2020

Dómur Landsréttar 7. febrúar 2020 í máli nr. 115/2019

7.2.2020


Dómur föstudaginn 7. febrúar 2020.

Mál nr. 115/2019:
Ákæruvaldið
(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Friðmari Leifs Bogasyni

(Sigmundur Hannesson lögmaður)

Lykilorð
Virðisaukaskattur. Skattalög. Heimfærsla.

Útdráttur

F var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og bókhaldsbrot í rekstri einkahlutafélags á árinu 2015. F játaði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök en taldi brot sín ekki meiri háttar. Landsréttur féllst ekki á þá málsvörn F og taldi að hann hefði framið brot sitt með sérstaklega vítaverðum hætti sem yki á saknæmi þess. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að F hafði ekki áður gerst brotlegur við lög og játaði brot sín hreinskilnislega. Einnig var tekið tillit til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing F ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var F gert að greiða 4.900.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi 90 daga fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Jóhannes Sigurðsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 14. febrúar 2019 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2019 í málinu nr. S-614/2018.
2 Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
3 Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

Niðurstaða
4 Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefið að sök meiri háttar brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5 Við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. janúar 2019 var bókað í þingbók að verjandi krefðist aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar, sem og málsvarnarlauna. Verjandi rökstuddi sýknukröfuna meðal annars með því að brot ákærða ættu ekki undir 262. gr. almennra hegningarlaga, eins og í ákæru greinir, þar sem þau teldust ekki meiri háttar. Á hinn bóginn hefur ákærði skýlaust játað á sig þá háttsemi sem í ákæru er lýst þótt hann felli sig ekki við heimfærslu hennar til refsiákvæða.
6 Í 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga kemur meðal annars fram að hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eða 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 skuli sæta fangelsi allt að sex árum og að heimilt sé að dæma fésekt að auki samkvæmt þeim ákvæðum skattalaga er fyrr greinir. Í 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að verknaður samkvæmt 1. og 2. mgr. greinarinnar teljist meiri háttar brot ef hann er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins.
7 Sannað er með játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins, að hann stóð skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum með því að færa tilhæfulausa kostnaðarreikninga og tví- og þrífæra kostnaðarreikninga í bókhald einkahlutafélagsins FL Garps sem daglegur stjórnandi þess og prókúruhafi. Brot þessi, sem varða við 1. og 4. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, framdi ákærði með sérstaklega vítaverðum hætti sem eykur á saknæmi brotsins. Eru brot hans því réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
8 Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brotanna til refsiákvæða og um ákvörðun refsingar.
9 Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Friðmar Leifs Bogason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 599.291 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 550.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 31. janúar 2019

Árið 2019, fimmtudaginn 31. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-614/2018: Ákæruvaldið gegn Friðmari Leifs Bogasyni en málið var dómtekið 24. þ.m. á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008.

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 11. október 2018, á hendur:

„Friðmari Leifs Bogasyni, kt. […],
[…], Noregur

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald sem stjórnarmanni, daglegum stjórnanda og prókúruhafa einkahlutafélagsins FL Garpur, kt. […], með því að hafa:

1. Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin mars – apríl, júlí – ágúst, september – október og nóvember - desember rekstrarárið 2015, með því að oftelja innskatt í rekstri félagsins um samtals 1.630.417 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2015

Mars - apríl 78.953
Júlí - ágúst 153.434
Sept. - október 745.322
Nóv.- desember 959.576
Samtals kr. 1.630.417

2. Fyrir bókhaldsbrot með því að færa tilhæfulausa kostnaðarreikninga í bókhald einkahlutafélagsins yfir rekstrartímabilið mars til og með desember rekstrarárið 2015, og fyrir að rangfæra bókhald þess með því að tví- og þrífæra kostnaðarreikninga félagsins í bókhaldið, yfir framangreint rekstrartímabil. Framangreind brot ákærða teljast varða við:

  1. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 4. mgr. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 3. töluliður 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins. Þá er krafist þóknunar til handa Sigmundi Hannessyni lögmanni sem var verjandi ákærða á fyrri stigum málsins.
Sýknukrafan byggist á því að brot ákærða verði ekki talin meiri háttar í skilningi laga. Vikið verður að þessari málsástæðu hér að neðan.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um brot þau sem hann er ákærður fyrir. Ákærði skilaði efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum og rangfærði bókhald félagsins eins og lýst er í ákærunni. Með vísan til þessa og dómaframkvæmdar í sambærilegum málum verða brot ákærða talin meiri háttar í skilningi laga, svo sem í ákæru greinir, og eru brot hans því rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Að þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði sem rétt þykir að skilorðsbinda svo sem í dómsorði greinir.
Auk refsivistarinnar ber að dæma ákærða til greiðslu sektar í ríkissjóð, sem að teknu tilliti til dómaframkvæmdar þykir hæfilega ákvörðuð 4.900.000 krónur og komi 90 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.
Ákærði greiði 210.800 króna málsvarnarlaun Kristjáns Gunnars Valdimarssonar lögmanns og 421.600 króna málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar lögmanns vegna vinnu hans á fyrri stigum málsins, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður Dagmar Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Friðmar Leifs Bogason, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr.22/1955.
Ákærði greiði 4.900.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 90 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.
Ákærði greiði 210.800 króna málsvarnarlaun Kristjáns Gunnars Valdimarssonar lögmanns og 421.600 króna málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar lögmanns, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum