2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 302/2009

9.12.2009

Úrskurður nr. 302/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 9. desember, er tekið fyrir mál nr. 138/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 8. maí 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2004.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem fyrrum stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf. (nú afskráð), er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum skattframtals og fylgigagna þess. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á skattframtali ásamt fylgigögnum þess, fyrir hönd skattaðila, til skattstjórans í Reykjavík vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2005, vegna rekstrarársins 2004. Með háttseminni voru rekstrartekjur skattaðila vanframtaldar um samtals kr. 5.320.820. Möguleg rekstrargjöld skattaðila nema samtals kr. 171.818 og reiknað endurgjald fyrirsvarsmanns skattaðila nemur samtals kr. 1.110.000 vegna fyrrgreinds rekstrarárs. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi áætlaði tekjuskattsstofn skattaðila vegna rekstrarársins 2004 kr. 8.000.000, auk álags kr. 1.200.000.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns skattaðila en vera bar gjaldárið 2005, vegna rekstrarársins 2004, að teknu tilliti til áætlunar skattstjóra. Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Skil á efnislega rangri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar og mars–apríl vegna rekstrarársins 2004, fyrir hönd skattaðila. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til innheimtumanns ríkissjóðs vegna uppgjörstímabilanna maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2004, fyrir hönd skattaðila. Nemur vanframtalin skattskylda velta skattaðila samtals kr. 3.394.420 og útskattur samtals kr. 831.633. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 38.131.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir: 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2004 jan. – feb. -135.300 -33.148 -422
2004 mars – apríl 124.900 30.600 10.009
2004 maí - júní 583.000 142.835 6.317
2004 júlí – ágúst 1.246.800 305.466 12.213
2004 sept. – okt. 927.121 227.145 10.014
2004 nóv. – des. 647.899 158.735 0
Samtals kr.   3.394.420 831.633 38.131

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 8. maí 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Bréfið var endursent yfirskattanefnd með því að viðtakandi væri óþekktur á skráðu heimili gjaldanda, en komið var fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. júní 2008. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. maí 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði sem fyrirsvarsmanni X ehf., gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna meintra brota hans á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 23. maí 2006 rannsókn á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrarársins 2004 og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 23. apríl 2007. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 12. júní og 23. ágúst 2006, auk þess sem skýrsla var tekin af B, skiptastjóra þrotabús X ehf., og var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, sölureikningum X ehf., og skattskilagögnum félagsins. Með bréfi, dags. 2. apríl 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. apríl 2007, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. Fram kom að starfsemi X ehf. hefði verið fólgin í þrifum og bóni á gólfum fyrirtækja. Í lokakafla skýrslunnar voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum X ehf. rekstrarárið 2004 eru: 

·1   Bókhald er ekki fyrirliggjandi.

·2   Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·3   Möguleg rekstrargjöld og mögulegur innskattur er vantalinn.

·4   Ekki hefur verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna alls rekstrarársins 2004.

·5   Leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts var skilað en hún varðar einungis uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2004.

·6   Skattframtali 2005, vegna rekstrarársins 2004, hefur ekki verið skilað.

·7   Staðgreiðsluskilagreinum vegna tímabilsins júlí til og með desember 2004 hefur ekki verið skilað.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflum í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 3.394.420 kr. rekstrarárið 2004 og rekstrartekjur vantaldar um 5.320.820 kr., en rekstrargjöld vantalin um 171.818 kr. Vantalinn útskattur var talinn nema 831.633 kr. og vantalinn innskattur 38.131 kr. Þá var gerð grein fyrir vantöldu reiknuðu endurgjaldi fyrirsvarsmanns X ehf.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 24. apríl 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til þrotabús X ehf., dags. 10. ágúst 2007, sem ekki var svarað af þess hálfu, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld X ehf. gjaldárið 2005 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. september 2007, svo og endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt félagsins uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2004 og fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars vegna reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanns félagsins árið 2004. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta X ehf. ákvörðuð 5.320.820 kr. umrædd uppgjörstímabil og kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að sú fjárhæð væri í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að teknu tilliti til innskatts 42.096 kr. nam álagður virðisaukaskattur samkvæmt úrskurðinum því 1.261.505 kr. greind uppgjörstímabil auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Stofn til skilaskyldrar staðgreiðslu staðgreiðsluárið 2004 var hækkaður um 1.110.000 kr. og stofn til tryggingagjalds umrætt ár hækkaður í samræmi við það, svo og ákvarðaði ríkisskattstjóri álag vegna vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu árið 2004. Við ákvörðun tekjuskattsstofns X ehf. gjaldárið 2005 byggði ríkisskattstjóri á fjárhæð rekstrartekna samkvæmt niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins, þ.e. 5.320.820 kr., og mögulegum rekstrargjöldum samkvæmt rannsóknarskýrslu að fjárhæð 171.818 kr. auk reiknaðs endurgjalds og tryggingagjalds og áætlaði tekjuskattsstofn 3.000.000 kr., auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu þrotabús X ehf. voru heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra ekki nýttar.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. apríl 2007, að þar sem ekki hafi verið talið fram til skatts árið 2005 af hálfu X ehf. hafi félagið sætt áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár og hafi tekjuskattsstofn verið áætlaður 8.000.000 kr. auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 1.200.000 kr. Samkvæmt skýringum gjaldanda við skýrslutöku 12. júní 2006 var trassaskapur hans ástæða þess að skattframtalinu var ekki skilað. Þá kemur fram í skýrslunni að engum virðisaukaskattsskýrslum hafi verið skilað til skattyfirvalda á árinu 2004 fyrir X ehf., en gerð hafi verið skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts sem þó taki einungis til uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2004. Engin bókhaldsgögn voru afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins þótt eftir því væri leitað, en gjaldanda og skiptastjóra þrotabús X ehf. bar ekki saman um það hvort gjaldandi hefði látið skiptastjóranum bókhald félagsins í té, sbr. skýrslutökur af gjaldanda 12. júní 2006 og af B, 15. júní 2006. Tekjuskráning X ehf. var byggð á útgefnum sölureikningum og aflaði skattrannsóknarstjóri ríkisins 80 sölureikninga sem gefnir voru út af félaginu á árinu 2004. Inn í fyrirliggjandi númeraröð sölureikninganna vantaði 14 reikninga, sem gjaldandi kvaðst telja að hefðu verið ógildir eða óútgefnir, en skattrannsóknarstjóri taldi ekki forsendur til þess að leggja mat á ætlaðan undandrátt tekna X ehf. vegna vöntunar sölureikninga.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur X ehf. og skattskylda veltu rekstrarárið 2004 byggja á umræddum sölureikningum félagsins sem skattrannsóknarstjóri ríkisins aflaði frá viðskiptaaðilum þess. Virðisaukaskattur var tilgreindur á öllum sölureikningum X ehf. og taldist skattskyld velta samkvæmt þeim nema 5.320.820 kr. rekstrarárið 2004 og útskattur 1.303.601 kr. Að teknu tilliti til tilgreindrar skattskyldrar veltu og útskatts uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2004 samkvæmt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts var niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins um þennan þátt sú að skattskyld velta væri vantalin um samtals 3.394.420 kr. og útskattur um 831.633 kr. Rekstrartekjur árið 2004 væru vantaldar um 5.320.820 kr.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt framburði gjaldanda við skýrslutöku 12. júní 2006 hafi aðallega verið um að ræða viðskipti við Z ehf. Samkvæmt hreyfingalista, sem aflað hafi verið frá Z ehf., séu möguleg rekstrargjöld X ehf. 171.818 kr. árið 2004 og innskattur 42.096 kr. Við skýrslutöku 23. ágúst 2006 taldi gjaldandi að vörukaup frá Z ehf. væru mun meiri en fram kæmi í greindum hreyfingalista, enda hefði hann yfirleitt staðgreitt vörukaupin. Kvaðst gjaldandi hafa keypt efni fyrir hvert verk og kostnaður verið að lágmarki 30.000 kr. fyrir hvert verk.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, um rekstrartekjur og skattskylda veltu X ehf. rekstrarárið 2004 byggðar á útgefnum sölureikningum einkahlutafélagsins, samtals að fjárhæð 6.624.421 kr. Sölureikningar þessir voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 12. júní 2006 og staðfesti gjaldandi hafa gefið út umrædda sölureikninga vegna X ehf. og að þeir hefðu allir fengist greiddir. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að rekstrartekjur X ehf. og skattskyld velta til virðisaukaskatts hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins engin kostnaðargögn vegna X ehf. en greindi frá því við skýrslutöku 12. júní 2006 að helstu aðföng hefðu verið keypt frá Z ehf. Skattrannsóknarstjóri ríkisins aflaði hreyfingalista frá greindum aðila um viðskipti við X ehf. og er á grundvelli þess gagns byggt á því að rekstrargjöld félagsins rekstrarárið 2004 hafi numið 171.818 kr. og innskattur 42.096 kr. Af hálfu gjaldanda hefur komið fram að einnig hafi verið keyptar vörur í staðgreiðslu af Z ehf. sem ekki séu tilgreindar í hreyfingalista og áætlar gjaldandi að kostnaður við efni hafi verið að lágmarki 30.000 kr. vegna hvers verks. Tekið skal fram að ákvæði um rekstrarkostnað í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að skattskyldum aðilum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 1. og 2. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Vísast einnig um þetta til þeirra viðhorfa sem fram koma í dómi Hæstaréttar Íslands 12. júní 1997 (H 1997:1913) og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 1995 í málinu nr. 693/1995 (Ákæruvaldið gegn Ásmundi Hafsteinssyni). Um sönnunarskyldu vegna innskattsfrádráttar eru ákvæði í 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Eins og fyrr segir tiltók gjaldandi almennum orðum við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að um frekari vörukaup hefði verið að ræða í rekstri X ehf. en fram kæmi í hreyfingalista frá Z ehf., aðallega vegna kaupa á vörum í staðgreiðslu. Af hálfu gjaldanda hefur engin frekari grein verið gerð fyrir þeim útgjöldum eða lögð fram gögn þar að lútandi. Ekki verður betur séð en að staðgreiðslukaup séu tilgreind í umræddum hreyfingalista sem tekur til viðskipta allt árið 2004. Þá gefur tilfærður innskattur samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu X ehf. vegna tímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2004 ekki tilefni til að ætla að kaup aðfanga hafi numið verulega hærri fjárhæð en fyrir liggur samkvæmt málsgögnum. Að svo vöxnu verður ekki talið að tilefni sé til að taka tillit til frekari frádráttar rekstrarkostnaðar eða innskatts en gert er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

5. Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að annmarkar voru á innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts X ehf. sem tók til uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2004. Þá voru ekki gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin maí-júní til og með nóvember-desember 2004 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan. Gjaldandi var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og bar ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar að því er varðar virðisaukaskattsskil X ehf. umrædd uppgjörstímabil á árinu 2004, en vangreiddur virðisaukaskattur að teknu tilliti til oftalinnar veltu tímabilið janúar-febrúar 2004 og innskatts telst nema 793.502 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, í samræmi við kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt 2. lið í kröfugerð embættisins, dags. 8. maí 2008. Að virtum málsatvikum þykja ekki efni til ákvörðunar viðurlaga á grundvelli 1. liðar í kröfugerð.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum