2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 23/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 23/2010                                                                 

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 235/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að X ehf., kt. [...], og A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 15. október 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál X ehf., kt. [...], og A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattstjórans í Suðurlandsumdæmi vegna allra uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2005 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 40.101.292 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 9.824.818. Mögulegur vanframtalinn innskattur nemur samtals kr. 5.347.267.

Sundurliðast vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Vanframtalinn innskattur
2005 mars – apríl 1.768.447 433.269 131.360
2005 maí – júní 9.050.265 2.217.315 1.009.175
2005 júlí – ágúst 1.379.008 337.857 610.460
2005 sept. – okt. 3.091.448 757.405 355.255
2005 nóv. – des. 3.811.497 933.817 405.556
Samtals kr.   19.100.665 4.679.663 2.511.806
2006 janúar – febrúar 6.682.845 1.637.297 670.814
2006 mars – apríl 2.674.443 655.239 393.836
2006 maí – júní 2.175.435 532.981 222.806
2006 júlí – ágúst 1.683.500 412.458 120.183
2006 sept. – okt. 1.796.700 440.192 339.091
2006 nóv. – des. 5.987.704 1.466.988 1.088.731
Samtals kr.   21.000.627 5.145.155 2.835.461
  Samtals bæði árin kr. 40.101.292 9.824.818 5.347.267  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Þá varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna ofangreindra uppgjörstímabila rekstrarársins 2005 og 2006 hefur X ehf. verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 230.015, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að X ehf. og A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 15. október 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 16. október 2008, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. október 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði sem fyrirsvarsmanni X ehf., kt. [...], gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna meintra brota hans á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Þá er þess krafist að X ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðu. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstraráranna 2005 og 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 8. nóvember 2007. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 17. september 2007 og beindist aðallega að virðisaukaskattsskilum félagsins vegna seldrar þjónustu við [...] á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 5. og 12. október 2007 og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram, en einnig var byggt á bókhaldsgögnum X ehf., gögnum frá fyrirtækjaskrá og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 19. október 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldenda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. nóvember 2007, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2005 og 2006 eru:

·1  Virðisaukaskattsskýrslum hefur ekki verið skilað.

·2  Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·3  Innskattur er vantalinn.“

 Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 19.100.665 kr. rekstrarárið 2005 og 21.000.627 kr. rekstrarárið 2006 og útskattur um 4.679.663 kr. fyrra árið og 5.145.155 kr. það síðara, en innskattur næmi 2.511.806 kr. árið 2005 og 2.835.461 kr. árið 2006.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 8. nóvember 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til X ehf., dags. 1. febrúar 2008, sem ekki var svarað af hálfu félagsins, tók ríkisskattstjóri virðisaukaskatt X ehf. árin 2005 og 2006 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 7. mars 2008. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta félagsins í 24,5% skattþrepi ákvörðuð samtals 19.100.665 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til og með nóvember-desember 2005 og 21.000.627 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006. Að teknu tilliti til innskatts 2.511.806 kr. greind uppgjörstímabil árið 2005 og 2.835.461 kr. árið 2006 varð virðisaukaskattur X ehf. því 2.167.857 kr. árið 2005 og 2.309.693 kr. árið 2006. Á þær fjárhæðir bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 244.046 kr. árið 2005 og 230.969 kr. árið 2006 Af hálfu X ehf. voru heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra ekki nýttar.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. nóvember 2007, kemur fram að gjaldandi, A, hafi verið stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri X ehf. á því tímabili sem rannsóknin tók til. Að því er varðar skattskilagögn og bókhald félagsins kemur fram að ekki hafi verið gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabila á árunum 2005 og 2006. Vegna rannsóknar málsins hafi gjaldandi, A, afhent bókhaldsmöppur með gjaldafylgiskjölum og afrit af útgefnum sölureikningum X ehf. árin 2005 og 2006. Bókhald félagsins vegna þessara ára hafi ekki verið fært. Sölureikningar hafi verið gefnir út vegna seldrar þjónustu og séu fyrirliggjandi sölureikningar með númerabilinu 1-05 til 59-05 vegna rekstrarársins 2005 og nr. 1-06 til 58-06 vegna rekstrarársins 2006.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu X ehf. árin 2005 og 2006 byggja á umræddum sölureikningum félagsins greind ár, samtals að fjárhæð 23.780.328 kr. árið 2005 og 26.145.782 kr. árið 2006. Samkvæmt því og með vísan til þess að skil hafi ekki verið gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins umrædd ár er niðurstaða skattrannsóknarstjóra um þennan þátt sú að skattskyld velta sé vantalin um 19.100.665 kr. rekstrarárið 2005 og 21.000.627 kr. rekstrarárið 2006 og útskattur um 4.679.663 kr. fyrra árið og 5.145.155 kr. síðara árið.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti er vísað til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum X ehf. og upplýsingum gjaldanda, A, við skýrslutöku nemi innskattur 2.511.806 kr. rekstrarárið 2005 og 2.835.461 kr. rekstrarárið 2006.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. október 2007 staðfesti gjaldandi, A, að hann væri framkvæmdastjóri X ehf. og stjórnaði daglegum rekstri félagsins. Bókhaldsstofan [Y] hefði séð um einhvern hluta bókhaldsins, hugsanlega launaútreikning, en bókhaldið hefði hins vegar ekki verið fært, enda væri gjaldandi nýbúinn að hafa til gögnin. Trassaskapur og tímaskortur gjaldanda hefði valdið því að bókhaldið hefði ekki verið fært. Sömu ástæður væru fyrir því að virðisaukaskattsskýrslum fyrir rekstrarárin 2005 og 2006 hefði ekki verið skilað. Við skýrslutökuna voru útgefnir sölureikningar X ehf. árin 2005 og 2006 lagðir fyrir gjaldanda og kannaðist gjaldandi við alla sölureikningana og sagði að þeir hefðu allir fengist greiddir að einum undanskildum. Þá voru við skýrslutökuna og skýrslutöku, sem fram fór 12. október 2007, lögð fyrir gjaldanda gögn um rekstrarkostnað og innskatt X ehf. og samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins á fjárhæð rekstrargjalda og innskatts árin 2005 og 2006. Kvaðst gjaldandi ekki gera athugasemdir við samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins og telja hana rétta.

4. Gjaldendur hafa sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda, A, á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu félagsins á árunum 2005 og 2006. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldendum í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er varðar skattskylda veltu X ehf. árin 2005 og 2006 byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins að fjárhæð 23.780.328 kr. umrædd uppgjörstímabil árið 2005 og 26.145.782 kr. árið 2006. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 19.100.665 kr. rekstrarárið 2005 og 21.000.627 kr. rekstrarárið 2006. Af hálfu gjaldanda, A, er viðurkennt að tekjur félagsins hafi numið þeim fjárhæðum sem sölureikningar þessir bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. október 2007. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að skattskyld velta X ehf. hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi, A, afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins kostnaðargögn vegna rekstrar X ehf. og eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um innskatt byggðar á þeim. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til innskatts með hærri fjárhæð en greinir í rannsóknarskýrslu.

Samkvæmt framansögðu telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að skil voru ekki gerð á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin mars-apríl 2005 til og með nóvember-desember 2006 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan. Gjaldandi, A, var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og bar ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar að því er varðar virðisaukaskattsskil X ehf. umrædd uppgjörstímabil á árunum 2005 og 2006, en vangreiddur virðisaukaskattur að teknu tilliti til innskatts telst nema 4.477.551 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir bera að líta til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 8.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Upplýst hefur verið í máli þessu að bú X ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Að því virtu og svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að gera félaginu sekt vegna framangreindra brota á lögum nr. 50/1988.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 8.500.000 kr. til ríkissjóðs. Þrotabúi X ehf. verður ekki gerð sekt í máli þessu.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum