2020

Dómur Landsréttar 15. maí 2020 í máli nr. 814/2018

15.5.2020

Dómur föstudaginn 15. maí 2020. 

Mál nr. 814/2018: 
Ákæruvaldið 
(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) 
gegn 
Guðnýju Hrefnu Leifsdóttu

(Sigurður Sigurjónsson lögmaður) 

Lykilorð 
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Einkahlutafélag. Sératkvæði. 

Útdráttur 
G var sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi A ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri A ehf. og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma ásamt opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Í héraði var G sakfelld ásamt Y, fyrrum sambýlismanni hennar, en málinu var í kjölfarið eingöngu áfrýjað til Landsréttar að því er G varðaði í samræmi við yfirlýsingu hennar um áfrýjun. Varnir G byggðust einkum á því að hún hefði engin afskipti haft af rekstri A ehf. heldur hefði skráning hennar hjá félaginu verið að beiðni Y. Í dómi Landsréttar var meðal annars vísað til þess að fyrir lægi að G hefði gegnt launuðu skrifstofustarfi hjá A ehf. Verkefni hennar hefðu meðal annars lotið að fjármálum félagsins og skattskilum þess. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var G talin bera refsiábyrgð á að látið hefði verið hjá líða að skila skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda á þeim tímabilum sem ákæra tæki til og standa skil á slíkum gjöldum. Refsing hennar þótti hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var G dæmd til að greiða 28.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri níu mánaða vararefsingu. 

Dómur Landsréttar 

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari. 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 

1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 19. október 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í málinu nr. S-82/2018. 

2 Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 

3 Ákærða krefst aðallega sýknu en til vara að fyrri hluta ákæru verði vísað frá dómi og að refsing verði milduð. 

Málsatvik og sönnunarfærsla 

4 Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi er ákærðu gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins A ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins á tímabilinu 1. nóvember 2014 til 1. mars 2016, samtals að fjárhæð 9.583.445 krónur og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna desember 2014 til og með apríl 2016, samtals að fjárhæð 18.843.934 krónur. Þá tekur saksóknin jafnframt til þess að skýrslum um virðisaukaskatt og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Auk ákærðu var fyrrverandi sambýlismaður hennar, Y, borinn sömu sökum að öðru leyti en því að hann hafi framið þessi brot sem daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður félagsins auk þess sem samanlögð fjárhæð vanskila staðgreiðslu opinberra gjalda hafi numið 19.762.238 krónum. 

5 Samkvæmt gögnum málsins var A ehf. stofnað í september 2014 en það hét þá K ehf. Skráðir stofnendur þess voru ákærða og B. Var B framkvæmdastjóri félagsins en ákærða stjórnarmaður og voru þau bæði skráð prókúruhafar. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár tók ákærða við starfi framkvæmdastjóra félagsins 16. desember 2014. Það var úrskurðað gjaldþrota [...] júlí 2016. 

6 Fyrir héraðsdómi játaði Y þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Hann rengdi þó fjárhæðir í fyrri kafla ákærunnar, sem snýr að skilum á virðisaukaskatti, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til tapaðra krafna. Var framburður hans á þann veg að hann hafi í reynd verið annar af tveimur eigendum félagsins við stofnun þess. Sökum veikinda sem hefðu hrjáð hann á þeim tíma hefði hann ekki treyst sér til að vera skráður fyrir félaginu og það væri ástæðan fyrir aðkomu ákærðu að því. Um bráðabirgðaráðstöfun hafi verið að ræða en þar sem veikindi hans hefðu ágerst hefði skráningu ekki verið breytt í rétt horf. Hann hafi séð um allt sem laut að rekstri félagsins, þar á meðal greiðslu skatta og gjalda og vinna ákærðu hafi verið bundin við launamál, tímaskráningu og tilfallandi verkefni sem hann hafi falið henni. 

7 Ákærða krafðist sýknu. Reisti hún málsvörn sína á því að Y hafi í reynd verið eigandi félagsins og að hún hafi einungis verið skráð fyrir því að nafninu til. Hann hafi beðið hana um þetta og hún fallist á það án þess að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þessu fylgdi. Hún hafi sinnt hefðbundnum skrifstofustörfum fyrir félagið en ekkert komið að rekstri þess, þar á meðal skattskilum. Y hafi stýrt daglegum rekstri félagsins og séð um allt sem tengdist fjármálum þess. 

8 Með hinum áfrýjaða dómi var framangreindri málsvörn ákærðu hafnað og hún og Y bæði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Var um sakfellingu ákærðu vísað til þess að við skýrslugjöf hjá skattrannsóknarstjóra hafi hún ekki getað upplýst hver hefði borið ábyrgð á skattskilum félagsins en hafi í því sambandi þó nafngreint mann sem ekkert lægi fyrir um að hefði komið að rekstri þess á þeim tíma sem ákæra tekur til. Fyrir héraðsdómi hafi hún síðan vísað á Y hvað þetta varðar. Var sá framburður hennar talinn í andstöðu við gögn sem sýndu aðkomu ákærðu að tilgreindum málefnum félagsins sem gæfu til kynna að hún hefði starfað sem framkvæmdastjóri félagsins og verið ágætlega inni í rekstri þess. 

9 Í skýrslugjöf sinni fyrir Landsrétti bar ákærða um að hún hefði framkvæmt öll störf sín hjá A ehf. að beiðni meðákærða í héraði, Y. Hún hafi í reynd ekki verið eigandi, framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður félagsins, allar skráningar hafi hann ákveðið. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en síðar hvaða ábyrgð fylgdi því að að vera skráður fyrirsvarmaður félagsins. Hann hafi í reynd stjórnað félaginu, átt það og ákveðið allt í starfsemi þess. 

10 Sýknukrafa ákærðu fyrir Landsrétti er á því byggð að af framangreindum ástæðum verði refsiábyrgð vegna vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu ekki felld á hana. Þá reisir hún varakröfu sína á því að í fyrri kafla ákæru hafi láðst að taka tillit til tapaðra krafna í rekstri A ehf. 

Niðurstaða 

11 Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er refsing lögð við því ef skattskyldur maður skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta. Þá er í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda lýst refsiverð sú háttsemi launagreiðanda að skýra af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um staðgreiðsluskil sín, halda ekki eftir fé af launagreiðslum eins og honum bar, afhenda ekki skilagreinar á lögmæltum tíma eða inna ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Í málinu er ákærðu gefið að sök meiri háttar brot gegn þessum ákvæðum, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

12 Stjórnarmenn einkahlutafélags bera almennt ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þar á meðal ber þeim að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Ráðinn framkvæmdastjóri félags ber einnig ábyrgð samkvæmt 44. gr. laganna og skal hann meðal annars annast daglegan rekstur og sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Er ljóst að á grundvelli þessa lagaákvæðis hvílir sú skylda á framkvæmdastjóra einkahlutafélags og eftir atvikum stjórnarmönnum að sjá til þess að skattskilum þess sé hagað í samræmi við það sem lög áskilja. Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna einkahlutafélags vegna vanskila á sköttum ræðst þó ekki af þessu einu. Þannig er dómaframkvæmd Hæstaréttar skýr um það að þegar fyrir liggur að skráður framkvæmdastjóri félags hafi ekki komið að rekstri þess, þar með töldum skattskilum eða að hann hafi eingöngu sinnt tilteknum þáttum í rekstri félagsins sem ekki tengjast fjármálum þess, geti hann ekki borið refsiábyrgð á því að vanhöld hafi orðið á skilum á skýrslum um virðisaukaskatt og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og greiðslu á þessum gjöldum í starfsemi félagsins. Má um þetta meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 og 16. febrúar 2017 í máli nr. 777/2015. Í fyrra málinu lá fyrir að stjórnarformaður einkahlutafélags, sem dæmdur var til refsingar með dómi héraðsdóms, hafi borið ábyrgð á rekstri þess, þar með töldum skattskilum, skilum á skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu en skráður framkvæmdastjóri hafi eingöngu sinnt starfsmannamálum í daglegum rekstri þess. Í seinna málinu var lagt til grundvallar að sannað væri að maður, sem hvorki var skráður framkvæmdastjóri né stjórnarmaður í einkahlutafélagi, hafi í raun borið fulla ábyrgð á skattskilum félagsins og starfsemi þess að öðru leyti. Hafði hann verið sakfelldur í héraði ásamt eiginkonu sinni sem var bæði skráð sem framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður þess. 

13 Fyrir liggur að ákærða gegndi launuðu skrifstofustarfi hjá A ehf. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir verkefnum sem hún sinnti fyrir félagið og styðst sú umfjöllun við gögn sem lögð hafa verið fram í málinu. Lutu þau meðal annars að fjármálum félagsins og skattskilum þess. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærða beri refsiábyrgð á því að látið var hjá líða að skila skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda á þeim tímabilum sem tiltekin eru í ákæru og standa skil á slíkum gjöldum. 

14 Samkvæmt 2. tölulið 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 er seljanda við uppgjör á skattskyldri veltu heimilt að draga frá tiltekið hlutfall af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Þessarar heimildar má neyta á því uppgjörstímabili þegar í ljós er leitt að krafa er töpuð með því að bú skuldara hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða gert hjá honum árangurslaust fjárnám. Heimildin leysir félag á hinn bóginn ekki undan skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti til samræmis við veltu sína og án tillits til innheimtu útgefinna reikninga, jafnharðan og skatturinn er réttilega kominn á gjalddaga hverju sinni. Er brot samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 þannig fullframið þegar skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhentur á réttum tíma. Með sama hætti og við á um greiðslu upp í skattskuld hafa afskriftir krafna þannig að jafnaði eingöngu áhrif við mat á því hvort sektarlágmarki ákvæðisins, það er fésekt sem nemur tvöfaldri skattfjárhæð, skuli beitt en breyta engu um refsinæmi vanskila á virðisaukaskatti. Kemur frávísunarkrafa ákærðu þegar af þessari ástæðu ekki til álita. 

15 Með vísan til þess sem að framan er rakið er staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu fyrir þau brot gegn lögum nr. 50/1988 og 45/1987 sem henni eru gefin að sök í ákæru. 

16 Undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2005, er bundin því skilyrði að virðisaukaskattsskýrslu hafi verið skilað á lögmæltum tíma. Á það bæði við þegar um er að ræða greiðslu upp í skattskuld og afskriftir krafna. Af hálfu ákærðu hefur verið byggt á því að undanþágan eigi við um innheimtan virðisaukaskatt á tímabilinu nóvember-desember 2014. Samkvæmt ákæru var virðisaukaskattsskýrslu fyrir það tímabil ekki skilað á lögmæltum tíma og tekur sakfelling ákærðu til þess. Gildir fésektarlágmarkið því um þetta tímabil.

17 Í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræðir í málinu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um heimfærslu brota ákærðu til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. 

18 Héraðsdómur verður staðfestur um fangelsisrefsingu ákærðu, sem bundin verður skilorði svo sem í dómsorði greinir. Í málum sem þessu hefur dæmdri sektargreiðslu vegna brota gegn lögum nr. 50/1988 og 45/1987 verið skipt á milli ákærðu þegar fleiri en einn er sakfelldur fyrir brot. Verður ákærðu samkvæmt því gert að greiða 28.500.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í níu mánuði. 

19 Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. 

20 Með vísan til 1. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða dæmd til að greiða helming alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði greinir. 

Dómsorð: 

Ákærða, Guðný Hrefna Leifsdóttir, sæti fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærða 28.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja en sæti ella fangelsi í níu mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð. 

Ákærða greiði helming alls áfrýjunarkostnaðar málsins, 824.045 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, 779.960 krónur. 

Sératkvæði
Þorgeirs Inga Njálssonar 

1 Í málinu er ákærða sótt til saka fyrir að hafa í starfi sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi A ehf. látið hjá líða að skila skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda á tilteknum tímabilum á árunum 2014 til 2016 og standa skil á slíkum gjöldum samtals að fjárhæð 28.427.379 krónur, en með því telur ákæruvaldið hana hafa brotið gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærða neitaði sakargiftum fyrir héraðsdómi en var fundin sek um þessi brot með hinum áfrýjaða dómi. 

2 Eins og fram kemur í héraðsdómi var málið jafnframt höfðað gegn öðrum einstaklingi, sem borinn var sömu sökum og ákærða að öðru leyti en því að hann hafi framið þessi brot í starfi sem daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður A ehf. á umræddum tíma. Sá játaði sök við meðferð málsins í héraði. Var sakfelling hans reist á þeirri játningu, sem fengi stoð í framburði tveggja vitna, og lagt til grundvallar að hann hefði stýrt daglegum rekstri félagsins ásamt ákærðu. Hann unir héraðsdómi. 

3 Í hinum áfrýjaða dómi og atkvæði meirihluta dómenda er í meginatriðum gerð grein fyrir framburði ákærðu og meðákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Í þeim framburði fólst meðal annars lýsing á verkaskiptingu á milli þeirra sem var afdráttarlaus um að skil á sköttum og gjöldum hefðu verið í höndum meðákærða og ákærða hefði enga ábyrgð borið á þeim. Liggur samkvæmt framansögðu fyrir endanlegur dómur þar sem sannað þótti að maður sem hvorki var skráður framkvæmdastjóri né stjórnarmaður í A ehf. hafi í raun borið ábyrgð á skattskilum félagsins. 

4 Að framangreindu virtu og í ljósi málsatvika að öðru leyti en jafnframt með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006, 12. desember 2013 í máli nr. 354/2013, 23. janúar 2014 í máli nr. 388/2013, 30. október 2014 í máli nr. 295/2014, 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 og 16. febrúar 2017 í máli nr. 777/2015, verður að mínu mati og þrátt fyrir skráða stöðu ákærðu samkvæmt framansögðu ekki litið svo á að hún beri refsiábyrgð á því að vanhöld hafi orðið á skilum skýrslna vegna áðurgreindra gjalda og að vanskil hafi orðið á greiðslu þeirra. Breytir engu í því tilliti þótt ákærðu hafi verið kunnugt um vanskilin, enda hefur ekki verið leitt í ljós að hún hafi tekið þátt í að ákveða hverjar af skuldum þess yrðu greiddar umfram aðrar. Samkvæmt þessu tel ég að sýkna beri ákærðu af kröfum ákæruvaldsins og að greiða skuli úr ríkissjóði allan sakarkostnað sem felldur var á hana í héraði ásamt áfrýjunarkostnaði málsins. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 

Mál þetta er höfðað með ákæru embættis héraðssaksóknara, útgefinni 15. febrúar 2018, á hendur Y, kt. [...], og Guðnýju Hrefnu Leifsdóttur, kt. [...], [...]. Í ákæru eru ákærðu sótt til saka fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, ákærða Guðný Hrefna sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins A, kt. [...], nú afskráð, og ákærði Y sem daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður félagsins, með því að hafa:

1. Ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna nóvember – desember rekstrarárið 2014, maí – júní til og með nóvember – desember rekstrarárið 2015 og janúar – febrúar rekstrarárið 2016 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutahlutafélagsins, vegna sömu uppgjörstímabila að viðbættum janúar – febrúar til og með mars – apríl rekstrarárið 2015, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 9.583.445 kr., sem sundurliðast svo:

814_1
2. Ekki staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2014, febrúar og september til og með desember rekstrarárið 2015 og febrúar og mars rekstrarárið 2016 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2014, janúar til og með desember rekstrarárið 2015 og janúar til og með apríl rekstrarárið 2016, samtals að fjárhæð 18.843.934 krónur hvað varðar ákærðu Guðnýju og 19.762.238 krónur hvað varðar ákærða Y, en þær fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu     sundurliðast svo:

814_2

814_3_1590411155696

Framangreind háttsemi ákærðu telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir brot samkvæmt fyrsta lið ákæru, og sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir brot samkvæmt öðrum lið ákæru. Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði Y gerir þær kröfur að hann verði sýknaður en til vara að kröfulið 1 verði vísað frá dómi, ellegar verði ákærði sýknaður af þeim ákærulið. Til þrautavara er gerð krafa um lækkun á ákærulið 1. Til þrautaþrautavara er gerð krafa um vægustu refsingar verði ákærði sakfelldur. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærða Guðný Hrefna krefst þess að hún verði sýknuð en til vara að fyrri hluta ákæru verði vísað frá dómi. Þá er krafist vægustu refsingar verið ákærða sakfelld. Þá krefst hún málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærða Guðný Hrefna Leifsdóttir neitar sök. Byggir málsvörn hennar á því að hún hafi engin afskipti haft af rekstri félagsins heldur hafi hún verið skráð sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi að beiðni sambýlismanns hennar, meðákærða Y. Ákærði Y hefur viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Sýknukrafa hans byggist á því að verði meðákærða sakfelld sé ekki unnt að sakfella hann. Einungis einn maður geti talist bera ábyrgð á skattskilum félagsins. Frávísunar- og lækkunarkröfur ákærðu hvað varðar fyrsta lið ákæru byggjast á því að ekki sé tekið tillit til tapaðra krafna í þeim lið. 

Málavextir: 

Ákæra í málinu styðst við rannsókn héraðssaksóknara sem fór fram á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til héraðssaksóknara 12. maí 2017 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Í bréfi skattrannsóknarstjóra kom fram að ákærða Guðný Hrefna hefði vanrækt að standa innheimtumanni skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra í málinu sneri eingöngu að ákærðu sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa A ehf. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra kvaðst ákærða ekki geta svarað því hver hefði séð um fjármál félagsins. Hún hafi verið skráð fyrir félaginu að beiðni B. Yfirmaður hennar hafi verið C en hann mun hafa verið skráður sem stjórnarformaður félagsins í maí 2016. Í skýrslu hjá lögreglu bar ákærða hins vegar að sambýlismaður hennar, meðákærði í málinu og varamaður í stjórn félagsins, hefði borið ábyrgð á fjármálum félagsins. Hún hafi aðeins verið skráð fyrir félaginu að nafninu til. Meðákærði var í kjölfar þessa yfirheyrður og staðfesti hann framburð meðákærðu um aðkomu hans að félaginu.

Í framburði ákærðu Guðnýjar Hrefnu fyrir dómi kom fram að hún hefði ekki komið að rekstri félagsins þótt hún hefði verið skráð sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess. Meðákærði hefði séð um allt sem rekstrinum tengdist, en hann fólst í því að útvega menn til verka á sviði byggingariðnaðar. Hann hafi stýrt daglegum rekstri félagsins, þ.m.t skattskilum og öllum fjármálum. Að nafninu til hafi hlutir í félaginu verið skráðir á hana en meðákærði hafi í raun átt þá. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir ábyrgð sinni og viti ekki af hverju þessu hafi verið svona háttað. Hún hafi sinnt venjulegum skrifstofustörfum fyrir félagið, skrifað bréf og fært tímaskýrslur. Þá hafi hún verið í námi hluta þess tímabils sem ákæran taki til. Hún hafi undirritað leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts að beiðni meðákærða og einnig stofnað bankareikning að beiðni hans. Hún hafi ekki nýtt sér notandaaðgang sinn í bankanum heldur hafi látið meðákærða hafa gögn þar að lútandi. Meðákærði hafi annast millifærslur. Hvað varði skráningar á svokallaða Linkedin-samfélagssíðu á netinu, þar sem ákærða er skráð sem framkvæmdastjóri (e. managing director) A ehf., þá sé um að ræða tilbúning. Hún kannist við að hafa átt í samskiptum við Tollstjóra að beiðni meðákærða og hafi hún fengið allar upplýsingar frá meðákærða. Hún hafi mætt við fyrirtöku aðfararbeiðni hjá sýslumanni þar sem hún hafi verið
skráð sem fyrirsvarsmaður. Hvað varðar tölvupóstsamskipti við lögmannsstofuna J vegna launamála A ehf. þá hafi þau verið að beiðni meðákærða og hafi hún fengið upplýsingar frá honum. Meðákærði hefði átt við veikindi að stríða og hefði hún verið undir pressu vegna þessa með að aðstoða hann. Hún kvaðst ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við fjárhæðir í ákæru. Af hálfu verjanda hennar voru hins vegar gerðar athugasemdir og lagðir fram reikningar úr bókhaldi félagsins sem sagðir voru tapaðir. 

Í framburði ákærða Y kom fram að hann rengdi tölur í ákæru þar sem ekki væri tekið tillit til tapaðra krafna í ákærulið 1. Hann gerir ekki athugsemdir við ákærulið 2. Hann kveður að A ehf. hafi starfað á sviði byggingariðnaðar og selt út starfsmenn á verkstað í ýmis verkefni, en ákærði er húsasmíðameistari. Ákærði kveðst hafa [...] vegna veikinda sinna og ekki hafa treyst sér til að fara inn í félagið, hvorki í stjórn né sem eigandi. Allt sem laut að rekstrinum hafi hann samt sem áður séð um, að afla verkefna o.fl. Til hafi staðið að breyta skráningunni en veikindi hans hafi ágerst. Meðákærða hafi þegið laun vegna þess að hún hafi séð um launamál, skráningu tíma o.fl. Þá hafi hún séð um fleiri verkefni að hans beiðni. Enn fremur hafi hann skráð á hana laun þar sem hún hafi verið í námi. Hvað varðar tapaðar kröfur félagsins þá bar ákærði að félagið hefði tapað kröfum á hendur D ehf., sbr. framlagða reikninga og afrit úr bókhaldi félagsins. Honum var ekki kunnugt um að félagið hefði tapað fleiri kröfum. Ekki hafi verið útgefnar leiðréttar virðisaukaskattsskýrslur vegna tapaðra krafna. Ákærði lagði fram læknisvottorð þar sem fram kom að hann hefði verið vistaður á sjúkrahúsi [...] febrúar til [...] mars 2015.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af vitnunum E, F, H og I. Í framburði E kom fram að hún starfaði á lögmannsstofunni J. Hún staðfesti að hún hefði átt í tölvupóstsamskiptum við ákærðu Guðnýju Hrefnu hvað varðaði kröfur launþega á hendur A ehf. Hún hafi ekki átt í samskiptum við ákærða. 
Í framburði F kom fram að hún starfaði hjá Tollstjóra við innheimtu. A ehf. hefði gert greiðsluáætlun og hefði hún verið í tölvupóstsamskiptum við ákærðu Guðnýju Hrefnu vegna þess. Þeir sem væru í forsvari fyrir viðkomandi félag gætu komið að samningum um greiðslu. Hún hafi ekki átt í samskiptum við ákærða. 
Í framburði H kom fram að hann hefði verið ráðinn af ákærða sem verkstjóri hjá A ehf. í byggingarstarfsemi. Öll samskipti hafi verið við ákærða. Hann hafi ekki talað um fjármál við ákærða en skilað tímaskýrslum til hans. 
Í framburði I kom fram að hann hefði starfað sem undirverktaki fyrir A ehf. Hann kannaðist við að ákærði hefði verið veikur á ákveðnu tímabili. Þá hafi allt farið í uppnám enda verk í vinnslu. Hafi hann haft samband við ákærðu vegna þess að hann vantaði greiðslu og hafi hún eiginlega ekki vitað neitt, hvað var í vinnslu o.s.frv. Ákærði hafi stjórnað starfseminni. Vitnið kveðst ekki hafa þekkt til daglegs reksturs félagsins, þ.e. skrifstofuhalds.

Við upphaf aðalmeðferðar 5. júní 2018 lögðu verjendur ákærðu fram reikninga A ehf. á hendur D ehf., dags. 28. nóvember og 6. desember 2014, samtals að fjárhæð 12.520.000 kr., sem sagðir eru vegna vinnu A ehf. í þágu D ehf. Þá var lagður fram hreyfingalisti skuldunauta þar sem fram kom að félagið hefði kreditfært 10.538.146 kr. vegna D ehf. Telja ákærðu að þetta sýni fram á að ákæruliður nr. 1 sé ekki tölulega réttur þar sem ekki sé tekið tillit til þessara töpuðu krafna. Ákæruvaldið lagði í framhaldinu fram vottorð fyrirtækjaskrár þar sem fram kom að ákærðu hefðu verið skráð í stjórn D ehf., þ.e. ákærða sem stjórnarmaður og ákærði sem varamaður í stjórn og framkvæmdastjóri, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 4. febrúar 2015. Vegna framlagningar verjenda á reikningum á hendur D ehf. taldi dómurinn rétt að að upplýsa málið frekar hvað þetta varðar. Var málið því endurupptekið 14. júní 2018 og beindi dómari því til ákæruvaldsins að afla gagna um tapaðar kröfur vegna ákæruliðar nr. 1. Gögnin voru lögð fram í þinghaldi 9. júlí 2018. Vegna þess tíma sem tók að afla gagnanna og sumarleyfa varð að endurflytja málið og var það gert 31. ágúst 2018. Ekki kom fram að fleiri viðskiptakröfur væru tapaðar en ákæruvaldið gerir athugasemdir við afskriftir vegna reikninganna á hendur D ehf.


Niðurstaða: 
Hvað varðar frávísunarkröfu ákærðu og kröfu um lækkun ákæruliðar 1, sem byggjast á því að ekki sé tekið tillit til tapaðra krafna í ákærulið 1, þá er til þess að líta að samkvæmt dómaframkvæmd veldur þetta atriði ekki frávísun máls, heldur er heimilt að horfa til þessa við ákvörðun refsingar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að öðrum skilyrðum þeirrar lagagreinar uppfylltum, sbr. t.d. dóm Landsréttar í máli nr. 477/2018, frá 22. júní 2018. Er því hafnað að vísa málinu frá eða lækka þann kröfulið á þeim grunni að ekki hafi verið tekið tillit til tapaðra krafna. 

Ákærða Guðný Hrefna hefur borið að að hún hafi ekki komið að rekstri félagsins þótt hún væri skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess. Það hafi verið ákærði sem hafi borið ábyrgð á rekstrinum, þ.m.t. skattskilum. Eins og rakið hefur verið bar ákærða í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra að hún hefði ekki vitað hver hefði borið ábyrgð á skattskilum en vísaði til manns að nafni C. Ekkert hefur komið fram um að C þessi hafi komið að rekstri félagsins á því tímabili sem ákæra málsins tekur til. Í skýrslu hjá héraðssaksóknara og fyrir dóminum bar ákærða hins vegar að ákærði hefði alfarið séð um rekstur félagsins, allt sem hún hefði gert hefði verið að beiðni hans. Hún hafi einungis sinnt skrifstofustörfum fyrir félagið. Hefur meðákærði staðfest þennan framburð ákærðu. Að mati dómsins er þessi framburður ákærðu í andstöðu við gögn málsins. Þvert á móti gefa gögnin til kynna að ákærða hafi starfað sem framkvæmdastjóri og verið ágætlega inni í rekstri félagsins, en hún var í tölvupóstsamskiptum við Tollstjóra haustið 2015 þar sem hún leggur drög að samkomulagi um greiðslur opinberra gjalda og útskýrir að slæm fjárhagsleg staða sé tilkomin vegna þess að félagið hafi tapað stórri kröfu af völdum gjaldþrots viðskiptavinar. Nú sé hins vegar bjartara útlit fyrir félagið. Ekki stenst að að ákærða hafi átt í þessum samskiptum við Tollstjóra sem og lögmannsstofuna J algjörlega fjarstýrð af ákærða, eins og hún lætur að liggja. Auk þessara samskipta er til þess að líta að ákærða stofnaði bankareikning fyrir félagið og var skráð sem prókúruhafi reikningsins. Þá ritaði ákærða undir leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts. Enn fremur voru ákærðu greidd laun fyrir vinnu sína fyrir félagið, tæpar fjórar milljónir kr. Framburður verktakanna H og I breytir ekki þessari niðurstöðu, enda gátu þeir ekki borið hvernig skrifstofuhaldi félagsins hefði verið háttað heldur laut framburður þeirra einungis að því að meðákærði Y hefði stjórnað framkvæmdum þess. Samkvæmt framangreindu er framburði ákærðu hafnað og verður hún því sakfelld fyrir háttsemi þá sem henni er gefin að sök í ákæru. Þegar litið er til fjárhæða eru brotin talin meiri háttar og réttilega heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. 

Hvað varðar ákærða Y þá verður að horfa til játningar hans, sem fær stoð í framburði vitnanna H og I, og leggja til grundvallar að hann hafi stýrt daglegum rekstri félagsins ásamt ákærðu. Sú málsástæða ákærða að einungis sé unnt að sakfella einn mann fyrir brot þessi er ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þegar litið er til fjárhæða eru brotin talin meiri háttar og réttilega heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing og sakarkostnaður: 

Kemur þá til skoðunar hvort taka eigi tillit til tapaðra krafna A ehf. á hendur D ehf. við ákvörðun refsingar í málinu og hvort heimilt sé að fara niður fyrir sektarlágmark það sem kveðið er á um í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þ.e. fésekt sem nemur tvöfaldri skattfjárhæð. Skilyrði þess að tekið sé tillit til þessara töpuðu krafna er að verulegur hluti skattfjárhæðar hafi verið greiddur og að skýrsluskil hafi verið fullnægjandi. Hinar töpuðu kröfur byggjast á reikningum sem falla undir uppgjörstímabilið nóvember – desember 2014 og er sannað að ákærðu stóðu ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna þess uppgjörstímabils. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til skoðunar að fara niður fyrir sektarlágmarkið.

Ákærði Y var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. mars 2017 [...], dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað til tveggja ára héldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá var hann dæmdur til að greiða 87.300.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. Voru brotin sem hann var sakfelldur fyrir gegn sömu lagaákvæðum og í þessu máli. Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds refsidóms. Verður dómurinn því tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 60. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði, eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 145.100.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. 

Refsing ákærðu Guðnýjar Hrefnu þykir hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði, eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða dæmd til að greiða 56.000.000 kr. í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. Ákærðu verða dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð: 

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 18 mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað til tveggja ára haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 145.100.000 króna í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákærða, Guðný Hrefna Leifsdóttir, sæti fangelsi í átta mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað til tveggja ára haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærða greiði 56.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í 12 mánuði. 

Ákærði Y greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, 400.000 krónur. 

Ákærða Guðný Hrefna greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns, 1.000.000 króna.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum