2020

Dómur Landsréttar 17. janúar 2020 í máli nr. 311/2019

17.1.2020

Dómur föstudaginn 17. janúar 2020.

Mál nr. 311/2019:

Ákæruvaldið
(Einar Tryggvason saksóknari)

gegn

Birgi S. Bjarnasyni
(Sveinn Jónatansson lögmaður)

Lykilorð
Staðgreiðsla opinberra gjalda.

Útdráttur

B var ákærður fyrir brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri Í hf. með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið hafði verið eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins vegna nánar tilgreindra greiðslutímabila. B byggði kröfu sínu á sýknu meðal annars á því að greiðslum og inneignum Í hf. vegna ofgreidds virðisaukaskatts hefði ekki verið ráðstafað í samræmi við þær forgangsreglur sem innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að fara eftir. Taldi hann að ef greiðslunum hefði verið ráðstafað í samræmi við þessar forgangsreglur hefðu allar kröfur vegna staðgreiðslu skatta verið greiddar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að fimm greiðslum Í hf. hefði ranglega verið ráðstafað inn á skattskuldir félagsins í gjaldflokkum sem voru neðar í forgangsröð en vanskil á staðgreiðslu launagreiðanda. En þrátt fyrir að ráðstöfunin hefði farið fram með réttum hætti hefðu vanskil verið veruleg á öllu tímabilinu. Voru brot B gegn lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda talin stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði skilorðsbundið í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða fésekt. Við ákvörðun fésektar var tekið tillit til þeirra áhrifa sem rétt ráðstöfun greiðslna og innborgana hefði haft á vanskil vegna afdreginnar staðgreiðslu.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómarinn Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen, settur landsréttardómari og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 17. apríl 2019 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2019 í málinu nr. S-598/2018.

2 Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.

3 Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing hans verði milduð.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4 Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara útgefinni 25. september 2018 er ákærða gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf. með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið hafi verið eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna september til desember rekstrarárið 2015, febrúar til desember rekstrarárið 2016 og janúar rekstrarárið 2017, alls 24.669.819 krónum.

5 Samkvæmt gögnum málsins var Íslenska umboðssalan hf. úrskurðuð gjaldþrota 22. febrúar 2017.

6 Af hálfu ákæruvaldsins hafa verið lögð fram fyrir Landsrétti nokkur ný skjöl. Meðal þeirra er tafla sem inniheldur yfirlit yfir fjárhæðir sem ráðstafað var inn á skuldir Íslensku umboðssölunnar hf. á tímabilinu 16. október 2015 til 14. febrúar 2017 ásamt skýringum að baki greiðslum félagsins og ráðstöfun endurgreiðslna úr ríkissjóði. Einnig hafa verið lögð fram gögn til stuðnings þessum skýringum.

Niðurstaða
7 Krafa ákærða um sýknu er meðal annars studd þeim rökum að þegar efnahagshrunið skall á Íslandi á árinu 2008 hafi Íslenska umboðssalan hf. lent í miklum rekstrarerfiðleikum vegna gengistryggðra lána sem hækkað hafi gríðarlega vegna gengisbreytinga. Félagið hafi verið í bankaviðskiptum við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem hafi verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu á árinu 2009 og skilanefnd og síðar slitastjórn tekið yfir stjórn sparisjóðsins. Allt eignasafn félagsins hafi verið flutt yfir í félagið Dróma hf. sem hafi átt allsherjarveð í öllum eignum og kröfum Íslensku umboðssölunnar hf. Ljóst hafi verið að félagið þyrfti að ná samkomulagi við Dróma hf. um niðurfellingu skulda umfram það sem félagið réði við að greiða en sú lína hefði verið lögð hjá öðrum slitastjórnum að semja við félög með góðan undirliggjandi rekstur um niðurfellingu skulda. Drómi hf. hafi hins vegar skorið sig úr að þessu leyti og slíkt samkomulag ekki náðst. Eignir Dróma hf. hafi síðar verið fluttar í Hildu ehf., sem hafi verið dótturfélag Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., sem aftur hafi verið dótturfélag Seðlabanka Íslands. Allar greiðslur fyrir afurðir félagsins hafi runnið til Dróma hf. og síðar Hildu ehf. sem ráðstafað hafi greiðslum til félagsins og þeirra kröfuhafa félagsins sem nauðsynlegt þótti að greiða til að halda starfsemi þess gangandi. Félaginu hafi því í raun verið stjórnað af Hildu ehf. Allt hafi verið gert til að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins og hafi það tekist um árabil. Kröfuhafar félagsins hafi lengi haft trú á að unnt væri að leysa vandamál þess en á endanum hafi einn kröfuhafi keyrt félagið í þrot. Aldrei hafi verið ásetningur ákærða eða annarra sem að félaginu stóðu að hlaupast undan greiðslu skulda enda hafi þeir trúað því að samningar næðust um gengistryggðar skuldir.

8 Ákærði bar fyrir héraðsdómi að hann hefði verið framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf. og borið ábyrgð á daglegum rekstri þess og skattskilum á því tímabili sem ákæran tekur til. Eins og fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms hefur ákærði kannast við að rétt sé farið með tölur í ákærunni og að fjárhæðir í henni séu í samræmi við það sem fram hafi komið í skilagreinum félagsins. Hann taldi skilagreinarnar gefa rétta mynd af launagreiðslum félagsins. Þó taldi hann að laun samkvæmt síðustu skilagreininni hefðu að litlum hluta verið greidd.

9 Í dómaframkvæmd Hæstaréttar í sakamálum vegna skattalagabrota, sem falist hafa í því að virðisaukaskatti eða staðgreiðslu launa hefur ekki verið skilað í ríkissjóð, hefur ekki verið fallist á að varnir sem byggjast á erfiðleikum í rekstri félaga og fjárskorti hafi leitt til sýknu. Því verður ekki fallist á með ákærða að þær þrengingar í rekstri Íslensku umboðssölunnar hf. fyrir gjaldþrot félagsins sem ákærði hefur lýst og þær hömlur sem veðhafi setti á ráðstöfun tekna af afurðasölu félagsins geti leitt til sýknu en refsiábyrgð er byggð á því að staðgreiðslu sé ekki skilað til ríkissjóðs af greiddum launum.

10 Ákærði byggir kröfu sína um sýknu jafnframt á því að greiðslum Íslensku umboðssölunnar hf. til innheimtumanns ríkissjóðs og endurgreiðslum til félagsins á inneignum vegna ofgreidds virðisaukaskatts hafi ekki verið ráðstafað í samræmi við þær forgangsreglur sem um slíkar endurgreiðslur hafi gilt allt frá árinu 1995. Þá byggir hann á því að félagið hafi ekki gefið sérstök fyrirmæli um ráðstöfun greiðslna. Umræddar reglur hafi frá upphafi tekið mið af því að greiðslum og inneignum væri ráðstafað á þann veg sem skattgreiðanda væri hagfelldastur. Telur ákærði að rannsókn skattrannsóknarstjóra og lögreglu hvað þetta atriði varðar hafi verið ábótavant en rétt hefði verið að skoða ráðstöfun slíkra greiðslna og inneigna allt frá árinu 2013. Telur ákærði sig hafa sýnt fram á að hefði þeim verið ráðstafað í samræmi við þessar forgangsreglur hefðu allar kröfur vegna staðgreiðslu skatta sem ákæra taki til verið greiddar.

11 Í greinargerð ákærða til Landsréttar er að finna töflu sem hann telur sýna greiðslur frá Íslensku umboðssölunni hf. til tollstjóra og endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts og hvernig hefði átt að ráðstafa þeim með réttum hætti upp í skuld vegna staðgreiðslu.

12 Af hálfu ákærða er jafnframt vísað til þess að Íslenska umboðssalan hf. hafi um langt árabil selt sjávarafurðir úr landi og þar af leiðandi ekki innheimt virðisaukaskatt af seldum afurðum. Hins vegar hafi félagið greitt virðisaukaskatt af innlendum aðföngum og innskattur hafi því að jafnaði verið mun hærri en útskattur. Félagið hafi því að jafnaði átt umtalsverðar inneignir hjá ríkissjóði sem ráðstafað hafi verið af innheimtumanni ríkissjóðs inn á skattskuldir félagsins í öðrum gjaldflokkum. Ákærði hafi treyst því að þessum inneignum væri ráðstafað til greiðslu á þeim skattskuldum sem voru mest íþyngjandi fyrir félagið og ákærða.

13 Þeim nýju gögnum sem ákæruvaldið hefur lagt fram fyrir Landsrétti er ætlað að upplýsa og skýra hvernig greiðslum og inneignum Íslensku umboðssölunnar hf. var í raun ráðstafað og hvaða forsendur lágu þar að baki. Ákæruvaldið hefur lagt fram töflu sem hefur að geyma samantekt á ráðstöfun allra greiðslna og inneigna og eru upplýsingarnar í henni í samræmi við rannsóknargögn. Þá voru lögð fram gögn sem tengjast umræddum ráðstöfunum en mörg þeirra eru til þess fallin að styðja varnir ákærða. Líta verður svo á að með framlagningu þessara gagna hafi ákæruvaldið brugðist við þeim vörnum sem fram komu með almennum hætti af hálfu ákærða í héraði en settar voru fram með mun nákvæmari hætti í greinargerð hans til Landsréttar og stuðla að því að sakarefni yrðu sem best upplýst. Ákærði hefur haft tækifæri til að bregðast við þessum nýju gögnum og verða þau því lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.

14 Þær reglur sem ákærði hefur vísað til er meðal annars að finna í bréfi fjármálaráðuneytisins til Ríkisbókhalds 19. september 1995 varðandi forgang greiðslna og skuldajöfnuð „í hinu nýja Tekjubókhaldskerfi ríkisins“. Í bréfinu er að finna reglur um greiðsluforgang, meðal annars um forgangsröðun greiðslna innan gjaldflokks og á milli gjaldflokka en einnig um skuldajöfnuð inneigna, þar á meðal vegna úrskurðaðra endurgreiðslna samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Í þessum reglum er meðal annars í kafla A.1 mælt fyrir um að greiðslu frá skuldara á gjaldföllnum skattkröfum innan sama gjaldflokks, sem aðeins nægi fyrir hluta af heildarskuld, skuli ávallt ráðstafað fyrst upp í elstu skuld og forgangurinn skuli þá vera að fyrst greiðist kostnaður, síðan vextir, höfuðstóll, skattsekt og síðast innheimtuþóknun. Í kafla 3.1 segir meðal annars að skuld vegna hvers árs eða tímabils skuli greidd upp áður en byrjað er á því næsta. Um forgangsröðun gjaldflokka við ráðstöfun á úrskurðuðum endurgreiðslum á virðisaukaskatti var fjallað í kafla II.C.4 og um það vísað til bréfs ráðuneytisins 24. júní 1994. Samkvæmt því var forgangsröðunin, að því leyti sem hér skiptir máli, sú að inneign skyldi fyrst ráðstafað innan gjaldflokks, síðan til greiðslu skuldar vegna virðisaukaskatts, þá til staðgreiðslu opinberra gjalda, síðan til greiðslu tryggingagjalds og þannig koll af kolli.

15 Sambærilegar reglur um forgang við ráðstöfun greiðslna innan gjaldflokks og milli gjaldflokka var að finna í handbók fjármálaráðuneytisins um innheimtu opinberra gjalda, 2. útgáfu 1997. Í grein 3.1.2 um forgangsröðun greiðslna á milli gjaldflokka sagði meðal annars að sendi gjaldandi greiðslu án þess að tilgreina hvaða kröfu hann væri að greiða skyldi greiðslunni ráðstafað í samræmi við forgangsröðun gjaldflokka.

16 Í bréfi fjármálaráðuneytisins 6. apríl 2009 til Fjársýslu ríkisins kemur fram að ráðuneytið hafi ákveðið að gera breytingar á núgildandi reglum um ráðstöfun greiðslu skulda vegna vangoldinna skatta og gjalda. Með breytingunum muni forgangsröðun greiðslna verða með þeim hætti að greiðslu skuldara verði fyrst ráðstafað til greiðslu kostnaðar vegna skuldar, þá til greiðslu höfuðstóls skuldar og loks til greiðslu vaxta og vanskilaálagi vegna skuldar. Þegar um væri að ræða gjalda- og skattkröfur fleiri en eins árs eða tímabils í tilteknum gjaldflokki skyldi greiðsla skulda „sem aðeins nægir fyrir hluta af heildarskuld, alltaf ganga fyrst upp í elsta ár eða tímabil.“

17 Um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda gilda nú reglur fjármála- og efnahagsráðuneytisins 8. september 2016 sem birtar voru í B-deild stjórnartíðinda 22. september með númerinu 797/2016. Sams konar reglur og að ofan er lýst er þar að finna í 2. gr. um greiðsluforgang elstu skuldar innan gjaldflokks og í 4. gr. um greiðsluforgang milli gjaldflokka en þar segir: „Sendi gjaldandi greiðslu án þess að tilgreina hvaða kröfu hann er að greiða og sé ekki kveðið á um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum skal greiðslunni ráðstafað í samræmi við eftirfarandi forgangsröðun: 1. Virðisaukaskattur. 2. Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars. 3. Staðgreiðsla tryggingagjalds og fjársýsluskatts. 4 Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur“ og svo koll af kolli. Í 7. gr. sem fjallar um skuldajöfnun inneigna í virðisaukaskatti sagði: „Endurgreiðslu mismunar innskatts og útskatts virðisaukaskatts skal skuldajafna á móti kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, samkvæmt forgangsröðun 4. gr. Heimilt er að skuldajafna inneign í virðisaukaskatti upp í gjaldfallið útsvar.“

18 Umræddar forgangsreglur um ráðstöfun greiðslna og inneigna milli gjaldflokka byggjast öðrum þræði á því sjónarmiði að greiðslum og inneignum eigi að ráðstafa til að greiða þær skattkröfur sem eru þungbærastar fyrir greiðanda og eftir atvikum stjórnanda sem getur borið refsiábyrgð vegna vanskila.

19 Framangreindar reglur eru jafnframt í samræmi við dómaframkvæmd í málum vegna skattalagabrota, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000, 2. október 2003 í máli nr. 27/2003 og 19. janúar 2012 í máli nr. 413/2011.

20 Fallist er á þær varnir ákærða að innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að ráðstafa greiðslum Íslensku umboðssölunnar hf. í samræmi við þessar reglur, fyrirmæli og dómaframkvæmd. Þá verður að líta svo á að forgangsreglur um ráðstöfun greiðslna og inneigna milli gjaldflokka gangi framar þeirri reglu að ráðstafa skuli greiðslu upp í elstu skuld sem aðeins gildi þegar kemur að því að ráðstafa greiðslu og inneign á skuldir eftir tímabilum og árum innan gjaldflokks.

21 Samkvæmt framansögðu lýtur ákæran að staðgreiðslu samkvæmt skilagreinum Íslensku umboðssölunnar hf. fyrir fjögur greiðslutímabil á árinu 2015, ellefu greiðslutímabil á árinu 2016 og janúar 2017. Nánar tiltekið er um að ræða staðgreiðslu launagreiðanda á tekjuskatti og útsvari sem auðkenndur er sem gjaldflokkur SK í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Frá heildarstaðgreiðslufjárhæð vegna þessara tímabila, samtals 27.039.765 krónum samkvæmt skilagreinunum, hefur ákæruvaldið dregið staðgreiðslu vegna ákærða sjálfs, samtals 2.369.946 krónur vegna þessara sömu tímabila, og lýtur ákæran því að vangoldinni staðgreiðslu að fjárhæð 24.669.819 krónur.

22 Samkvæmt fyrrnefndri samantekt sem lögð hefur verið fram af ákæruvaldsins hálfu var á tímabilinu október 2015 til febrúar 2017 ráðstafað 16 greiðslum frá Íslensku umboðssölunni hf. og endurgreiðslum úr ríkissjóði, samtals að fjárhæð 36.552.911 krónum, inn á skattskuldir félagsins. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að til viðbótar þessum fjárhæðum var 505.319 króna inneign félagsins vegna virðisaukaskatts ráðstafað með millifærslu 13. febrúar 2017 inn á skuld vegna staðgreiðslu fyrir september 2015 sem er elsta tímabilið sem ákært er vegna.

23 Skýringum ákæruvaldsins að baki ráðstöfun fyrrnefndra greiðslna frá félaginu og inneigna vegna endurgreiðslu að fjárhæð 36.552.911 krónur má skipta í nokkra flokka.

24 Í fyrsta lagi hefur ákæruvaldið skýrt ráðstöfun fjögurra greiðslna og inneigna, samtals að fjárhæð 4.008 krónur, þannig að um ráðstafanir innan sama gjaldflokks hafi verið að ræða eða ráðstöfun greiðslu inn á skuld vegna virðisaukaskatts í gjaldflokki VA. Þannig hafi 11 krónum verið skuldajafnað innan gjaldflokks VA 16. október 2015, 1.234 krónum hafi verið skuldajafnað 24. október 2015 innan gjaldflokks AB, sem eru þinggjöld lögaðila, 2.408 króna greiðslu hafi verið ráðstafað 28. nóvember 2015 inn á skuldir í gjaldflokki VA og 355 krónum hafi verið skuldajafnað 10. febrúar 2016 innan gjaldflokks VA. Fallist er á með ákæruvaldinu að með þessum skýringum hafi verið sýnt fram á að umræddar ráðstafanir hafi verið í samræmi við fyrrnefndar forgangsreglur. Ekki verður því fallist á með ákærða að innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að ráðstafa umræddum greiðslum og inneignum til greiðslu á skuldum vegna vangoldinnar staðgreiðslu sem ákæran lýtur að.

25 Í öðru lagi byggir ákæruvaldið á því að í fjórum tilvikum hafi endurgreiðslum úr ríkissjóði vegna virðisaukaskatts, samtals 13.523.479 krónum, verið ráðstafað á umræddu tímabili til greiðslu eldri skulda í gjaldflokki SK, sem sé staðgreiðsla launagreiðanda á tekjuskatti og útsvari. Um er að ræða endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 1.770.750 krónur vegna tímabils 32, 2015 sem ráðstafað hafi verið 1. desember 2015 til greiðslu á staðgreiðslu samkvæmt gjaldflokki SK fyrir tímabil 03, 2015. Endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 473.062 krónur vegna tímabils 40, 2015 hafi verið ráðstafað 21. desember 2015 til greiðslu á staðgreiðslu samkvæmt gjaldflokki SK fyrir tímabil 04, 2015. Endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 4.853.729 krónur vegna tímabils 48, 2015 hafi verið ráðstafað 23. febrúar 2016 til greiðslu á staðgreiðslu samkvæmt gjaldflokki SK fyrir tímabil 03 og 04, 2015, sem og tímabil 01, 2016. Fyrir liggur að staðgreiðsla vegna síðastnefnda tímabilsins nam 2.621.614 krónum og því var 2.232.115 krónum af þessari fjárhæð ráðstafað til greiðslu á eldri skuldum vegna staðgreiðslu en ákært er vegna. Loks sé um að ræða endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 6.425.938 krónur vegna tímabils 40, 2016 sem ráðstafað hafi verið 13. febrúar 2017 vegna staðgreiðslu samkvæmt gjaldflokki SK vegna tímabila 06, 07 og 09, 2015, þar af 505.319 vegna fyrsta tímabilsins sem ákært er vegna. Þegar litið er til þessara skýringa og gagna sem styðja þær þykir í ljós leitt að þessum inneignum vegna virðisaukaskatts hefur verið ráðstafað til greiðslu á eldri skattskuldum félagsins innan sama gjaldflokks og þær skattskuldir eru í, sem ákært er vegna. Þá var inneigninni annars vegar varið til að greiða eldri skattskuldir í þessum sama gjaldflokki sem ákært er vegna og hins vegar skattskuld vegna tímabils 01, 2016 sem ekki er ákært vegna. Samkvæmt því er fallist á með ákæruvaldinu að með þessum skýringum hafi verið sýnt fram á að umræddar ráðstafanir hafi verið í samræmi við fyrrnefndar forgangsreglur. Ekki verður því fallist á með ákærða að innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að ráðstafa umræddri inneign til greiðslu á þeim skattskuldum sem ákæran lýtur að.

26 Í þriðja lagi byggir ákæruvaldið á því að í fjórum tilvikum á umræddu tímabili hafi greiðslum frá Íslensku umboðssölunni hf. verið ráðstafað í samræmi við fyrirmæli félagsins inn á skattskuldir í öðrum gjaldflokkum en staðgreiðslu launagreiðanda á tekjuskatti og útsvari samkvæmt gjaldflokki SK. Samkvæmt skýringum ákæruvaldsins greiddi félagið 5.600.000 krónur til innheimtumanns ríkissjóðs 23. júní 2016 með fyrirmælunum: „Staðgr. Tryggingagj. 201501 til 201506“ og hafi greiðslunni verið ráðstafað í samræmi við þessi fyrirmæli til greiðslu tryggingagjalds í gjaldflokki SJ. Þá var samkvæmt skýringum ákæruvaldsins 2.000.000 króna greiðslu Íslensku umboðssölunnar hf. til innheimtumanns ríkissjóðs 24. júní 2016, með greiðslufyrirmælunum „tryggingagjald 201507, 201509 og hluti 201510“, ráðstafað í samræmi við þessi fyrirmæli til greiðslu tryggingagjalds í gjaldflokki SJ. Tilkynning um þessa millifærslu frá félaginu í netbanka Kviku banka er meðal gagna málsins. Þá hefur af hálfu ákæruvaldsins verið byggt á því að 6. ágúst 2016 hafi innheimtumanni ríkissjóðs borist 59.971 krónu gírógreiðsla frá Íslensku umboðssölunni hf. og önnur slík greiðsla að fjárhæð 65.426 krónur 6. október 2016. Samkvæmt gögnum málsins var um að ræða greiðslur á virðisaukaskatti vegna tímabilanna 201624 og 201632 og þeim ráðstafað í samræmi við það. Þegar litið er til þessara skýringa og gagna sem styðja þær þykir í ljós leitt að 7.725.397 krónum af þessum greiðslum Íslensku umboðssölunnar hf. var ráðstafað í samræmi við greiðslufyrirmæli félagsins og að hluta til greiðslu virðisaukaskatts. Sama á við um ráðstöfun inneigna í gjaldflokki AB innan sama gjaldflokks 23. júní 2016. Samkvæmt því er fallist á með ákæruvaldinu að með þessum skýringum hafi verið sýnt fram á að ráðstöfun umræddra fjárhæða hafi verið í samræmi við fyrrnefndar reglur. Ekki verður því fallist á með ákærða að innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að ráðstafa umræddum fjárhæðum til lækkunar á þeim staðgreiðsluskuldum sem ákæran lýtur að. Um ráðstöfun á inneign vegna virðisaukaskatts 23. júní 2016 inn á skuld vegna tryggingagjalds gegnir öðru máli eins og síðar verður vikið að.

27 Í fjórða lagi kveður ákæruvaldið að á umræddu tímabili hafi verið um að ræða fjögur tilvik þar sem greiðslum frá Íslensku umboðssölunni hf., sem inntar voru af hendi án greiðslufyrirmæla, og inneignum vegna virðisaukaskatts, samtals að fjárhæð 14.537.312 krónur, var ráðstafað inn á skattskuldir félagsins í öðrum gjaldflokkum en vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu skatta og útsvars. Um hafi verið að ræða ráðstöfun á 8.000.000 króna millifærslu frá félaginu 15. janúar 2016 án greiðslufyrirmæla sem ráðstafað hafi verið inn á skuld vegna vangoldinnar staðgreiðslu tryggingagjalds í gjaldflokki SJ. Einnig hafi endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 529.163 krónur verið ráðstafað með skuldajöfnuði 20. apríl 2016 til greiðslu á skuld félagsins á þinggjöldum lögaðila í gjaldflokki AB. Þá hafi 5.700.000 króna greiðslu frá félaginu 20. júní 2016 verið ráðstafað til greiðslu á vanskilum vegna tryggingagjalds í staðgreiðslu. Loks hafi 308.149 króna inneign félagsins vegna virðisaukaskatts verið ráðstafað 14. febrúar 2017 inn á skuld þess í gjaldflokki KA sem er greiðslufrestur í tolli. Af ákæruvaldsins hálfu hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á þessa ráðstöfun greiðslna og inneigna. Að auki kemur fram í gögnum málsins að 660.014 króna inneign félagsins vegna virðisaukaskatts var ráðstafað 23. júní 2016 inn á skattskuldir þess í öðrum gjaldflokkum en virðisaukaskatti og gjaldflokki SK. Samkvæmt því sem að framan greinir var umræddum greiðslum og inneignum félagsins, samtals að fjárhæð 15.197.326 krónur, ekki ráðstafað inn á skattskuldir þess í samræmi við þær reglur sem innheimtumönnum ríkissjóðs höfðu samkvæmt framansögðu verið settar um greiðsluforgang og voru í samræmi við lög og dómaframkvæmd í sakamálum vegna skattalagabrota.

28 Af hálfu ákærða er á því byggt að Íslenska umboðssalan hf. hafi engin laun greitt fyrir janúar 2017. Fyrir liggur að félagið skilaði skilagrein um greidd laun og afdregna staðgreiðslu vegna þess tímabils eins og annarra tímabila sem ákært er fyrir en á þeim upplýsingum bar ákærði, sem framkvæmdastjóri félagsins, ábyrgð. Með hliðsjón af því og með vísan til þess að engin gögn liggja fyrir í málinu sem gefa vísbendingu um að laun hafi ekki verið greidd í janúar þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að þau hafi verið greidd og 1.283.299 króna staðgreiðslu af þeim hafi verið haldið eftir. Fyrir liggur hins vegar að ákærða sjálfum voru ekki greidd laun vegna þessa tímabils.

29 Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ekkert álag samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda hafi verið lagt á umrædd vanskil og kemur því ekki til þess að slíkt álag verði dregið frá við ákvörðun viðurlaga, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

30 Fyrir liggur að Íslenska umboðssalan hf. skilaði skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra tímabila sem ákært er vegna en skilaði ekki staðgreiðslunni í ríkissjóð. Á því bar ákærði ábyrgð.

31 Samkvæmt framansögðu var hins vegar ráðstafað af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs fimm greiðslum frá Íslensku umboðssölunni hf. og inneignum vegna virðisaukaskatts, samtals að fjárhæð 15.197.326 krónur, inn á skattskuldir félagsins í gjaldflokkum sem voru neðar í forgangsröð en vanskil á staðgreiðslu launagreiðanda en þessum greiðslum hefði með réttu átt að ráðstafa til lækkunar á elstu skuldum vegna staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars. Þá er í ljós leitt að fjórum greiðslum félagsins og inneignum á tímabilinu október 2015 til febrúar 2017, að fjárhæð samtals 13.523.479 krónur, var í raun ráðstafað inn á skuldir vegna staðgreiðslu, þar af 10.396.546 krónum til lækkunar á eldri skuldum vegna staðgreiðslu en ákært er fyrir en 2.621.614 krónum inn á staðgreiðslu vegna janúarmánaðar 2016 og jafnframt 505.319 krónum inn á staðgreiðsluskuld vegna september 2015. Þegar umfang vanskila á staðgreiðslu launagreiðanda á eldri tímabilum en ákært er fyrir eru virt, en gögn málsins gefa til kynna að 10.396.546 krónur af greiðslum og innborgunum á tímabilinu hafi verið ráðstafað til að greiða þær, og hvernig þessi vanskil hefðu þróast á tímabilinu sem ákæran tekur til ef öllum greiðslum og innborgunum hefði verið ráðstafað með réttum hætti er ljóst að þær ráðstafanir hefðu í engum tilvikum nægt til að gera upp uppsöfnuð vanskil í gjaldflokknum eins og þau voru í hverjum mánuði. Vanskil voru því eftir sem áður veruleg og langvarandi á öllu því tímabili sem ákært er vegna.

32 Ákærði hefur ekki leitt að því líkum að rannsókn á ráðstöfun greiðslna og inneigna Íslensku umboðssölunnar hf. fyrir upphaf fyrsta greiðslutímabilsins sem ákært er fyrir og allt aftur til 2013 hefði skipt nokkru um sakarefni málsins eða varnir hans í því.

33 Þar sem ákærði hefur þannig af stórkostlegu hirðuleysi, látið farast fyrir að inna af hendi þær greiðslur vegna launamanna Íslensku umboðssölunnar hf. sem haldið var eftir eða bar að halda eftir, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Framangreind brot ákærða gegn lögum nr. 45/1987 teljast stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið þykir rétt að ákærði sæti þriggja mánaða fangelsi og verður sú refsing skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir.

34 Ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 kveða á um fésektarlágmark í tilviki eins og því sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða. Verður fésekt ákveðin sem nemur tvöfaldri afdreginni staðgreiðslu þegar litið hefur verið til þess hvernig greiðslum félagsins og innborgunum var samkvæmt framansögðu raunverulega ráðstafað inn á eldri og yngri skuldir vegna staðgreiðslu. Jafnframt, hvernig skuld vegna staðgreiðslu á þeim tímabilum sem ákært er vegna hefði samkvæmt framansögðu lækkað enn frekar ef áðurnefndum fimm greiðslum og inneignum Íslensku umboðssölunnar hf. hefði verið ráðstafað í samræmi við þær forgangsreglur sem innheimtumanni ríkissjóðs bar að fara eftir. Er samkvæmt því fallist á með ákærða að hann verði við ákvörðun fésektar látinn njóta þessara fimm greiðslna og inneigna með þeim hætti sem hagfelldast er fyrir hann, að því leyti sem þær hefðu með réttu átt að koma til lækkunar á þeim skuldum vegna vangoldinnar staðgreiðslu sem ákæran lýtur að. Sama á við um ráðstöfun inneignar vegna virðisaukaskatts 13. febrúar 2017 inn á skuld vegna vangoldinnar staðgreiðslu á elsta tímabilinu sem ákært er fyrir. Af þessum greiðslum og inneignum sem með réttum hætti var ráðstafað inn á staðgreiðsluskuldir og þeim greiðslum og inneignum sem hefði átt að ráðstafa með sama hætti, samtals að fjárhæð 28.720.805 krónur, komu sem fyrr segir 10.396.546 krónur til greiðslu eldri skulda en ákært er fyrir og 2.621.614 krónur komu til greiðslu staðgreiðslu vegna janúar 2016, sem ekki er ákært fyrir. Samkvæmt því hefðu með réttu átt að dragast samtals 15.702.645 krónur frá samtals 27.069.765 króna staðgreiðslu samkvæmt skilagreinum á þeim tímabilum sem ákæran tekur til. Vegna skorts á rannsóknargögnum verður ákærði látinn njóta þess að ekki er upplýst hvaða vextir og kostnaður féll á skuldina á umræddum tíma. Samkvæmt því verður miðað við að vanskil félagsins í lok tímabilsins hafi verið 11.367.120 krónur en frá þeirri fjárhæð dregst 2.369.946 króna staðgreiðsla sem haldið var eftir af launum ákærða sjálfs á þeim tímabilum sem ákært er vegna og tekur fjárhæð sektar mið af mismuninum sem er 8.999.174 krónur. Fésekt ákærða vegna brotanna verður samkvæmt því ákveðin 18.000.000 króna og komi 240 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma sem í dómsorði greinir.

35 Ákærða verður gert að greiða helming sakarkostnaðar í héraði eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi og helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er ákveðinn samtals 874.852 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Birgir S. Bjarnason, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 18.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 240 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, svo og helming áfrýjunarkostnaðar málsins, 874.852 krónur, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Sveins Jónatanssonar lögmanns, 843.200 krónur.

Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2019

I

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 25. september 2018, á hendur Birgi S. Bjarnasyni, kt. […], […], „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf., kt. […], (nú afskráð) með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2015, febrúar til og með desember rekstrarárið 2016 og janúar rekstrarárið 2017, samtals að fjárhæð 24.669.819 krónur, sem sundurliðast svo:

Árið 2015 
september   kr.     2.383.758 
október        kr.     2.354.252 
nóvember    kr.     2.551.619 
desember    kr.     2.351.523

                       kr.    9.641.152

Árið 2016 
febrúar          kr.    2.353.433 
mars              kr.    2.024.691 
apríl               kr.    1.180.745 
maí                kr.    1.172.187 
júní                kr.    1.029.561 
júlí                 kr.    1.036.704 
ágúst             kr.   1.110.731 
september   kr.      909.859 
október        kr.       942.054 
nóvember    kr.   1.223.027 
desember    kr.         762.37 
                       kr. 13.745.368

Árið 2017 
janúar           kr.     1.283.299

Samtals       kr. 24.669.819 

Þetta telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að málsvarnarlaun og annar sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. 

II

Málavextir eru þeir að skattrannsóknarstjóri rannsakaði skil framangreinds hlutafélags á afdreginni staðgreiðslu. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ekki hefði verið skilað þeim fjárhæðum sem í ákæru greinir og eru vegna þeirra tímabila er þar eru greind. Tekin var skýrsla af ákærða, bæði hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, og bar hann þar efnislega á sama veg og fyrir dómi. Við aðalmeðferð bar ákærði að hafa verið framkvæmdastjóri nefnds hlutafélags á þeim tíma sem í ákæru getur. Hann hefði gegnt stöðunni og þeim skyldum sem því voru samfara, þar á meðal að stýra daglegum rekstri félagsins og skattskilum. Hann kvað tölurnar í ákæru vera réttar, enda væru þær byggðar á gögnum sem hann gerði ekki athugasemdir við. Tölurnar gæfu rétta mynd af reiknuðum launagreiðslum félagsins, en ekki hefði náðst að greiða þau öll. Hann kvað rekstur félagsins eftir Hrun hafa verið mjög brösóttan og félagið ekki ráðið sínum fjármálum að öllu leyti. Ákærði kvað enga meðvitaða ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki staðgreiðsluna til ríkissjóðs. Félagið hafi greitt til ríkissjóðs það sem það hefði getað greitt. Aldrei hefði verið óskað eftir því að greiðslur, sem greiddar voru til ríkissjóðs, myndu renna til greiðslu á tilteknum skuldum. Hann kvaðst hafa talið að greiðslum til tollstjóra væri ráðstafað lögum samkvæmt en hann hefði ekki fylgst með því. Honum hefði þó aldrei dottið í hug að ráðstöfun á greiðslum félagsins myndi valda sér refsiábyrgð. Þá kvaðst hann alltaf hafa talið að félagið myndi ná að rétta úr kútnum og verða gjaldfært. 

III

Ákærði neitar sök en hefur viðurkennt að hafa verið framkvæmdastjóri framangreinds hlutafélags á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þá hefur hann kannast við að rétt sé farið með tölur í ákærunni. Þessum fjárhæðum hafi verið haldið eftir hjá félaginu og á því hafi hann borið ábyrgð. Sýknukrafa ákærða byggir á því að til innheimtumanns ríkissjóðs hafi runnið greiðslur sem hafi tilheyrt félaginu og ekki hafi verið tiltekið til hvers hafi átt að ráðstafa. Gera verði ráð fyrir að þeim hefði átt að ráðstafa til að skila peningum sem félagið hafi haldið eftir og ekki átt, í þessu tilfelli afdreginni staðgreiðslu. Með vísun til meðalhófsreglunnar verði að leggja þá skyldu á innheimtumann ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum fyrst inn á þær skuldir sem hafi alvarlegustu afleiðingar að greiða ekki. Þessi túlkun eigi sér einnig stoð í reglum nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda. Í greinargerð ákærða er gerð grein fyrir því að hefði innheimtumaður ráðstafað þessum fjármunum til að gera upp staðgreiðsluskuldir félagsins hefðu allir vörsluskattar þess verði greiddir að fullu á árinu 2016. Ákæruvaldið byggir á því að ákærði hafi allt frá upphafi rannsóknar borið á sama hátt um að starfsmenn hafi fengið greidd laun, nema ef vera skyldi síðasta mánuðinn. Staðgreiðslan hafi verið dregin af laununum og hafi borið að skila henni til innheimtumanns hvað svo sem liðið hefði inneign félagsins vegna annarra greiðslna. Brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við meiri háttar broti gegn, meðal annars, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í síðarnefndu greininni er það lýst refsivert ef launagreiðandi, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Samkvæmt framburði ákærða, sem fær stuðning í gögnum málsins, er sannað að framangreindum fjárhæðum var haldið eftir af launagreiðslum til starfsmanna en þeim ekki skilað til innheimtumanns. Á þessu bar ákærði ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Önnur viðskipti félagsins við innheimtumann, svo sem vegna inneignar virðisaukaskatts, fá ekki breytt þeirri skyldu að skila afdreginni staðgreiðslu í samræmi við nefnt ákvæði laga nr. 45/1987. Ákærði á ekki sakaferil og er refsing hans hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir. Þá verður hann dæmdur til að greiða 49.000.000 króna í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði segir. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn. 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Birgir S. Bjarnason, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 49.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 360 daga. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar lögmanns, 843.200 krónur.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum