2020

Dómur Landsréttar 28. febrúar 2020 í máli nr. 906/2018

28.2.2020

Dómur föstudaginn 28. febrúar 2020. 


Mál nr. 906/2018: 
Ákæruvaldið 
(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) 
gegn 
Armando Luis Rodriguez
 
(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, Jóhann Karl Hermannsson lögmaður, 3. prófmál) 

Lykilorð 
Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Bókhald. Málsmeðferð. Mannréttindasáttmáli Evrópu. 

Útdráttur 
A voru gefin að sök ýmis brot með tveimur ákæruskjölum. Við meðferð málsins í héraði játaði hann þær sakargiftir samkvæmt fyrri ákærunni að hafa gerst sekur um fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, lyfja- og tollalagabrot og umferðarlagabrot. Með síðari ákærunni voru A gefin að sök í fjórum liðum meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans. Hann játaði þá háttsemi að hluta en neitaði að öðru leyti sök. Krafðist hann meðal annars frávísunar síðari ákærunnar í heild eða að hluta, þar á meðal vegna málsmeðferðar sem hann taldi í andstöðu við 4. gr. 7. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem honum hefði með úrskurði ríkisskattstjóra þegar verið gert að greiða álag á skattstofna vegna sömu tekjuára og sakargiftir tækju til. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að við rekstur mála A hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar, sem sakargiftir samkvæmt öðrum og þriðja tölulið síðari ákærunnar lutu að, hafi verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka sáttmálans. Tali dómurinn því rétt að vísa þeim ákæruliðum frá dómi sem A hefði ekki gengist við en gera honum refsingu fyrir þann hluta sakargifta sem hann hefði játað. Með dómi Landsréttar var fallist á það mat héraðsdóms að skilyrðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans hefði ekki verið fullnægt við rekstur mála A hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvalds og dómstólum hins vegar. Í því fælist nánar tiltekið að ekki væri unnt að líta svo á að rekstur málanna hefði verið nægjanlega samþættur í tíma, sbr. einkum dóm Hæstaréttar Íslands 21. september 2017 í máli nr. 283/2016. Þessir ágallar tækju til umræddra sakargifta í heild og stæðu engin rök til þess að undanskilja í frávísun þann hluta þeirra sem A hefði játað. Var þannig öðrum og þriðja tölulið síðari ákærunnar vísað frá héraðsdómi í heild. Þá féllst Landsréttur á það mat héraðsdóms að sakfella A fyrir þau brot sem honum væru gefin að sök í fyrsta og fjórða lið sömu ákæru enda stæðu ekki efni til þess að þeim yrði vísað frá héraðsdómi á sama grunni eða af öðrum ástæðum. Var A því sakfelldur fyrir þau brot og fyrrgreind brot samkvæmt fyrri ákærunni. Refsing hans þótti hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði en fullnustu fjögurra mánaða þeirrar refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá skyldi A sæta upptöku á rafmagnsvopni, fíkniefnum og lyfjum. 

Dómur Landsréttar 

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari. 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 

1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 3. desember 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2018 í málinu nr. S-58/2018. 

2 Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd. Þá er þess krafist að ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku verði staðfest.

3 Ákærði krefst þess að ákæru 22. mars 2018 verði vísað frá dómi og honum gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna sakargifta samkvæmt ákæru 30. janúar 2018. 

Niðurstaða 

4 Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2018 er ákærði borinn sökum um fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot og lyfja- og tollalagabrot 10. desember 2016 og fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 21. febrúar 2017. Fyrir héraðsdómi játaði ákærði sök samkvæmt þessari ákæru. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða að því er tekur til þessara brota hans og heimfærslu þeirra til refsiákvæða. Umferðarlagabrot ákærða varðar nú við 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, sem tóku gildi 1. janúar 2020, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

5 Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara 22. mars 2018 eru ákærða í fjórum liðum gefin að sök „meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni“. Í fyrsta lið fyrir að hafa ekki tilkynnt virðisaukaskattsskylda starfsemi sína rekstrarárin 2013 og 2014 til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Í öðrum lið fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna eigin atvinnurekstrar fyrir tilgreind uppgjörstímabil rekstrarárin 2013 og 2014 og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð 5.727.075 krónur. Í þriðja lið fyrir að hafa ekki staðið á lögmæltum tíma skil á skattframtölum gjaldárin 2014 og 2015 vegna tekjuáranna 2013 og 2014 og fyrir að hafa síðar staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna sömu tekjuára þar sem hann hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram til skatts tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni sömu tekjuár sem borist hefðu honum með greiðslum frá verkkaupum inn á bankareikning hans. Með þessu hafi ákærði vanframtalið 
tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals 22.481.484 krónur, sem honum hafi borið að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð 8.972.623 krónur. Þá er ákærði með ákærunni í fjórða lagi sóttur til saka fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar rekstrarárin 2013 og 2014. 

6 Með hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að við rekstur mála ákærða hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar, sem sakargiftir samkvæmt 2. og 3. lið þessarar ákæru lúta að, hafi verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt héraðsdómi var af þeim sökum talið rétt að vísa frá dómi þeim liðum í þessum þætti málsins sem ákærði hafði ekki gengist við en gera honum refsingu fyrir þann hluta sakargifta sem hann hafði játað. Af hálfu ákæruvalds var unað við þessa niðurstöðu. 

7 Með vísan til forsendna héraðsdóms er á það fallist að skilyrðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmálann hafi ekki verið fullnægt við rekstur mála ákærða hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar. Í því felst nánar tiltekið að ekki er unnt að líta svo á að rekstur málanna hafi verið nægjanlega samþættur í tíma, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016. Þessir ágallar taka til umræddra sakargifta í heild og standa engin rök til þess að undanskilja í frávísun þann hluta þeirra sem ákærði hefur játað. Er það því niðurstaðan að framangreindum liðum í ákæru héraðssaksóknara 22. mars 2018 er vísað frá héraðsdómi. 

8 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í 1. og 4. lið í ákæru héraðssaksóknara enda standa ekki efni til þess að þeim verði vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli sem samkvæmt framansögðu á við um aðra ákæruliði eða af öðrum ástæðum. Eru þau brot hans þar réttilega heimfærð til 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt annars vegar og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, hins vegar. 

9 Um sakaferil ákærða er þess að geta að hann var með dómi 17. janúar 2014 sakfelldur fyrir rangar sakargiftir og umferðarlagabrot, sem meðal annars fólst í því að hann ók bifreið sviptur ökurétti, en hann var sviptur þeim rétti í þrjú ár og sex mánuði með sátt hjá lögreglustjóra 22. mars 2013. Þá gekkst ákærði 7. júlí 2015 undir greiðslu sektar fyrir slíkt brot. Loks ber að nefna að ákærða var með dómi Héraðsdóms Reykjaness 1. júlí 2019 gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði fyrir brot gegn lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem framin voru í ágúst 2016. Var refsingin ákveðin sem hegningarauki við þann dóm sem hér er til endurskoðunar.
10 Sakfelling ákærða nú tekur samkvæmt framansögðu meðal annars til brots gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt því ákvæði skal sá, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn tilgreindum ákvæðum laga um bókhald, sæta fangelsi allt að sex árum. 

11 Að framangreindu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Skal fresta fullnustu fjögurra mánaða hennar og binda almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. 

12 Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og upptöku eru staðfest. 

13 Rétt þykir að fella allan áfrýjunarkostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði greinir. 

Dómsorð: 

Vísað er frá héraðsdómi liðum 2 og 3 í ákæru héraðssaksóknara 22. mars 2018.
Ákærði, Armando Luis Rodriguez, sæti fangelsi í fimm mánuði en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 372.000 krónur. 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 23. nóvember 2018 

Mál þetta, sem dómtekið var 30. október 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með svohljóðandi ákæru 30. janúar 2018 á hendur Armando Luis Rodriguez, kt. [...], óstaðsettum í hús í Hafnarfirði, og Y, kt. [...], [...], fyrir eftirtalin brot: 

I. 

„Gegn ákærðu báðum fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa laugardaginn 10. desember 2016 á heimili ákærða Y að [...] haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 11,49 g af MDMA, 78,97 g af kókaíni og 0,90 g af maríhúana, sem lögreglan fann við leit.
Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. [...] 

II. 

Gegn ákærðu báðum fyrir vopnalagabrot með því að hafa laugardaginn 10. desember 2016 á heimili ákærða Y að [...] haft í vörslum sínum rafmagnsvopn (raflostbyssu), sem lögreglan fann við leit.
Telst brot þetta varða við c.-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. 

III. 

Gegn ákærðu báðum fyrir lyfja- og tollalagabrot, með því að hafa, laugardaginn 10. desember 2016 á heimili ákærða Y að [...] haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni lyf, sem ákærðu fluttu ólöglega hingað til lands og/eða ákærðu tóku við án þess að geta dulist að þau væru ólöglega innflutt hingað til lands, án þess að fyrir lægi markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar en lögreglan fann lyfin við leit. 1. Sustanon 111 millilítrar 2. Testosteron 154 millilítrar 3. Trenbolon 10 millilítrar 4. Clenbuterol 77 stykki 5. Mesterolon 10 stykki
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 20. gr., 32. gr. og 34. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, og 51. gr., sbr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 sem og 170. gr. og 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.
[...] 

IV. 

Gegn ákærða Armando fyrir umferðarlagabrot með því að hafa þann 21. febrúar 2017 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, norður Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
[...]
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á 11,49 g af MDMA, 78,97 g af kókaíni, 0,90 g af maríhúana, rafmagnsvopni og öllum framangreindum lyfjum (töluliðum 1-5 í ákærukafla III) samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 sem og skv. 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.“

Þá var einnig sama dag dómtekið mál sem héraðssaksóknari höfðaði með ákæru 22. mars 2018 á hendur ákærða Armando Luis Rodriguez „fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í sjálfstæðri atvinnustarfsemi með því að hafa: 
1 Ekki tilkynnt virðisaukaskattskylda starfsemi sína rekstrarárin 2013 og 2014 til skráningar hjá ríkisskattstjóra. 
2 Ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna eigin atvinnurekstrar fyrir uppgjörstímabilin mars – apríl til og með nóvember – desember rekstrarárið 2013 og janúar – febrúar til og með nóvember – desember rekstrarárið 2014 og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í starfseminni vegna sömu tímabila í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 5.727.075 krónur sem sundurliðast svo: 

906_1906_2

3 Ekki staðið á lögmæltum tíma skil á skattframtölum gjaldárin 2014 og 2015 vegna tekjuáranna 2013 og 2014 og aukinheldur síðar, fyrst eftir að rannsókn var hafin á skattskilum ákærða, staðið í janúar 2016 skil á efnislega röngum skattframtölum vegna sömu tekjuára þar sem ákærði lét undir höfuð leggjast að telja fram til skatts tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni sömu tekjuár sem borist höfðu ákærða með greiðslum frá verkkaupum inn á bankareikning hans. Tekjurnar voru skattskyldar samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Með þessu vanframtaldi ákærði tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn samtals um 22.481.484 krónur, sem honum bar að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð 8.972.623 krónur. Sú fjárhæð sundurliðast svo: 

906_3906_4
4 Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar rekstrarárin 2013 og 2014. Brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru telst varða við 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Brot ákærða samkvæmt 2. og 3. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að því er varðar 2. tölulið en sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því er varðar 3. tölulið.
Brot ákærða samkvæmt 4. tölulið ákæru telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.“

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Bæði málin voru þingfest 17. september 2018. Samkvæmt heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað dómari að málin yrðu sameinuð og þau rekin og dæmd sem eitt mál. Við þingfestingu játaði ákærði Armando skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í fyrri ákærunni og samþykkti jafnframt upptöku á þeim fíkniefnum, lyfjum og rafmagnsvopni er þar greinir. Krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Hins vegar neitaði hann sök samkvæmt síðari ákærunni. Við sama tækifæri lýsti fulltrúi ákæruvaldsins því yfir að fallið væri frá ákæru á hendur Y. Skipaður verjandi hans, Guðbjarni Eggertsson lögmaður, krafðist þá þóknunar sér til handa. Við aðalmeðferð málsins, 30. október 2018, játaði ákærði þá háttsemi sem greinir í 4. tölulið síðari ákærunnar. Jafnframt viðurkenndi hann að hafa sjálfur móttekið og hagnýtt sér greiðslur frá Múr og mál ehf., samtals að fjárhæð 8.161.717 krónur, en fjárhæð þessi kemur fram í ákæru vegna tekjuáranna 2013 og 2014, auk þess sem hann hafi ekki skilað virðisaukaskatti vegna þeirra greiðslna, að fjárhæð 2.081.234 krónur. Enn fremur viðurkenndi hann að hafa móttekið og hagnýtt sér greiðslu frá Kraftbindingum ehf., að fjárhæð 200.000 krónur, og ekki staðið skil á virðisaukaskatti af þeirri fjárhæð, 40.637 krónum. 

Málsatvik 

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra 10. október 2016 tók skattrannsóknarstjóri ákvörðun um að rannsaka bókhald og skattskil ákærða vegna sjálfstæðrar starfsemi hans rekstrarárin 2013 og 2014. Byggðist sú ákvörðun á gögnum sem komu fram í öðru máli sem einnig var til rannsóknar. Rannsóknin hófst 9. september 2015 og lauk 10. október 2016. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að ákærði hafi haft sjálfstæða starfsemi með höndum, hann hafi skilað efnislega röngum skattframtölum vegna rekstraráranna 2013 og 2014 eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst, bókhald hafi ekki verið fært, varðveislu bókhaldsgagna hafi verið ábótavant og hafi ákærða borið að gefa út sölureikninga í eigin nafni, að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og standa skil á virðisaukaskattsskýrslum. Þá hafi skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur verið vantalin, auk þess sem ekki hafi verið afhent gögn um rekstrargjöld eða innskatt vegna starfsemi ákærða. 

Í skýrslunni voru sérstaklega rannsakaðar greiðslur til ákærða frá D og fyrirtækjunum Kraftafli ehf., Múr og máli ehf., Flottu máli ehf., Kraftbindingum ehf. og TS málun ehf. /Atalfli ehf. Í öllum tilvikum var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að ákærði hafi verið verktaki og haft með höndum sjálfstæða starfsemi á þeim tíma sem rannsóknin tók til. Allir reikningar til verkkaupa voru ýmist gefnir út af TS málun ehf. eða SBM ehf. Framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður í aðalstjórn þeirra félaga var B. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði B að hann hefði gert samkomulag við nokkra einstaklinga, m.a. ákærða, um að þeir mættu gefa út sölureikninga í nafni TS málunar ehf. vegna vinnu þeirra. Þessir aðilar hefðu þá sjálfir samið við verkkaupa og séð um verkið, en hann hefði ekkert komið að því. Fyrir þetta áttu þessir aðilar að greiða honum helming af innheimtum virðisaukaskatti, eða um 10% af heildarfjárhæð hvers reiknings. Í raun hefðu þessir aðilar verið með sjálfstæða starfsemi og fengið að nota kennitölu TS málunar ehf. Hefðu þeir fengið sitt greitt inn á sinn bankareikning, en hann síðan fengið það sem honum tilheyrði greitt inn á sinn reikning. Taldi B að líta ætti á þessa aðila, þ.m.t. ákærða, frekar sem undirverktaka en launamenn. Fram kom einnig í máli B að ákærði hefði gefið út nokkra sölureikninga í nafni TS málunar ehf., án vitneskju B. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var SBM ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 2. maí 2013, en TS málun ehf. 30. mars 2016. 

Með bréfi 27. apríl 2017 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins héraðssaksóknara til rannsóknar mál er varðaði meint brot ákærða á ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, laga nr. 145/1994 um bókhald, og eftir atvikum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allra með áorðnum breytingum. Í bréfinu segir að rannsókn embættisins hafi leitt í ljós að vanframtalin skattskyld velta ákærða hafi numið samtals 34.965.715 krónum, vanframtalinn útskattur 8.916.257 krónum og vanframtaldar rekstrartekjur samtals 34.965.715 krónum. Þá er þar tekið fram að með bréfi embættisins 14. október 2016 hafi ákærða verið tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig áður en til slíks kæmi. Bréf þetta fylgir gögnum málsins. Þar kemur fram að auk fyrirhugaðrar ákvörðunartöku um refsimeðferð hafi skattrannsóknarstjóri sent embætti ríkisskattstjóra málið og muni hann taka ákvörðun um hugsanlega endurálagningu. Ákærði mun ekki hafa svarað þessu bréfi. 

Með úrskurði 23. maí 2017 endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt sem ákærða bar að greiða vegna rekstraráranna 2013 og 2014, svo og opinber gjöld vegna sömu ára. Að auki var ákærða gert að greiða álag á vantaldar og vangoldnar greiðslur. 

Rannsókn héraðssaksóknara hófst með yfirheyrslu yfir ákærða 5. júlí 2017. Í upphafi yfirheyrslunnar var ákærða kynnt að rannsókn lögreglu einskorðaðist við þá fjármuni sem fóru inn á persónulegan bankareikning hans, og því væri ekki horft til allra þeirra sölureikninga sem skattrannsóknarstjóri byggði niðurstöðu sína á. Fyrir vikið væru tölulegar niðurstöður lögreglu talsvert lægri en tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra. 

Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra. Jafnframt sagðist hann hafa gleymt að skila skattframtölum vegna tekjuáranna 2013 og 2014. Þá sagðist hann heldur ekki hafa skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna sömu ára þar sem hann taldi sig ekki þurfa þess, enda hefði hann ekki skilað neinum sölureikningum. Spurður um tengsl sín við félögin TS málun ehf. og SBM ehf. sagði ákærði að þau væru engin, hann hefði hvorki setið í stjórn þeirra né verið framkvæmdastjóri. Sagðist hann aðeins hafa verið að hjálpa eiganda þeirra, B, smávegis. Þegar bornar voru undir ákærða innborganir frá ýmsum verkkaupum inn á persónulegan reikning hans, samtals að fjárhæð 28.186.248 krónur, sagði ákærði að þessir peningar hefðu síðan greiðst til B. Engin gögn væru þó til um það. Fram kom einnig í máli ákærða að hann hefði ekki haldið bókhald vegna rekstrartekna á árunum 2013 og 2014. 

Hinn 17. júlí 2017 var einnig tekin skýrsla af B. Sagðist hann í tvö eða þrjú skipti hafa gefið ákærða leyfi til að gefa út reikninga í nafni TS málunar ehf. eða SBM ehf., enda hefði ákærði sjálfur ekki haft virðisaukaskattsnúmer. Hins vegar kvaðst hann ekkert hafa vitað um hvaða verk þetta hafi verið sem ákærði var að vinna, en taldi líklegt að það hafi verið málningarvinna. Sagðist hann ekkert hafa fengið af þeim greiðslum sem runnu inn á bankareikning ákærða, þótt reikningar hans væru gefnir út í nafni áðurnefndra fyrirtækja, en bætti þó við að líklega hafi ákærði þó borgað honum „einhverja þúsundkalla fyrir það.“

Framburður fyrir dómi 

Ákærði Armando Luis Rodriguez kvaðst engin tengsl hafa átt við félögin TS málun ehf. eða SBM ehf., hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri þeirra né í stjórn. Sagðist hann aðeins hafa hjálpað eiganda þeirra félaga, B, með því að leyfa B að nota persónulegan bankareikning sinn, nr. [...], til þess að taka út peninga og leggja þar inn andviðri sölureikninga sem B skrifaði út. Skýringuna sagði ákærði vera þá að B hafi verið í vandræðum með eigin bankareikninga og hafi verið að reyna að koma í veg fyrir að greiðslur rynnu þangað. 

Ákærði var spurður um greiðslur einstakra verkkaupa inn á bankareikning hans. Hann kannaðist við að hafa móttekið inn á bankareikninginn greiðslur frá D, að fjárhæð 1.401.600 krónur. Sagðist hann sjálfur hafa skrifað fyrirliggjandi reikninga á D, samtals að fjárhæð 1.400.000 krónur, en tók fram að hann hafi gert það fyrir B. Reikningarnir hafi verið vegna málningarvinnu. Sagðist ákærði sjálfur aðeins lítillega hafa unnið að verkinu, en mundi ekki hverjir aðrir unnu að því. Að öðru leyti sagðist hann aðeins hafa verið að vinna fyrir B, m.a. við útgáfu reikninga. Sjálfur sagðist ákærði að einhverju leyti hafa samið við D um verk þetta, en þó hefði B einnig komið að því. Sérstaklega aðspurður sagði ákærði að hann hefði haldið að B myndi sjá um að greiða innheimtan virðisaukaskatt af reikningsfjárhæðum. Þá sagðist hann hafa endurgreitt B andviðri reikninganna með reiðufé. Ekki kvaðst hann hafa nein bókhaldsgögn undir höndum vegna þessara viðskipta. 

Ákærði var einnig spurður um greiðslur frá Kraftafli ehf. samkvæmt fjórum reikningum, gefnum út af SBM ehf., samtals að fjárhæð 1.632.400 krónur, og kannaðist hann við að þær greiðslur hefðu farið inn á bankareikning hans. Hins vegar sagðist hann ekki hafa skrifað reikningana og taldi að B hefði skrifað þá. Spurður um ástæðu þess að á reikningana er ritað að greiðsla skuli lögð inn á hans eigin bankareikning, [...], sagði ákærði að skýringin væri sú sama og áður, B hefði fengið að nota bankareikning hans. Ekki mundi hann glöggt hvort hann hefði unnið þá vinnu sem þar var verið að rukka fyrir, en taldi þó að verið gæti að hann hefði eitthvað unnið, enda hefði hann verið að vinna fyrir B. 

Þessu næst var ákærði spurður um greiðslur frá Múr og máli ehf., samtals að fjárhæð 8.161.717 krónur, og viðurkenndi hann að hafa móttekið og hagnýtt sér þær greiðslur. Kvaðst hann sjálfur hafa unnið þá vinnu sem þar greinir. Sagði hann að reikningarnir hafi verið gefnir út af TS málun ehf. með samþykki B, þar sem hann hafi sjálfur ekki haft virðisaukaskattsnúmer. Hins vegar sagðist hann hafa greitt B fjárhæð er nam innheimtum virðisaukaskatti. Þá viðurkenndi ákærði að hafa móttekið og hagnýtt sér greiðslu frá Kraftbindingum ehf. að fjárhæð 200.000 krónur. 

Spurður um sex innborganir frá Flottu máli ehf. inn á bankareikning ákærða, samtals að fjárhæð 3.087.297 krónur, sagði ákærði að reikningar að baki þeim greiðslum væru ekki skrifaðir af honum og því kannaðist hann ekki við þá reikninga. Sagðist hann heldur ekki vita skýringu þess að á reikningana væri ritað að fjárhæðina ætti að leggja inn á bankareikning hans, en gat sér til að það væri vegna þess að B hefði fengið að nota bankareikning hans. Eitthvað sagðist ákærði hafa unnið við þá vinnu sem verið var að rukka fyrir, og þá sem starfsmaður B. Hins vegar hefði hann ekki samið við verkkaupann um verkið. Þá sagði hann að verið gæti að hann hafi afhent Flottu máli ehf. einhverja reikninganna. 

Undir ákærða voru loks bornar greiðslur frá Atafli ehf. samkvæmt fimm reikningum, samtals að fjárhæð 12.415.000 krónur, en sjá má á framlögðu yfirliti að samtals 11.650.000 krónur eru lagðar inn á bankareikning ákærða sama dag eða skömmu eftir að Atafl ehf. innti þær greiðslur af hendi. Kvaðst hann kannast við þessa reikninga, sem gefnir eru út af TS málun ehf., og hafi hann skrifað þá fyrir B og afhent þá Atafli ehf. Hafi greiðslurnar fyrst farið inn á bankareikning B, en B síðan millifært fjárhæðina inn á bankareikning ákærða, og þá í því skyni að forða þeim frá því að banki hans kæmist í þær. Greiðslurnar hafi síðan runnið til baka af bankareikningi ákærða til B. Ekki kvaðst ákærði geta skýrt hvers vegna greiðslurnar hafi í þessu tilviki fyrst farið inn á bankareikning B. Ákærði kvaðst hafa verið starfsmaður B á þessum tíma og hafi hann m.a. unnið að því verki sem reikningarnir hljóða um. B hafi hins vegar annast samningsgerð við verkkaupa vegna verksins.  

Vitnið C, […] Flotts máls ehf., sagði að ákærði hefði á þeim tíma sem hér um ræðir tekið að sér, sem undirverktaki, að vinna vissa verkþætti fyrir hann. Kvaðst hann hafa leitað beint til ákærða og samið við hann um þetta verk, enda hafi hann þekkt ákærða frá fyrri tíð. Taldi hann að ákærði væri í sjálfstæðum rekstri og með sitt félag. Hefði ákærði sjálfur unnið að þessu verki, ásamt einhverjum starfsmönnum á hans vegum sem hann þekkti ekki. Ekki kvaðst vitnið þekkja B, en tók fram að hann hefði engu að síður séð hann á verkstað með ákærða, en þó ekki að vinna. Hefði ákærði kynnt B fyrir honum. 

Undir vitnið voru bornir reikningar, útgefnir af TS málun ehf., en stílaðir á Flott mál ehf., og eru þeir meðal gagna málsins. Kannaðist vitnið við reikningana og sagði að þeir væru allir vegna þeirrar vinnu sem hann hefði samið um við ákærða. Kvaðst hann hafa staðið í þeirri trú að útgefandi þeirra, TS málun ehf., væri fyrirtæki ákærða og hefði ákærði sjálfur afhent reikningana til greiðslu. 

Vitnið B sagðist hafa rekið mörg fyrirtæki á árunum 2013 og 2014, þ. á m. TS málun ehf. og SBM ehf. Ítrekað sagðist hann lítið muna eftir atvikum málsins þar sem langt væri um liðið, en kvaðst vísa í skýrslur sínar við rannsókn málsins, bæði hjá skattrannsóknarstjóra, og síðar hjá héraðssaksóknara. Kvaðst hann á þessum tíma hafa verið í mikilli óreglu og neyslu, bæði áfengis og fíkniefna. 

Bornir voru undir vitnið reikningar sem stílaðir voru á D og greiddir af honum inn á bankareikning ákærða. Sagðist vitnið ekki minnast þess að ákærði hafi endurgreitt honum þær greiðslur, né kvaðst hann vita hver væri eigandi þess bankareiknings sem ritaður væri á reikninginn og leggja ætti inn á, þ.e. [...]. 

Vitnið var einnig spurt um reikninga á hendur Kraftafli ehf., sem gefnir voru út af TS málun ehf. og SBM ehf., samtals að fjárhæð 1.632.400 krónur, og kvaðst vitnið ekki muna vel eftir þessum reikningum, og þá sérstaklega ekki reikningum frá SBM ehf. Þá mundi vitnið ekki eftir því að hann hafi sjálfur unnið þá vinnu sem reikningarnir hljóða um. Gat hann heldur ekki gefið skýringar á því hvers vegna leggja ætti greiðsluna inn á bankareikning ákærða, sem skráður var á reikningana. Ekki minntist vitnið þess að ákærði hefði afhent honum peninga sem runnið höfðu á bankareikning hans sem greiðsla á umræddum reikningum. Síðar sagðist vitnið þó minnast þess að hafa fengið einhverja peninga frá ákærða vegna þessa verks. 

Sérstaklega aðspurt taldi vitnið að rithönd hans væri á tveimur reikningum til Kraftafls ehf., sem gefnir voru út af SBM ehf. 4. apríl 2013 og 30. apríl sama ár, samtals að fjárhæð 828.800 krónur, en sagðist ekki geta útskýrt hvers vegna fjárhæð þeirra átti að greiðast inn á bankareikning ákærða. Tók hann fram að bankareikningar hans sjálfs og fyrirtækja hans hafi hins vegar verið í óreiðu á þessum tíma. 

Vitnið var því næst spurt um reikninga frá Flottu máli ehf. og kvaðst vitnið minnast þess að hafa eitthvað unnið fyrir það félag, en mundi ekki hvenær. Þegar borinn var undir vitnið framburður þess hjá skattrannsóknarstjóra, þess efnis að vitnið kannaðist ekkert við þessa sölureikninga, sagði vitnið að þá hlyti svo að hafa verið. 

Reikningar, útgefnir af TS málun ehf. til Atafls ehf., voru einnig bornir undir vitnið, svo og greiðslur TS málunar ehf. inn á bankareikning ákærða sama dag, eða skömmu eftir að Atafl ehf. greiddi þá reikninga. Kvaðst vitnið ekkert muna eftir atvikum að baki þessum færslum og vísaði enn til skýrslna sinna hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara. 

Undir lok skýrslu sinnar greindi vitnið frá því að hann hefði sjálfur sætt rannsókn skattrannsóknarstjóra vegna skattalagabrota og hlotið sekt vegna þeirra, en mundi ekki vegna hvaða verka hans það mál sætti rannsókn. Sú rannsókn hafi þó verið vegna áðurnefndra félaga og einhvers annars. 

Vitnið D gaf loks skýrslu fyrir dóminum. Hann sagðist kannast við ákærða og hefði samið við hann sem undirverktaka til að vinna fyrir sig í tveimur verkum á árunum 2013 og 2014. Jafnframt hefði ákærði skömmu áður haft samband við hann og falast eftir verkum frá honum. Sagði vitnið að ákærði hefði sjálfur unnið verkið, ásamt E. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið ekkert kannast við B. 

Bornir voru undir vitnið tveir reikningar, stílaðir á vitnið, en gefnir út af TS málun ehf. Kvaðst vitnið kannast við reikningana og hafi ákærði afhent honum þá til greiðslu.

Niðurstaða 

Áður er fram komið að ákærði hefur skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrri ákærunni. Er ekki ástæða til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm og er því látið nægja að skírskota til ákærunnar um þau málsatvik, sbr. 164. gr. og 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er því sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar greinir og er rétt heimfærð til refsiákvæða. Hinu sama gegnir um þá háttsemi ákærða sem lýst er í 4. tölulið síðari ákærunnar, en eins og hér að framan greinir játaði ákærði þær sakargiftir við aðalmeðferð málsins 30. október 2018. Þá játaði hann einnig að hafa sjálfur móttekið og hagnýtt sér greiðslur frá Múr og mál ehf., samtals að fjárhæð 8.161.717 krónur, og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna þeirra, að fjárhæð 2.081.234 krónur. Enn fremur viðurkenndi hann að hafa móttekið og hagnýtt sér greiðslu frá Kraftbindingum ehf., að fjárhæð 200.000 krónur, og ekki staðið skil á virðisaukaskatti af þeirri fjárhæð, 40.637 krónum. 

Að því er varðar sakargiftir samkvæmt síðari ákærunni í máli þessu gerir ákærði aðallega þá kröfu að ákærunni verði vísað frá dómi að öllu leyti eða að hluta. Til vara er þess krafist að hann verði sýknaður af þeim sakargiftum sem hann hefur neitað. Verði hann hins vegar sakfelldur er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði þá skilorðsbundin. Í öllum tilvikum er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins. 

Frávísunarkrafa ákærða byggist annars vegar á því að málið sé ekki nægilega upplýst. Í því sambandi bendir ákærði á að allir reikningar í málinu séu annaðhvort gefnir út af TS málun ehf. eða SBM ehf., þótt forsvarsmaður þeirra fyrirtækja hafi staðfest að aðrir en hann sjálfur hafi haft heimild til að gefa slíka reikninga út. Telur ákærði að ekki séu forsendur til að sakfella hann nema upplýst sé áður hvernig skattyfirvöld hafi tekið á málum þeirra fyrirtækja, en eins og fram hafi komið í skýrslu forsvarsmanns þeirra, B, hefði hann sætt skattrannsókn vegna þeirra. Því telur ákærði nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um hvort B hafi sætt ábyrgð vegna sömu brota og ákærði er sakaður um í máli þessu. 

Hins vegar byggist frávísunarkrafan á því að ákærða hafi þegar verið gerð refsing í skilningi 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu með úrskurði ríkisskattstjóra 23. maí 2017, þar sem honum var gert að greiða skatt og álag á skattstofna vegna sömu tekjuára og til umfjöllunar eru í máli þessu. Telur ákærði að frekari málsmeðferð fyrir dómi brjóti gegn fyrrgreindu ákvæði mannréttindasáttmálans, enda sé í máli þessu krafist refsingar fyrir sömu brot. Vísar hann einkum til þess að í málinu sé ekki uppfyllt skilyrði um samþættingu stjórnsýslumálsins og málsins sem hér um ræðir að því er tíma varðar, en slíkt sé nauðsynlegt eins og ráða megi af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og dómi Hæstaréttar í málinu nr. 283/2016 og dómi Landsréttar í málinu nr. 77/2018. 

Ákæruvaldið mótmælir frávísunarkröfunni og krefst þess að henni verði hrundið. 

Krafa ákærða um frávísun þessa máls kom fyrst fram í munnlegum málflutningi ákærða við aðalmeðferð málsins. Af því tilefni óskaði ákæruvaldið eftir því að bókað yrði í þingbók að það mótmælti kröfu um frávísun málsins „á þeim grundvelli að ekki væri upplýst um hugsanleg tengsl sakargifta í máli þessu við rannsókn og síðan sektargerð skattyfirvalda á hendur [B].“ Í kjölfarið óskaði ákæruvaldið eftir því, með vísan til 2. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008, að það fengi að leggja fram afrit úrskurðar yfirskattanefndar í máli B, nr. [...]/2017, sem upp var kveðinn [...] 2017, en að mati ákæruvaldsins sýndi sá úrskurður ótvírætt að sakargiftir á hendur B, vegna rekstrar TS málunar ehf., tengdust með engum hætti atvikum í því sakamáli sem hér væri til úrlausnar. 

Þar sem verjandi ákærða mótmælti framlagningu skjalsins lét ákæruvaldið við það sitja að árétta bókun sína. 

Í máli þessu er ákærði sakaður um meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í sjálfstæðri starfsemi sinni á nánar tilgreindu tímabili. Hefur hann þegar viðurkennt hluta sakargifta. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann hafi engin tengsl haft við félögin TS málun ehf. eða SBM ehf. Rannsókn málsins, bæði hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, beindist að því að upplýsa um þá starfsemi sem talið var að ákærði hefði haft með höndum, um tekjur hans af þeirri starfsemi og vanskil lögboðinna skatta og gjalda. Vitnið B er hins vegar ekki ákærður í máli þessu og því haldlaust að benda á hugsanlegan þátt hans í meintum brotum ákærða. Og jafnvel þótt B hafi áður sætt sekt af hálfu skattyfirvalda vegna brota hans í rekstri þeirra félaga sem hann hafði með höndum, getur það ekki firrt ákærða ábyrgð af þeim brotum sem hann er hér sakaður um. 

Að því er varðar röksemdir ákærða um að honum hafi þegar verið gerð refsing með úrskurði ríkisskattstjóra og að ekki séu fyrir hendi skilyrði um samþættingu stjórnsýslumálsins og málsins sem hér um ræðir, að því er tíma varðar, er nauðsynlegt að fara yfir feril málsins í tíma. 

Rannsókn skattrannsóknarstjóra á máli ákærða hófst 9. september 2015 og lauk með skýrslu embættisins 10. október 2016. Fjórum dögum síðar var mál ákærða sent ríkisskattstjóra til meðferðar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sama dag, 14. október 2016, var ákærða tilkynnt um að skattrannsóknarstjóri hefði sent embætti ríkisskattstjóra málið, sem tæki ákvörðun um hugsanlega endurálagningu. Jafnframt var ákærða þar tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð. Var ákærða veittur 30 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð, en hann svaraði ekki bréfinu. Með úrskurði 23. maí 2017 endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt og opinber gjöld ákærða, auk þess sem hann lagði 10% álag á virðisaukaskatt og 25% álag á vantalin opinber gjöld. Ekki liggur fyrir hvort ákærði hafi greitt skattskuldina. Hins vegar er óumdeilt að hann kærði ekki úrskurðinn til yfirskattanefndar. 

Eins og áður greinir sendi skattrannsóknarstjóri héraðssaksóknara mál ákærða til meðferðar 27. apríl 2017 og hófst rannsókn héraðssaksóknara með yfirheyrslu yfir ákærða 5. júlí sama ár. Ákæra var síðan gefin út af héraðssaksóknara 22. mars 2018 og málið þingfest 17. september sama ár. Fyrir liggur því að mál þetta var ekki rekið samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu, en eins og áður greinir lá endurákvörðun ríkisskattstjóra fyrir 23. maí 2017, en ákærði gaf fyrst skýrslu sem sakborningur hjá héraðssaksóknara 5. júlí sama ár, eða 43 dögum síðar. Frá endurákvörðun ríkisskattstjóra til útgáfudags ákæru liðu hins vegar 10 mánuðir. 

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016, dómi Hæstaréttar í málinu nr. 283/2016 og dómum Landsréttar í málum nr. 4/2018, 77/2018 og 82/2018 er fjallað um ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu og þau tilvik er lög heimila rekstur tveggja aðskilinna mála vegna sama brots, auk þess sem þar er tiltekið hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að svo megi verða. Í dómi Hæstaréttar er því slegið föstu, með vísan til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, að beiting stjórnsýsluviðurlaga í formi álags á vantalinn skattstofn feli í sér „sakamál“ í merkingu 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans og að um „sama mál“ í skilningi ákvæðisins sé að ræða ef sömu atvik eða að öllu verulegu sambærileg atvik liggi til grundvallar endurtekinni saksókn eða refsingu. Af fyrrnefndum dómum má og ráða að við mat á því hvort rekstur máls hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi hins vegar hafi verið nægilega samþættur í tíma beri að leggja heildstætt mat á tímaþætti með það fyrir augum að staðreyna hvort meðalhófs hafi verið gætt, þannig að kærði sé ekki settur í óþarfa óvissu vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma. Skipti hér mestu að sá heildartími sem rekstur beggja málanna tók sé ekki úr hófi, að rekstur þeirra fari að töluverðu leyti fram samtímis og að ekki líði nema tiltölulega skammur tími frá því stjórnsýslumáli lýkur og ákæra er gefin út eða öfugt. 

Að framanrituðu virtu, og þá einkum þegar til þess er litið að rekstur málanna fór að engu leyti fram samtímis, en ekki síður þegar þess er gætt að miða verður við að ákæru skuli gefa út skömmu fyrir eða eftir lok máls á stjórnsýslustigi, er það álit dómsins að sú töf sem varð á útgáfu ákæru í máli þessu, eða alls um 10 mánuði frá lokum málsins á stjórnsýslustigi, valdi því að ekki verður talið að fullnægt sé skilyrði um nauðsynlega samþættingu í tíma við rekstur málsins, annars vegar hjá skattyfirvöldum en hins vegar hjá lögreglu og fyrir dómi. Ber því að vísa frá dómi 2. og 3. tölulið ákærunnar, að því leyti sem ákærði hefur neitað sakargiftum samkvæmt þeim ákæruliðum. 

Í ljósi ofanritaðs verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann hefur játað fyrir dómi. Annars vegar er þar um að ræða brot samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2018, en hins vegar brot samkvæmt 4. tölulið ákæru héraðssaksóknara 22. mars 2018. Er háttsemi hans samkvæmt síðastnefnda ákæruliðnum réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði verður jafnframt sakfelldur fyrir að hafa vantalið tekjur frá Múr og máli ehf., samtals að fjárhæð 8.161.717 krónur, og ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna þeirra, samtals 2.081.234 krónum, og frá Kraftbindingum ehf., að upphæð 159.363 krónur, og ekki heldur skilað virðisaukaskatti vegna þeirra tekna, 40.637 krónum, sbr. 2. og 3. tölulið ákærunnar, en eins og áður greinir viðurkenndi ákærði fyrir dómi að hafa móttekið og hagnýtt sér þær greiðslur. Að áliti dómsins og með hliðsjón af atvikum teljast brot þessi meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en varða að auki við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Með játningu ákærða á síðastnefndum brotum þykir sannað að hann hafi einnig gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í 1. tölulið ákærunnar, en fyrir liggur að hann tilkynnti ekki um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína þau rekstrarár sem hér eru til umfjöllunar. Varðar sú háttsemi við 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

Ákærði er fæddur [...] árið 1985. Samkvæmt framlögðu sakavottorði á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær allt til ársins 2009. Á árinu 2013 og 2015 gekkst hann undir sáttir vegna brota á umferðarlögum. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2014 var hann dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn umferðarlögum, auk rangra sakargifta. Þá var honum 17. október 2016 gerð 104.000 króna sekt vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni. 

Við ákvörðun refsingar hans nú verður til þessa horft, en einnig þess að hann játaði skýlaust sakargiftir samkvæmt fyrri ákærunni og féllst á upptöku þeirra fíkniefna, lyfja og vopns er þar greinir. Með hliðsjón af öllu framansögðu þykir refsing hans vegna þeirra brota sem hann er nú sakfelldur fyrir samkvæmt báðum ákærum í máli þessu hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði, en rétt þykir að binda hana skilorði eins og greinir í dómsorði. 

Samhliða skilorðsbundinni refsivist verður ákærði í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. og 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 einnig dæmdur til greiðslu fésektar. Eins og atvikum er hér háttað verður hún ákveðin tvöföld sú fjárhæð sem vantalin og vangoldin var, en að teknu tilliti til frádráttar á álagi og skatts á álag samkvæmt fyrirmælum sömu ákvæða. Samkvæmt því verður ákærða gert að greiða fésekt að fjárhæð 10.381.000 krónur innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæta ella fangelsi í fjóra mánuði. 

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, teljast hæfilega ákveðin 1.590.000 krónur. Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða þriðjung þess kostnaðar, eða 530.000 krónur, en að öðru leyti greiðist kostnaðurinn úr ríkissjóði. Úr ríkissjóði greiðist einnig þóknun skipaðs verjanda Y, Guðbjarna Eggertssonar lögmanns, 200.000 krónur, en eins og áður greinir féll ákæruvaldið frá ákæru á hendur Y við þingfestingu ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn. 

D ó m s o r ð: 

Vísað er frá dómi þeim liðum 2. og 3. töluliðar ákæru héraðssaksóknara, sem gefin er út 22. mars 2018 og ákærði Armando Luis Rodriguez neitaði sök. 

Ákærði sæti fangelsi í sjö mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 10.381.000 krónur í fésekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í fjóra mánuði. 

Upptæk skulu gerð í ríkissjóð 11,49 g af MDMA, 78,97 g af kókaíni, 0,90 g af maríhúana og rafmagnsvopn, auk eftirtalinna lyfja: 111 millilítrar af Sustanon, 154 millilítrar af Testosteron, 10 millilítrar af Trenbolon, 77 stykki af Clenbuterol og 10 stykki af Mesterolon. 

Ákærði greiði 1/3 málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 530.000 krónur, en 2/3 hlutar, 1.060.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda Y, Guðbjarna Eggertssonar lögmanns, 200.000 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum