgðin á því að hlutafélagalöggjöfin leggi ríkar skyldur á framkvæmdastjóra félags til að sjá til þess og tryggja að vörslusköttum sé skilað. Sé það ekki gert sé það metið honum til stórfellds hirðuleysis eða ásetnings. 

Stefndi telur það ljóst að hafi framkvæmdastjóri verið ráðinn til félags beri hann refsiábyrgð hafi hann ekki skilað vörslusköttum til innheimtumanns en stjórnarmenn beri aðeins ábyrgð að svo miklu leyti sem það sannist að þeir hafi komið að daglegri stjórn eða ákvörðunum um hvað skuli greiða af skuldum félags, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 392/2006, 354/2013, 388/2013 og 295/2014.

Stefndi telur engan vafa leika á því að skráður framkvæmdastjóri beri refsiábyrgð jafnvel þótt sannað sé að skráningin hafi verið til málamynda og hann hafi ekkert komið að rekstri félags, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/1999 og 413/2011. Virðist Hæstiréttur telja að ekki verði litið framhjá þeim skyldum sem að lögum hvíla á skráðum framkvæmdastjóra einkahlutafélags. Þá geti framkvæmdastjóri til að mynda almennt ekki losnað undan skyldum sínum þótt hann ráði fjármálastjóra til að sjá um skil opinberra gjalda. 

Loks mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuð að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi leggur áherslu á að við rannsóknir skattalagabrota verði varðandi rannsókn ábyrgðar einstakra fyrirsvarsmanna og þátta er máli skipta um saknæmi að líta til þess sem lög og jafnframt dómafordæmi bera með sér að helst hafi þýðingu. Þegar eftir skýrslutöku af stefnanda 8. september 2016 lá fyrir sú frásögn hans að hann hefði aldrei komið að daglegum rekstri Inox ehf. Jafnframt kom fram að Karl hefði annast daglegan rekstur. Var síðastgreint frekar staðfest í skýrslugjöf Árna og Karls þegar í kjölfarið. Hlaut þá að vera ljóst að ábyrgð stefnanda myndi vera á forsendum vanræktrar eftirlitsskyldu skráðs framkvæmdastjóra, væri hún fyrir hendi, enda mátti á því tímamarki er umræddar skýrslutökur fóru fram ótvírætt líta svo á í ljósi dómaframkvæmdar að slík skylda yrði talin hvíla á skráðum framkvæmdastjóra einkahlutafélags. Var við svo búið ekkert tilefni til að gera sérstakan reka að því að upplýsa hversu tíðförult stefnanda hefði orðið á starfsstöð Inox ehf. Þá hafi fjárhagsstaða félagsins verið rannsökuð með fullnægjandi hætti með hliðsjón af því sakarefni sem til rannsóknar var. Í því efni bendir stefndi á að að fjárskortur sé ekki tæk viðbára vegna vanskila vörsluskatta svo sem margsinnis hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar. Hafi því rannsókn þess atriðis enga þýðingu fyrir málið. 

Stefndi telur að ljóst að sem skráðum framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa Inox ehf. hafi stefnanda borið að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um skattskil þess, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Vanræksla kunni að baka fyrirsvarsmanni félags refsábyrgð sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur félags eða hafi hann að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Stefndi fái ekki séð að það hafi áhrif á niðurstöðu málsins hvort greiðslusamkomulag það sem vísað sé til í stefnu hafi verið gert fyrir eða eftir að stefnandi tók við stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Samkvæmt gögnum málsins hafi honum verið kunnugt um fjármálastöðu félagsins að minnsta kosti frá árinu 2013. Hafi hann haft með höndum daglega stjórn Inox ehf. allan þann tíma sem málið tekur til og því borið ábyrgð á skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Starf stefnanda var hafi verið ábyrgðarstarf og á honum hafi fylgt skyldur sem framkvæmdastjóri félagsins. Þar af leiðandi geti stefndi ekki fallist á að hann hafi tekið við starfinu að nafninu til. Með hliðsjón af því telur stefndi að farið hafi verið eftir lögum í einu og öllu við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum og sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV. 

Í máli þessu er til úrslausnar hvort ógilda beri úrskurð yfirskattefndar nr. 46/2018 að því er sektargreiðslu stefnanda varðar. Stefnandi byggir kröfu sína á því yfirskattanefnd hafi borið að hafna því að gera honum sekt á grundvelli fyrirliggjandi atvika málsins. Kjarni röksemdar stefnanda í þessu efni er sú að þótt hann hafi að forminu til verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og með prókúruumboð félagsins á þeim tíma þegar vanhöld urðu á skýrsluskilum og skilum á staðgreiðslu tekjuskatts og virðisaukaskatts, þá hafi hann ekki borið ábyrgð á því. Annar nafngreindur starfmaður og stjórnarmaður í félaginu hafi haft fjármálastjórn á sinni hendi, þar á meðal stjórnað því hvaða greiðslur skyldu inntar af hendi og hvenær. Þá hafi stefnandi verði í góðri trú um að skattskil félagsins hafi verið í lögmæltu horfi allt þar til hann hafi fengið boðun í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra.

Fyrir liggur og er í raun óumdeilt að nafngreindur starfmaður og stjórnarmaður í félaginu Inox ehf. hafi séð um fjármál félagsins og haft prókúruumboð á því tímabili sem máli skiptir. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst sá stjórnarmaður hafa séð um fjármál félagsins og haft með höndum skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti þess. Í umdeilum úrskurði yfirskattanefndar var þessum aðila einnig gert að greiða sekt í ríkissjóð vegna sömu brota og stefnanda. 

Í úrskurði yfirskattanefndar er, hvað refsiábyrgð stefnanda varðar, vísað til stöðu hans sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanns og prókúruhafa á því tímabili þegar skattalagabrotin áttu sér stað og kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að hann beri refsiábyrgð með því að hafi vanrækt eftirlitsskyldu sína með saknæmum hætti. Er í úrskurðinum einkum vísað til þess að stefnandi hafi vitað eða mátt vita af vanskilum félagsins á sköttum og honum hafi borið að sjá til þess að staðið yrði skil á þeim. 

Á liðnum árum hafa fallið fjölmargir dómar í Hæstarétti vegna refsiábyrgðar stjórnenda félaga vegna vangreiðsla staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatts. Jafnvel þótt finna megi dóma þar sem rík ábyrgð er lögð á stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra félaga á grundvelli vanrækslu á eftirlits- og stjórnunarskyldum tengdum stöðu þeirra verður ekki annað ráðið af nýrri dómaframkvæmd en horfið hafi verið frá því stranga sakarmati sem lagt var til grundvallar í eldri dómum, m.a. dómi Hæstaréttar í málum nr. 242/1999 og 413/2011, sem stefnandi vísar til í greinargerð sinni. 

Svo sem að framan greinir liggur fyrir að fjármálum félagsins var stjórnað af nafngreindum starfsmanni og stjórnarmanni í stjórn félagsins sem gert var ásamt stefnanda að sæta sektargreiðslum í úrskurði yfirskattanefndar. Jafnframt liggur fyrir að stefnandi var ekki starfmaður félagsins, hann kom ekki að daglegum rekstri þess og heldur ekki að fjármálastjórn þessi. Ekkert bendir til að hann hafi haft á sinni könnu að taka ákvarðanir um hvaða skuldir skyldi greiða og hvenær. Verður honum ekki metið til saknæmrar vanrækslu að hafa ekki kynnt sér og haft eftirlit með því að skattskil félagsins hafi verið í lögmæltu horfi. Vísast um þessa niðurstöðu m.a. til dóma Hæstaréttar í máli nr. 388/2013 og máli nr. 295/2014. Staðhæfingar í greinargerð stefnda í þá veru að stefnandi hafi í raun gengt raunverulegri ábyrgðarstöðu innan félagsins fá ekki stoð í gögnum málsins og ekki verður séð að úrskurður yfirskattanefndar sé reistur á þeirri forsendu. 

Í skýrslu stefnanda hjá skattrannsóknarstjóra kom fram að hann hefði vitað af fjárhagserfiðleikum félagsins. Bar hann að hann hefði fengið vitneskju um það á einhverjum tíma að félagið hefði gert samning við um greiðslu skattskuldar frá árin 2013. Jafnvel þótt stefnandi hafi einnig verið kunnugt um fjárhagserfiðleika félagsins eftir þann tíma, getur það ekki leitt til refsiábyrgðar hans vegna skattskila félagsins sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 295/2014. Þá er heldur ekki fallist á það, svo sem yfirskattanefnd virðist byggja niðurstöðu sína að hluta til á, að unnt sé að fella refsiábyrgð á stefnanda þar sem líklegt sé að greiðsluerfiðleika félagsins megi rekja til vanskila annars félags sem stefnandi er einn eiganda að. 

Með framangreindum rökstuðningi er fallist á þá málsástæðu stefnanda að úrskurður yfirskattanefndar sé haldinn efnislegum annmörkum sem leiðir til þess að fallast ber á kröfu stefnanda um ógildingu úrskurðarins hvað hann varðar. Verður jafnframt tekin til greina krafa stefnanda um endurgreiðslu sektarinnar sem óumdeilt er að hann innti af hendi 27. september 2018 og kröfu hans um dráttarvexti frá þeim tíma til greiðsludags. 

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda 980.000 krónur í málskostnað. 

D ó m s o r ð: 

Úrskurður yfirskattanefndar frá 14. mars 2018 í máli nr. 46/2018 er felldur úr gildi hvað varðar stefnanda, Eirík Gunnar Helgason. Stefndi, íslenska ríkið, skal greiða stefnanda 3.450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2018 til greiðsludags, auk 980.000 króna í málskostnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum