2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 228/2009

30.9.2009

Úrskurður nr. 228/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 30. september, er tekið fyrir mál nr. 97/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt.[...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, bæði með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2003.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar launatekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skil á efnislega röngu skattframtali til skattstjórans í Reykjavík vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2004, vegna tekjuársins 2003, með því að vanframtelja skattskyldar greiðslur um samtals kr. 23.239.395. Fjármagnstekjur A vegna framangreinds árs voru offramtaldar um samtals kr. 20.589.636.

Framangreind háttsemi leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars á tekjuárinu 2003, svo sem hér segir:

Reiknaður tekjuskattur, sérstakur tekjuskattur, útsvar og offramtalinn fjármagnstekjuskattur.

Tekjuár Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn Tekjuskattur

Sérstakur

tekjuskattur

Útsvar

Offramtalinn

fjármagns-

tekjuskattur

2003 23.239.395 5.984.144                 23.239.395 * 25,75% = 5.984.144 1.161.970                 23.239.395 * 5% = 1.161.970 2.951.403                 23.239.395 * 12,7% = 2.951.403 2.058.964                 20.589.636 * 10% = 2.058.964
Samtals kr. 23.239.395 5.984.144 1.161.970 2.951.403 2.058.964

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. A. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., sbr. 19.gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Við ákvörðun skattstofna vegna tekjuársins 2003 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 2.112.587.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 3. apríl 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. apríl 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. apríl 2008, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins er byggð á rannsókn embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuársins 2003, sbr. skýrslu um rannsókn þessa, dags. 14. nóvember 2006. Rekja má tilefni rannsóknar þessarar, sem hófst formlega hinn 27. október 2005, til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. Á þeim tíma sem rannsókn skattrannsóknarstjóra tók til gegndi gjaldandi starfi framkvæmdastjóra X ehf. og Z ehf. Vegna skattrannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 10. nóvember 2005 auk þess sem skýrsla var tekin af stjórnarformanni X ehf., B, vegna málsins hinn 1. nóvember 2005. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2006, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu, dags. sama dag, um rannsókn embættisins á skattskilum gjaldanda og gaf gjaldanda kost á að tjá sig um hana. Í framhaldi af athugasemdum gjaldanda í bréfi umboðsmanns hans, dags. 20. október 2006, tók skattrannsóknarstjóri saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 14. nóvember 2006, þar sem m.a. var fjallað um andmæli gjaldanda.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. nóvember 2006, var greint frá niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda umrætt ár. Kom fram í skýrslunni að rannsókn skattrannsóknarstjóra hefði beinst að því hvort greiðsla, sem gjaldandi fékk frá X ehf. á árinu 2003 vegna meintra kaupa félagsins á hlutabréfum í hans eigu, hefði í raun verið vegna starfa gjaldanda hjá félaginu. Í niðurstöðukafla í skýrslunni kom fram að með hliðsjón af upplýsingum og gögnum varðandi hlutabréfaviðskipti gjaldanda og X ehf. árið 2003 væri það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að um væri að ræða málamyndagerning og að í raun hefði verið um að ræða launagreiðslu til gjaldanda í tengslum við starfslok hans hjá félaginu. Hefðu hlutabréfaviðskiptin eingöngu verið sett á svið til þess að gjaldandi kæmist hjá greiðslu skatts af launatekjum. Þessari niðurstöðu til stuðnings vísaði skattrannsóknarstjóri til nokkurra atriða. Þannig væri ekki getið um eignarhald gjaldanda á hlutabréfum í X ehf. í ársreikningi félagsins fyrir árið 2002 og samkvæmt því hefðu meint kaup gjaldanda á 7% hlut í félaginu af þeim C og D á því ári ekki átt sér stað. Þá kæmi fram í vinnugagni stjórnarformanns félagsins, B, að gjaldandi hefði eignast 7% hlut í félaginu fyrir störf sín hjá félaginu. Komið hefði fram hjá B að honum hefði verið ókunnugt um eignarhald gjaldanda á 7% hlut í X ehf. í apríl 2003 þegar gengið var frá ársreikningi félagsins fyrir árið 2002. Þá væri ákvæði í kaupsamningi gjaldanda og X ehf., dags. 29. ágúst 2003, sem bannaði gjaldanda að reka starfsemi í samkeppni við félagið á Íslandsmarkaði í þrjú ár frá undirritun samningsins, en slíkt ákvæði benti til þess að í raun hefði verið um að ræða greiðslu í tengslum við starfslok gjaldanda hjá félaginu. Fram lögð yfirlýsing, dags. 1. nóvember 2005, varðandi kaup gjaldanda á 7% hlut í félaginu, hefði verið gerð eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst og engin gögn lægju fyrir sem sýndu fram á að gjaldandi hefði keypt umrætt hlutafé á árinu 2002. Þá væri til þess að líta að upplýsingar, sem skattrannsóknarstjóri hefði aflað frá bandarískum skattyfirvöldum vegna málsins, bæru með sér að 99% hlutafjár í X ehf. hefði verið í eigu C og D í árslok 2002. Af bréfi E, löggilts endurskoðanda, dags. 3. maí 2004, til X ehf. yrði ekki dregin sú ályktun að umrædd viðskipti með 7% hlut í félaginu hefðu átt sér stað fyrr en í tengslum við starfslok gjaldanda hjá félaginu. Loks lægju ekki fyrir neinar upplýsingar um kaup gjaldanda á hlutabréfum í X ehf. í skattframtali hans árið 2003. Að því er snertir tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar kom fram í skýrslunni að vanframtaldar starfstengdar greiðslur til gjaldanda tekjuárið 2003 hefðu numið 23.239.395 kr. og oftaldar fjármagnstekjur numið 20.589.636 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með bréfi, dags. 14. nóvember 2006, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 22. júní 2007, sem svarað var af hálfu gjaldanda með bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 6. september 2007, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárið 2004 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 3. mars 2008, á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri gjaldanda til skattskyldra launatekna í skattframtali hans umrætt ár greiðslu frá X ehf. að fjárhæð 23.239.395 kr., sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í tengslum við þá breytingu lækkaði ríkisskattstjóri stofn gjaldanda til fjármagnstekjuskatts umrætt gjaldár um 20.589.636 kr. Við mismun framangreindra fjárhæða eða 2.649.759 kr. bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og nam fjárhæð álagsins 662.440 kr. Greindar breytingar ríkisskattstjóra byggðust á því að hann taldi að virða bæri umrædda greiðslu X ehf. til gjaldanda á árinu 2003 sem launagreiðslu vegna starfsloka gjaldanda hjá einkahlutafélaginu en ekki söluverð hlutabréfa gjaldanda í félaginu. Taldi ríkisskattstjóri að greiðslan hefði verið færð í búning viðskipta með hlutabréf í skattasniðgönguskyni, þ.e. til þess að komast hjá skattlagningu hennar sem launagreiðslu í hendi gjaldanda.

Umboðsmaður gjaldanda skaut úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. mars 2008, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. júní 2008. Var þess aðallega krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra yrði hnekkt, þó þannig að söluhagnaður hlutabréfa í skattframtali árið 2004 yrði ákvarðaður 23.204.395 kr. í stað 20.589.636 kr. Til vara var þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 101/2009, sem kveðinn var upp 20. maí 2009, var fallist á aðalkröfu gjaldanda. Var talið, m.a. með vísan til gagna um aðdraganda að hinum umdeildu viðskiptum gjaldanda og X ehf., sem fylgdu kæru gjaldanda til yfirskattanefndar, að ekki hefði verið sýnt fram á það af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra að virða bæri hina umþrættu greiðslu félagsins til gjaldanda að fjárhæð 23.239.395 kr. á árinu 2003 sem launatekjur gjaldanda í skilningi 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

3. Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er sem fyrr segir byggð á umræddri rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum gjaldanda vegna tekjuársins 2003 sem gerð er grein fyrir í skýrslu embættisins, dags. 14. nóvember 2006. Með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 101/2009, þar sem fjallað var um greinda rannsókn og tekin er afstaða til ályktunar skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra varðandi raunverulegt eðli hinnar umdeildu greiðslu X ehf. til gjaldanda á árinu 2003, verður ekki talið að viðhlítandi grundvöllur að sektarákvörðun liggi fyrir í máli þessu. Því er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum